Nám í hjúkrunarfræði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:14:48 (1303)

2003-11-05 20:14:48# 130. lþ. 21.25 fundur 236. mál: #A nám í hjúkrunarfræði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:14]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa hefur verið viðvarandi um árabil. Vorið 1999 birti Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skýrslu sem ber heitið Mannekla í hjúkrun. Þar kom fram að alls væru um 300 stöðugildi hjúkrunarfræðinga hjá heilbrigðisstofnunum ómönnuð miðað við stöðuheimildir samkvæmt fjárhagsáætlunum. Jafnframt kom þar fram að það var áætlað af yfirmönnum á stofnununum að stöðuheimildir samkvæmt fjárhagsáætlun væru um 425 of fáar miðað við þörf á heilbrigðisstofnunum á Íslandi. Samkvæmt þessu vantaði þá um 700 stöðugildi hjúkrunarfræðinga til starfa á árinu 1999 og ekki hefur verið bætt neitt síðan. Þess má geta að um 2.200 hjúkrunarfræðingar eru í starfi hér á landi og þessar tölur benda til þess að um mikinn vanda sé að ræða.

Því til staðfestingar að ekki er um ofmat að ræða vil ég benda á að samkvæmt samanburðartölfræði í norrænum skýrslum er fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverja 100 þús. íbúa mun minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Hjúkrunarfræðingar í starfi á Íslandi eru um 65% af starfandi hjúkrunarfræðingum annars staðar á Norðurlöndunum með sömu viðmiðun. Og til að ná Norðurlöndunum í þessum efnum þyrfti um 800 fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa í fullt starf hér á landi. Á hinn bóginn má náttúrlega segja það að íslenskir hjúkrunarfræðingar eru almennt með lengri menntun í sínu fagi að baki og hærra stig en hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndum og rannsóknir hafa sýnt að það skilar sér í aukinni framleiðni og bættri heilbrigðisþjónustu.

Jafnframt langar mig að benda á að hjúkrunarfræðingar á Íslandi skila sér betur til starfa en kollegar þeirra á Norðurlöndum. Hér á landi eru um 85% menntaðra hjúkrunarfræðinga í starfi en sams konar tala er t.d. um 50% í Noregi þannig að þeir skila sér mikið til starfa hér og í mjög háu starfshlutfalli, um það bil 75--80%. Við nýtum mjög vel þá hjúkrunarfræðinga sem hafa menntað sig.

Á árinu 2002 var gert átak á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um að kynna nám í hjúkrunarfræði fyrir ungu fólki og hvetja það til að íhuga hjúkrun sem framtíðarstarf. Þetta átak er í samvinnu heilbr.- og trmrn., landlæknis, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, Landspítala -- háskólasjúkrahúss, FSA og heilsugæslunnar í Reykjavík. Árangurinn lét ekki á sér standa. Fjöldi innritaðra stúdenta í hjúkrunarfræðinám hefur aukist verulega. Í haust skráðu sig um 230 einstaklingar í nám á fyrsta ári við hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands og yfir 60 nemendur við Háskólann á Akureyri. Alls eru þá um 300 nemendur á fyrsta ári en vegna fjöldatakmarkana --- það komast sem sagt 75 áfram hér fyrir sunnan og 36 fyrir norðan --- eru þrír nemendur um hvert sæti og það er ekki nokkur vafi á því að íslenskt samfélag þarf að mennta mun fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa en nú er og því legg ég fyrir hæstv. menntmrh. þær spurningar sem liggja hér frammi.