Sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:06:20 (1299)

2003-11-05 20:06:20# 130. lþ. 21.24 fundur 231. mál: #A sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:06]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Þegar spurt er hvort það sé til skoðunar í ráðuneytinu að veita sérstakt fé til sjálfstæðra rannsókna í Tækniháskóla Íslands er svarið við því já. Ný lög um Tækniháskóla Íslands voru sett 8. maí 2002 og í 1. gr. laganna, sem fjallar um hlutverk skólans, segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tækniháskóli Íslands er menntastofnun á háskólastigi. Háskólinn veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu þar sem æðri menntunar er krafist. Tækniháskóli Íslands leggur áherslu á að veita menntun á tæknisviðum. Háskólanum er heimilt að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum, auk þess að veita símenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.``

Eins og fram kemur í þessari tilvitnun er skólanum samkvæmt nýju lögunum heimilt að stunda hagnýtar rannsóknir og þróunarstörf. Nýju lögin höfðu í för með sér miklar skipulagsbreytingar á starfsemi skólans og hafa stjórnendur hans einbeitt sér að því að koma þeim í kring. Samkvæmt eldri lögum var ekki gert ráð fyrir því að í skólanum væru stundaðar rannsóknir og þarf því að byggja slíkt starf frá grunni. Það hefur verið í umræðu í ráðuneytinu að veita skólanum fé til að hefja rannsóknarstarfsemi árið 2004 þegar aðrar breytingar verða væntanlega um garð gengnar. Þegar niðurstaða fjárlaga liggur fyrir fyrir árið 2004 verður tekin afstaða til þess hvort um sérstakar fjárveitingar til rannsókna í Tækniháskólanum verður að ræða og þá í hvaða mæli.

Það er rétt að geta þess að við þessa hröðu uppbyggingu háskólastigsins sem við höfum horft á sl. 10--15 ár hafa skólarnir tekið til starfa og síðan fetað sig inn á rannsóknarsviðið og við höfum fylgt því eftir með fjárveitingum til skólanna eftir því sem ástæður og tilefni hafa gefist til. Að sjálfsögðu standa Íslendingar mjög sterkt að því er varðar rannsóknir. Staða þeirra í rannsóknum er í raun og veru sú að þeir eru með einna hæsta hlutfallið í heiminum af þjóðartekjum sem varið er til rannsókna þegar litið er á heildina, bæði atvinnulífið og hið opinbera. Það er aðeins ein, e.t.v. tvær þjóðir sem standa aðeins framar í þeim efnum og þeir hafa náð þeim 3% af vergri þjóðarframleiðslu sem Evrópusambandið er langt frá að ná en hefur sett sér sem takmark.

Það er rétt að geta þess líka að þegar um opinber framlög til rannsókna er að ræða munu Íslendingar vera í broddi fylkingar. Þetta eru allt saman staðreyndir sem er rétt að taka til athugunar hér í þingsalnum þegar reynt er að meta stöðu Íslendinga í þessu sambandi.

Að því er varðar nýsköpunina höfum við þar verk að vinna. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, þar höfum við verk að vinna, en það er einmitt nú í fjárlögum þessa árs verið að ganga inn á nýjar brautir með hinu nýja vísinda- og tækniráði þar sem gert er ráð fyrir því að stofnaður verði tækniþróunarsjóður og ég geri fastlega ráð fyrir því að hann muni bæta stöðu okkar mjög verulega í þessum efnum. Heildarfjárframlög til vísinda og rannsókna og tækniþróunar munu aukast mjög verulega á næstu fjórum árum þannig að ég er hv. fyrirspyrjanda sammála um að þarna er um að ræða mikið mál sem þarf að fylgja fast eftir og ríkisstjórnin hefur einsett sér að gera það.