Sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:12:33 (1302)

2003-11-05 20:12:33# 130. lþ. 21.24 fundur 231. mál: #A sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:12]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er alveg rétt að skólinn er í mótun og ég gat þess áðan að það væri mikils vert að stjórnendur skólans einbeittu sér að því að koma skólanum af stað fyrstu skrefin. Rannsóknir standa ekki og falla með því að það séu sérmerktir fjárliðir til rannsókna. Í raun og veru hafa háskólar eins og Háskólinn í Reykjavík og fleiri háskólar fengið framlög til rannsókna úr óskiptum liðum ráðuneytisins þannig að það er ekkert lokað á þann möguleika að Tækniháskóli Íslands geti fengið fjárframlög til rannsókna. Það kemur í ljós við niðurstöðu fjárlaga.

Ég vil hins vegar taka það fram að Tækniháskólinn hefur gert tvo samninga, annars vegar við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hins vegar við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, ef ég man það rétt, og þar er um það að ræða að skólinn er að feta sig inn á rannsóknarslóðir. Við megum ekki gleyma því að þegar við tölum um opinbert fjárframlag til rannsókna er þar annars vegar um að ræða bein fjárframlög til skólanna, í öðru lagi fjárframlög sem fara í gegnum óskipta liði og í þriðja lagi erum við að tala um samkeppnissjóði sem eru að sjálfsögðu opinbert fé og þegar þetta er talið saman kemur í ljós að það hlutfall sem háskólarnir eru með til rannsókna er miklu hærra en það er oft talið þegar það er talið sem hlutfall af kennslu. Það má segja að Háskóli Íslands verji t.d. í útgjöldum sínum nánast helmingi heildartekna sinna til kennslu og hinum helmingnum til rannsókna.