Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 11:02:09 (1308)

2003-11-06 11:02:09# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir áliti minni hluta landbn. á frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir gerði grein fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar.

Umfjöllun um þetta mál hefur verið skipt í nokkra kafla. Í fyrsta lagi hefur verið farið vandlega yfir formið. Eins og hv. þingmenn þekkja voru sett bráðabirgðalög í sumar og nefndin fór yfir það hvort setning þeirra stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er niðurstaða minni hluta landbn. að setning bráðabirgðalaganna í sumar geri það ekki. Við rökstyðjum það í áliti okkar og mun ég fara yfir það á eftir.

Í öðru lagi vekur málið nokkra furðu, vegna þeirra hagsmuna sem allir helstu sérfræðingar landsins telja að sé ógnað í lífríki og náttúru með með því að heimila þann innflutning sem hér um ræðir, að samstarf umhvrn. og landbrn. virðist ekki hafa verið neitt í þessu máli. Það vekur furðu að þessi ráðuneyti skuli ekki hafa leitað allra leiða til þess að tryggja þessa hagsmuni þrátt fyrir nauðsyn þess að lögleiða þá viðskiptatilskipun sem hér hefur verið vitnað til.

Ég mun gera frekari grein fyrir því hér á eftir en niðurstaða okkar í minni hluta landbn. er í fyrsta lagi sú að við teljum að bráðabirgðalagasetningin í sumar standist ekki 28. gr. stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi er sú leið sem hæstv. landbrh. og meiri hluti landbn. hefur ákveðið að fara í þessum efnum ekki skynsamleg. Það hefði verið skynsamlegra að gæta umhverfissjónarmiða og hæstv. umhvrh. hefði sett reglugerð um innflutning á dýrum, sem hefði sennilega getað komið í veg fyrir þá ógn sem allir helstu sérfræðingar sem fyrir landbn. komu telja að lögfesting þessara reglna kunni að hafa í för með sér fyrir lífríki og náttúru. Þetta eru helstu niðurstöðurnar, virðulegi forseti.

Nú ætla ég að gera grein fyrir áliti minni hluta landbn. Því minnihlutaáliti fylgir í fskj. greinargerð Ragnhildar Helgadóttur, lektors við Háskólann í Reykjavík, sem kom fyrir nefndina.

Einnig kom fyrir nefndina Eiríkur Tómasson lagaprófessor sem taldi líkt og Ragnhildur að setning bráðabirgðalaganna í sumar hefði teygt 28. gr. stjórnarskrárinnar lengra en áður þekktist í réttarsögunni. En vegna þeirrar einu niðurstöðu Hæstaréttar sem liggur fyrir um setningu bráðabirgðálaga eftir breytingu á stjórnarskránni árið 1991 þá treystu menn sér ekki til þess að fullyrða að þetta færi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þau færðu reyndar fram öll rök um að svo væri.

Virðulegi forseti. Frumvarpinu sem er til afgreiðslu er ætlað að staðfesta setningu bráðabirgðalaga ríkisstjórnarinnar frá því í sumar. Nefndaráliti þessu verður því skipt í þrennt. Í fyrsta kaflanum er fjallað um bráðabirgðalagasetninguna frá í sumar og lögmæti hennar. Í öðrum kafla er fjallað þá hagsmuni sem heimild til innflutnings á lifandi fiski, krabbadýrum, og lindýrum stofnar í hættu. Í þriðja kafla er stuttlega samandregin niðurstaða minni hluta landbn.

Í greinargerð Ragnhildar Helgadóttur lektors við Háskólann í Reykjavík er fjallað ítarlega um þau skilyrði sem verður að uppfylla, svo að heimilt sé að setja bráðabirgðalög. Greinargerð hennar er fylgiskjal með álitinu.

28. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um hvaða skilyrði verða að vera uppfyllt svo að heimilt sé að setja slík lög, en þar segir:

,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný.

Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, falla þau úr gildi.``

Ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar var breytt í það horf sem það er nú árið 1991 með lögum nr. 56/1991. Breytingin var afrakstur nefndar sem í sátu allir þingflokksformenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá sátu á þingi. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar eru sett þrjú skilyrði fyrir setningu bráðabirgðalaga, í fyrsta lagi er kveðið á um að brýna nauðsyn beri til setningar þeirra, í öðru lagi að Alþingi sé ekki að störfum og í þriðja lagi að bráðabirgðalögin fari ekki í bága við stjórnarskrá. Það má fullyrða að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, o.s.frv. fara hvorki gegn þeim skilyrðum að þing hafi ekki setið né að efni laganna fari gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar svo séð verði. Vafi leikur því aðeins á hvort bráðabirgðalögin fari gegn kröfunni um að brýna nauðsyn hafi borið til setningar laganna.

Dómstólar hafa fyrir löngu talið sér heimilt að fjalla um það mat bráðabirgðalöggjafans hvort skilyrðið um brýna nauðsyn sé uppfyllt þótt þeir hafi ekki hingað til talið svo vera. Breytingin sem gerð var á stjórnarskránni árið 1991 gerði m.a. ráð fyrir að Alþingi sæti allt árið. Þingfundum þess væri aðeins frestað. Eins og fram kemur í ræðum nefndarmanna og formanns nefndarinnar, Ólafs G. Einarssonar, var sú breyting m.a. gerð í því skyni að takmarka eða koma í veg fyrir útgáfu bráðabirgðalaga nema í undantekningartilvikum. Í umræðum sem fram fór um breytingarnar sagði Ólafur G. Einarsson, þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars:

,,Ég tel að það hafi verið farið of frjálslega með þessi réttindi sem ríkisstjórn hefur [beitingu heimilda til setningar bráðabirgðalaga] og tel að láta eigi af þeim ósið að gefa út bráðabirgðalög þegar þing er í hléi. Ef þessar breytingartillögur okkar verða samþykktar á að vera hægurinn að kalla þingið saman til þess að fjalla um löggjöf sem ríkisstjórnin telur sér á hverjum tíma nauðsyn á að fá samþykkta. Þetta tel ég að allt eigi að leiða til þess að menn hætti bráðabirgðalagaútgáfu, en ég gat fallist á það nú að rétturinn til útgáfu bráðabirgðalaga yrði ekki afnuminn nú.``

Í sama streng tóku aðrir ræðumenn sem fjölluðu um málið. Tilgangurinn með breytingunni um að þingið sæti allt árið var því sá að auðveldara yrði að ná þinginu saman ef ríkisstjórnin mæti það svo, meðan þing ekki situr, að nauðsyn bæri til að setja lög. Þessi skilningur nefndarmanna og annarra þingmanna sem tóku til máls við umfjöllun þingsins um breytingarnar kemur glögglega fram þegar skoðuð er þróun beitingar bráðabirgðalaga frá árinu 1991.

Til gamans lét ég kanna það við vinnslu á þessu áliti og í ljós kom að frá árinu 1874 hafa verið sett 447 bráðabirgðalög. Til þess að reyna að draga fram þær breytingar sem átt hafa sér stað á setningu bráðabirgðalaga frá breytingu stjórnarskrárinnar 1991 skoðaði ég 10 ára tímabil. Á árunum 1971--1980 voru sett 65 bráðabirgðalög. Á árunum 1981--1990 voru sett 43 bráðabirgðalög. Á árunum 1991--2000, þ.e. á gildistíma nýrra ákvæða stjórnarskrárinnar, voru sett fimm bráðabirgðalög. Af þessu má glöggt ráða og greinilega sjá hver vilji löggjafans var þegar þessar breytingar á stjórnarskránni voru gerðar.

Augljóst er að breytingin á stjórnarskránni 1991 hefur haft veruleg áhrif á þróunina hvað varðar beitingu heimildar til setningar bráðabirgðalaga. Hingað til hafa bráðabirgðalög einkum verið sett vegna efnahags- og kjaramála, m.a. um inngrip í vinnudeilur vegna verkfalla, og náttúruhamfara, auk þess sem finna má tilvik vegna árásanna á New York 11. september 2001, en þá voru sett bráðabirgðalög um tímabundna ábyrgð ríkissjóðs vegna trygginga og endurtrygginga á bótaábyrgð flugfélaga. Þá hafa verið sett bráðabirgðalög vegna nauðsynlegra leiðréttinga vegna augljósra mistaka sem átt hafa sér stað hjá Alþingi við setningu laga.

Með öðrum orðum er það einkum þegar ríkisstjórnin metur það svo að efnahagsstefna hennar sé í uppnámi, að nauðsynlegt hafi verið að grípa inn í kjaradeilur eða vegna náttúruhamfara og hryðjuverka sem ríkisstjórnin hefur fundið sér tilefni til að beita bráðabirgðalagaheimildinni.

Í aðdragandanum að gerð þessa álits gátum við hvergi fundið hliðstæðu þess að gripið væri til setningar bráðabirgðalaga þegar slíkir hagsmunir voru í uppnámi sem hér um ræðir. Af þessum efnisflokkum má ráða að meginreglan hafi verið sú að brýna nauðsyn hafi borið til þegar bráðabirgðalög hafa verið sett. Við þessa skoðun kom fram að bráðabirgðalögin frá því í sumar virðast ekki eiga sér hliðstæðu í réttarsögunni. Varla er að finna nokkurt tilvik þar sem sérstök lög hafa verið sett vegna lítilla fjárhagslegra hagsmuna fárra fyrirtækja og aðrir hagsmunir, jafnvel mun stærri, settir í uppnám af þeim sökum.

Frá því að 28. gr. stjórnarskrárinnar var breytt hefur aðeins einn hæstaréttardómur gengið um gildi bráðabirgðalaga eftir að stjórnarskrárbreytingin frá 1991 tók gildi. Það er hæstaréttardómur nr. 1995:2417. Málið laut að breytingum á niðurstöðu Kjaradóms sem ríkisstjórnin taldi mundu hafa veruleg áhrif á stjórnmálaaðstæður og ástand í þjóðfélaginu þannig að ákvarðanir hans tækju nú mið af stöðu og afkomuhorfum þjóðarbúsins, svo og almennum launabreytingum í kjarasamningum almennra launþega. Meiri hluti Hæstaréttar, þrír dómarar, taldi mat bráðabirgðalöggjafans standast ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar, en minni hlutinn, tveir dómarar, taldi svo ekki vera.

Enn fremur er að finna í niðurstöðu minni hluta Hæstaréttar að hann metur það svo að við þær aðstæður að ríkisstjórnin telur að nauðsynlegt sé að beita bráðabirgðalagaheimildinni sé henni í raun skylt, eftir breytingarnar 1991, að kalla saman þing.

Þetta er í reynd eina fordæmi Hæstaréttar sem hægt er að horfa til við mat á því nú hvort skilyrði ákvæðis stjórnarskrárinnar sé uppfyllt. Þar féllu atkvæði þrjú gegn tveimur, en lagasetningin var rökstudd með því að stjórnmálaástandið, efnahagsástandið og afkomuhorfur þjóðarbúsins hefðu verið í uppnámi yrði ekki gripið til ráðstafana.

Ég held að það sé ekki djúpt í árinni tekið, virðulegur forseti, sé því haldið fram að ekki sé hægt að setja fram sambærileg rök í þessu tilviki.

[11:15]

Nú ætla ég að fjalla aðeins um setningu bráðabirgðalaganna sem tóku gildi 1. júlí 2003. Sams konar frv. og það sem síðar varð að lögum við setningu bráðabirgðalaganna í sumar var lagt fram á Alþingi í mars sl. Í því var gert ráð fyrir að lögin tækju gildi 1. ágúst 2003, þ.e. það frv. sem lagt var fram á Alþingi í mars sl., en þá taldi hæstv. landbrh. ekki brýnni nauðsyn en svo á gildistöku þeirra reglna að gildistakan átti að eiga sér stað 1. ágúst 2003 eða mánuði síðar en menn töldu nauðsynlegt í sumar að gildistaka bráðabirgðalaganna miðaðst við, þ.e. 1. júlí 2003. Það frv. náði ekki fram að ganga á því þingi. Þingsköp Alþingis gera ráð fyrir að frumvörpum sem ekki verða að lögum á því þingi þegar þau eru lögð fram sé í reynd hafnað og þau skuli leggja fyrir Alþingi á nýju þingi eigi þau að geta orðið að lögum. Frv. hæstv. landbrh. dagaði því uppi og varð ekki að lögum á því þingi.

Sú ályktun verður því vitaskuld dregin af þeirri niðurstöðu að þingið hafi í mars hafnað því frv. sem síðar var lögfest með bráðabirgðalögum í sumar. Nú veit ég ekki hliðstæðu þess að slík staða hafi verið uppi við setningu bráðabirgðalaga.

Alþingi kom aftur saman eftir kosningarnar 10. maí sl. Umrætt frv. var ekki lagt fram á því þingi. Í sumar sem leið setti svo ríkisstjórnin umrædd bráðabirgðalög sem tóku gildi 1. júlí 2003 vegna lögleiðingar tilskipunar 91/1967, um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldistegunda og afurða, ásamt síðari breytingum. Bráðabirgðalögin voru sett til að greiða fyrir markaðssetningu íslenskra fyrirtækja á eldisfiski og hrognum til Skotlands en innflutningsbann hafði verið sett á íslensku eldisdýrin þar sem íslensk stjórnvöld höfðu ekki uppfyllt skilyrði um lögleiðingu tilskipunarinnar.

Hinn 1. júlí 2003 setti forseti Íslands bráðabirgðalög, nr. 103/2003. Í inngangsorðum bráðabirgðalaganna sagði, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra hefur tjáð mér [þ.e. forseta Íslands] að stjórnvöld í Skotlandi og á Írlandi hafi nýlega lagt bann við innflutningi eldisdýra og afurða þeirra héðan með skírskotun til þess að Ísland og fiskeldisstöðvar hér á landi hafi ekki sambærilegar viðbótartryggingar fyrir heilbrigðisástandi eldisdýra og gilda í þessum löndum. Komi það til af því að Eftirlitsstofnun EFTA hafi ekki talið sér heimilt að gefa út slíkar tryggingar fyrir Ísland fyrr en löggjöf hér á landi hefur verið aðlöguð ákvæðum tilskipunar nr. 91/67/EBE, um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra, eins og henni hafi verið breytt ... Viðskiptabann þetta tefli í tvísýnu rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja og valdi þeim og íslensku fiskeldi miklum álitshnekki. Í húfi séu miklir fjárhagslegir hagsmunir og tugir starfa, enda blasi uppsagnir við ef ekkert verði að gert.

Brýna nauðsyn beri því til þess að breyta nú þegar lögum á þann veg að lögleiða megi ákvæði áðurnefndra tilskipana og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að hnekkja þessum hindrunum.``

Sams konar sjónarmið og þessi komu fram í ræðu þeirri sem hæstv. landbrh. flutti á Alþingi þegar hann mælti fyrir frv. í haust.

Forsaga þessa máls er nokkuð löng. Tilskipunin er hluti af EES-samningnum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 69/1998, þ.e. tilskipunin 91/1967. Ísland hafði lengi haft undanþágu frá tilskipuninni. Sú undanþága féll endanlega úr gildi 30. júní 2002. Eftirlitsstofnunin EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum fjögur formleg kvörtunarbréf, þrjú þeirra dagsett í júní, nóvember og desember 2002 eða áður en hæstv. landbrh. lagði frv. fyrir Alþingi í mars sl. Má líta svo á að framlagning frv. þá hafi verið viðbrögð við þeim athugasemdum.

Í apríl 2003 sendi Eftirlitsstofnun EFTA rökstutt álit sem er síðasta formlega viðvörunin í málsmeðferðinni þar sem Íslandi var gefinn tveggja mánaða lokafrestur til að innleiða tilskipunin. Bréfið kemur í apríl 2003. Eftir þann frest yrði tekin ákvörðun um hvort höfða skyldi mál gegn íslenska ríkinu. Ljóst er að Alþingi kom saman eftir kosningarnar og þá eftir að íslensk stjórnvöld fengu umrætt bréf án þess þó að frumvarp um lögleiðingu tilskipunarinnar yrði lagt fram á því löggjafarþingi sem starfaði í nokkra daga eftir kosningarnar. Af þeirri staðreynd verður ráðið að íslensk stjórnvöld hafa ekki talið brýna nauðsyn að lögfesta tilskipunina vegna aðildarinnar að EES-samningnum. Það þurfti aðra hagsmuni til að svo slík nauðsyn teldist vera til staðar. Þetta styður það sjónarmið sem lesa má úr framsöguræðu landbrh. við framlagningu frv. að bráðabirgðalögin hafi fyrst og fremst verið sett vegna fjárhagslegra hagsmuna tiltekinna fyrirtækja í fiskeldi.

Vissulega er ætíð erfitt að átta sig á því hverjar fjárhagslegar afleiðingar bann af því tagi sem hér um ræðir kann að hafa í för með sér sem Skotar hafa sett gagnvart innflutningi á íslenskum eldisafurðum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam útflutningur Íslands á lifandi seiðum, laxahrognum og lifandi eldislúðu til Bretlands og Írlands alls um 6 millj. 258 þús. kr. á tímabilinu frá því að bráðabirgðalögin tóku gildi til dagsins í dag. Það eru hinir einu áþreifanlegu útflutningshagsmunir sem hægt er að benda á að hafi verið í uppnámi ef bráðabirgðalögin hefðu ekki verið sett.

Vel má vera að þrátt fyrir þessar tölur megi sýna fram á með einhverjum rökum að aðrir hagsmunir hafi einnig verið í húfi en þetta eru þær upplýsingar sem fram koma frá Hagstofu Íslands að hafi verið flutt út til þessara landa frá því að bráðabirgðalögin voru sett. Það verður að teljast afar sérstætt í þessu ljósi þó að vitaskuld vilji ég taka skýrt fram að þegar lögin voru sett gátu menn ekki séð nákvæmlega fyrir hverjir þeir hagsmunir voru en heildarútflutningur á þeim afurðum til þessara landa fyrstu tíu mánuði ársins eru nálægt 28 millj. kr. Fyrstu tíu mánuði ársins er heildarútflutningur til umræddra landa nálægt 28 millj. kr. þannig að í sjálfu sér hefði það ekki þurft að koma nokkrum á óvart að þeir brýnu hagsmunir, þ.e. fjárhagslegu hagsmunir hafi í reynd ekki verið meiri en raun ber vitni.

Það var bann á þennan innflutning íslenskra fiskeldisfyrirtækja til Skotlands og Írlands sem ríkisstjórnin taldi réttlæta setningu bráðabirgðalaga. Þessu vil ég harðlega mótmæla og vil vísa til þess að ef þessir hagsmunir réttlæta setningu bráðabirgðalaga þá erum við í reynd að segja að ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti meðan þing situr ekki sett hvaða lög sem eru, sett hvaða bráðabirgðalög sem eru. Við gætum allt eins átt von á því, af því að við ræðum ákvarðanir hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstjórnar, að bráðabirgðalög yrðu sett um umboðsmann íslenska hundsins. Og við getum átt von á hverju sem er ef þessir hagsmunir, sem í reynd kemur ekki á óvart að eru ekki meiri en raun ber vitni, yrðu viðurkenndir sem nægileg forsenda þess að gripið er til þeirrar heimildar sem veitt er ríkisstjórninni í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Við getum átt von á því að henni verði beitt á hvern þann hátt sem er. Það tel ég, virðulegi forseti, að hafi ekki verið hugsun Alþingis og stjórnarskrárgjafans þegar 28. gr. stjórnarskrárinnar var breytt árið 1991. Það er ekki nema von að þeir tveir sérfræðingar á þessu sviði sem fyrir hv. landbn. komu mátu það svo að aldrei fyrr í réttarsögunni hafi heimildir til setningar bráðabirgðalaga verið teygðar með jafnsvakalegum hætti og í þessu tilviki.

Ég vil taka skýrt fram að með þessu er ég ekki að gera lítið úr hagsmunum fiskeldisfyrirtækja og þeirrar atvinnustarfsemi sem þeim tengjast. En ég er hins vegar að vekja athygli á að ef þetta er viðurkennt, þá er í reynd eins og Alþingi starfar nú verið að viðurkenna að ríkisstjórnin færi með óheft lagasetningarvald ætíð þegar þingfrestun stendur yfir og við erum þá að tala um allt að 4--5 mánuði á ári. Ég met það þannig, virðulegi forseti, og minni hluti landbn. að slík niðurstaða sé með öllu ótæk og ekki líðandi.

Það er mat minni hlutans að nauðsynlegt sé fyrir ríkisstjórn áður en bráðabirgðalög eru sett að vanda mjög til verka og vega og meta alla þá hagsmuni sem kunna að vera í húfi við setningu laganna. Ekki verður séð að hagsmunir íslenskrar náttúru hafi að nokkru verið metnir áður en ákvörðun var tekin um að afnema innflutningsbann á lifandi fiskum, krabbadýrum og lindýrum. Í II. kafla þessa álits verður reynt að gera frekari grein fyrir þessum hagsmunum sem ekki virðist hafa verið gefinn mikill gaumur þegar ákvörðun um að setja bráðabirgðalögin frá því í sumar var tekin.

Þá vekur það sérstaka furðu minni hlutans sú staðreynd að landbrn. virðist ekkert hafa fjallað um þær leiðir sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor bendir á í álitsgerð sinni þar sem hann vekur athygli á heimild til að hafa innlendar reglur um verndun og viðhald tegunda sem falla utan gildissviðs tilskipunarinnar. Þennan sama skilning er að finna í bréfi Margot Wallström, ráðherra umhverfismála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en um þetta verður fjallað frekar á eftir.

Í ljósi þessa möguleika vekur það undrun að hæstv. umhvrh. sem fer með náttúruverndarmál skuli ekki hafa verið hafður með í ráðum um hvernig rétt væri að bregðast við þeirri ógn sem steðjaði að íslenskri náttúru þegar umræddu innflutningsbanni yrði aflétt. Til að bæta gráu ofan á svart er rétt að nefna að hæstv. umhvrh. hefur ekki enn sett reglugerð sem honum ber að setja, sem honum bar lagaskylda til að setja og sú skylda hefur hvílt á hæstv. ráðherra síðan 1999 samkvæmt ákvæði 41. gr. náttúruverndarlaga, en þar segir að birta eigi skrá yfir þær tegundir sem óheimilt er að flytja til landsins. Það er því mat minni hlutans að stjórnsýsla þeirra ráðuneyta sem fjalla áttu um þetta mál hafi ekki verið með þeim hætti sem gera verður kröfu til.

Að öllu þessu virtu og að teknu tilliti til þeirra röksemda sem fram koma í áliti þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina er það skoðun minni hlutans að skilyrðið um brýna nauðsyn til setningar bráðabirgðalaga samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki verið uppfyllt þegar umrædd bráðabirgðalög voru sett sl. sumar. Við teljum því, virðulegi forseti, að setning þessara bráðabirgðalaga fái ekki staðist þetta tiltekna ákvæði stjórnarskrárinnar. En hér verður þó að hafa í huga að setning þeirra laga var sérstök aðgerð og að sjálfsögðu drögum við ekki í efa að það frv. sem nú liggur fyrir þinginu standist stjórnarskrána, enda fyrir þingið komið á eðlilegan hátt eins og þingsköp kveða á um. Við erum fyrst og fremst að tala um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja umrædd bráðabirgðalög sem byggðu á þeim forsendum sem fram koma í gögnum sem tengjast setningu þeirra laga. Við teljum að þeir fjárhagslegu hagsmunir réttlæti ekki að Alþingi sé á þann hátt að mínu viti svipt lagasetningarvaldi sínu eins og gert var og ef sú niðurstaða yrði viðurkennd, þá væri í reynd verið að viðurkenna að Alþingi hefði ekki þetta lagasetningarvald stóran hluta ársins.

[11:30]

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að reyna að gera frekari grein fyrir þeim hagsmunum sem við í minni hluta landbn. teljum að hafi verið settir í uppnám við setningu þessara bráðabirgðalaga og ekki hafa verið gefinn nægur gaumur þegar sú ávörðun var tekin.

Tegundir í ám og vötnum á Íslandi eru fáar og vistkerfin ekki jafnflókin og þar sem tegundir eru margar. Því er lífríki í ám og vötnum hér mjög viðkvæmt fyrir röskun og skaðlegum áhrifum af innflutningi nýrra tegunda og stofna. Ein ágeng framandi krabbategund, eða lindýr, getur t.d. valdið verulegum skaða á vistkerfi í fersku vatni, m.a. á búsvæðum laxfiska.

Í umsögn Veiðimálastofnunar er bent á að í frumvarpinu sé fyrst og fremst tekið á sjúkdómahættu en ekki hættunni á erfðafræðilegum og vistfræðilegum áhrifum á lífríkið sem stafar af innflutningi lagardýra. Einnig að óhindraður innflutningur slíkra dýra geti valdið því að íslenskt vistkerfi bíði óbætanlegan skaða af og sérstöðu íslensks lífríkis í fersku vatni verði stofnað í stórkostlega hættu. Einnig er bent á þá hættu að eldisdýr geti sloppið eða verið sleppt og blandast innlendum stofnum sem fyrir eru.

Skemmst er að minnast þess að í kjölfar óhapps við slátrun úr sjókvíaeldi á Austfjörðum sóttu laxar úr sjókvíaeldi í íslenskar laxveiðiár og norskur eldishængur komst í eldisstöð til kreistingar fyrir íslenskt seiðaeldi.

Í umsögn Veiðimálastofnunar er minnt á hvernig innflutningur minksins hefur sett innlend vistkerfi í uppnám en sömu lögmál gilda um ferskvatnslífverur sem fluttar eru í vatni sem í geta borist lífverur sem ekki finnast í íslenskri náttúru. Í minnisblaði Náttúrufræðistofnunar segir að flest ríki taki þessa ógn mjög alvarlega og víðast sé ströng löggjöf til að stemma stigu við innflutningi framandi lífvera og dreifingu þeirra í samræmi við alþjóðlega samninga.

Á minnisblaði Náttúrufræðistofnunar segir að ekki aðeins sé íslenskur lax í hættu, heldur einnig búsvæði hans og annarra laxfiska, þ.e. urriða og bleikju, auk verðmæts lífríkis í íslenskum ám og vötnum. Lífríki Þingvallavatns og Mývatns séu t.d. einstök og þekkt á heimsvísu og þeim stafi hætta af þessari opnu heimild fyrir innflutningi á silungi, krabbadýrum og lindýrum. Mörg önnur íslensk vatnasvæði séu einstök og viðkvæm fyrir þessari ógn, t.d. Veiðivötn og Arnarvatnsheiði. Hvorki lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, né lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, taki á þeirri hættu sem steðjar að villtri náttúru vegna innflutnings á framandi tegundum eða stofnum heldur miði þau að því að koma í veg fyrir innflutning sjúkdóma.

Í greinargerð Veiðimálastofnunar segir að í náttúrunni hafi dýr aðlagast sýklum og sníkjudýrum viðkomandi svæðis að einhverju leyti. Flutningur dýra auki hættu á að framandi sýklar berist í nýtt umhverfi þar sem dýrastofna skorti mótefni við þeim. Þekking manna á sýklum og sníkjudýrum lagardýra sem og faraldsfræði þeirra sé takmörkuð og þótt meðhöndlun sjúkdóma og mótefnaframleiðsla gegn ákveðnum sjúkdómum hafi tekið framförum nægi sú þekking engan veginn til þess að tryggja að ekki verði stórslys við flutning lagardýra þannig að smitberar berist í eða á dýrunum eða í eldisvökva þeirra. Þar segir einnig að mörg dæmi væri hægt að nefna um sjúkdóma, t.d. í fiskum, sem borist hafa á milli landa með dýrum sem höfðu vottorð um heilbrigði. Þarna sé því tekin mikil áhætta, bæði fyrir íslenskt fiskeldi og náttúrulega stofna.

Í minnisblaði Náttúrufræðistofnunar til umhverfisnefndar Alþingis segir að með bráðabirgðalögunum hafi verið heimilaður innflutningur á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum, sem áður var bannaður, en landbúnaðarráðherra gat veitt undanþágur að fengnum umsögnum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt meðmælum yfirdýralæknis. Þetta þýðir að á meðan umhverfisráðherra hefur ekki sett reglugerð um innflutning dýra er innflutningur á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum heimill án leyfa og ekki þarf neinar umsagnir eða meðmæli. Bráðabirgðalögin galopna þannig fyrir óheftan innflutning á lífverum sem geta skaðað lífríki í fersku vatni á Íslandi.

Í greinargerð erfðanefndar landbúnaðarins segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er ekki tekið á þeim áhrifum sem slíkur innflutningur geti haft á vistkerfi og erfðamengi innlendra stofna. Hins vegar segir í 1. kafla, 1. gr., 2. mgr. tilskipunarinnar: ,,Þessi tilskipun gildir með fyrirvara um ákvæði bandalagsins eða innlend ákvæði um verndun tegunda.`` Hér er væntanlega verið að vísa til alþjóðlegra skuldbindinga eins og samningsins um líffræðilega fjölbreytni og samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífssvæða Evrópu: Erfðanefnd landbúnaðarins telur mjög mikilvægt að þetta ákvæði verði einnig tekið inn í frumvarpið.``

Í bréfi Margot Wallström, umhverfisstjóra Evrópusambandsins, frá 26. september 2003 segir --- í nefndaráliti minni hlutans er þetta raunar á ensku, en hljóðar í lauslegri þýðingu eitthvað á þá leið að hugsanleg útbreiðsla sjúkdóma verði að taka tillit til hins líffræðilega fjölbreytileika. Þess vegna verði við innlenda lagasetningu að huga mjög að vernd lífríkisins og náttúrunnar við flutning á lifandi dýrum milli svæða.

Þetta var í lauslegri þýðingu.

Kannski rétt að vísa til þess að hér er Margot Wallström í reynd að taka undir það að hér sé um svo sérstæða náttúru að ræða að það sé ekkert í Evrópusambandsreglunum sem mæli því í mót að innlend lagasetning byggi fyrst og fremst á verndun náttúrunnar og það séu sjónarmið sem séu viðurkennd og gangi jafnvel framar meginsjónarmiðunum um viðskiptafrelsi sem EES-samningurinn gengur út á.

Allar framangreindar tilvitnanir, ásamt fjölmörgum öðrum í gögnum landbúnaðarnefndar, ganga á einn veg: að hættan sem lífríki Íslands stafi af innflutningi á lifandi laxfiskum og öðrum dýrum til eldis sé mjög mikil og ekki séu nægilega öflug varnarákvæði í lögunum. Einnig er sterklega til þess vísað að ekki séu nýttir þeir möguleikar sem löggjafinn hefur til varnar lífríkinu, með tilvísan í alþjóðlegar skuldbindingar eins og samninginn um líffræðilega fjölbreytni og samning um verndun villtra plantna og dýra og lífssvæða Evrópu. Frumvarp landbúnaðarráðherra byggist algerlega á viðskiptalegum forsendum. Grunnstefið frumvarpi hæstv. ráðherra er viðskiptaleg rök þar sem reglum um sjúkdómavarnir er beitt sem tæknilegum viðskiptahindrunum. Minni hlutinn hafnar þessari leið. Minni hlutinn ítrekar þau sjónarmið sín að mun vænlegra sé að leggja megináherslu í innlendri löggjöf á vernd íslenskrar náttúru og vistkerfis hennar, enda byggist slík löggjöf á viðurkenndum sjónarmiðum um náttúruvernd og heyrir því ekki undir tilskipun 91/67 og EES-samninginn. Í þessu samhengi má vísa til fordæmis í dómi Evrópudómstólsins í máli ECJ Case C-67/97 sem hefur fengið nafnið býflugnadómurinn, þar sem viðurkennt er að staðbundin verndarsjónarmið til verndar sérstöku lífríki og náttúru geti gengið framar almennum viðskiptafrelsissjónarmiðum ESB-sáttmálans. Því miður leggur landbúnaðarráðherra og meiri hluti landbúnaðarnefndar ekki til að sú leið verði farin nú til verndar íslensku lífríki og náttúru. Það er jafnframt mat hagsmunaaðila --- er ég þá einkum að vísa til hagsmunaaðila á sviði stangaveiði og veiðiréttareigenda --- og sérfræðinga að þær breytingar sem lagðar eru til af landbúnaðarráðherra og meiri hluta landbúnaðarnefndar, í kjölfar þess að lögleiða verður umrædda tilskipun, séu haldlausar með öllu.

Það er í raun mat minni hluta landbn. að hæstv. landbrh. hafi í reynd ekki leitað allra leiða til þess að tryggja vernd íslenskrar náttúru og við í minni hluta landbn. erum í reynd að taka undir og benda hæstv. landbrh. á að hægt sé að fara aðra leið en þá sem hæstv. ráðherra vill fara. En böggull fylgir hins vegar skammrifi því verði sú leið farin flyst þessi vernd frá hæstv. landbrh., þ.e. vald, til hæstv. umhvrh. Ég ætla að vona, virðulegi forseti, að þessi veruleiki, valdatogstreita milli ráðuneyta og hæstvirtra ráðherra valdi því ekki að íslensk náttúra og lífríki sé sett í uppnám. Ég ætla að vona að svo sé ekki. En við yfirferð á þessu máli og í ljósi þess hversu margir benda á að sú leið sem við höfum bent á sé mun vænlegri þá er afar sérstætt að í gögnum málsins liggur fyrir bréf frá ráðuneytisstjóra umhvrn. um að umhvrn. hafi hvergi komið nálægt þessu máli. Ég ítreka því það og vona að hér sé ekki verið að setja stórfellda hagsmuni í verulegt uppnám vegna þess að ekki er talsímasamband milli hæstv. landbrh. og hæstv. umhvrh. Kannski liggur skýringin í því að hæstv. umhvrh. hefur ekki enn sett umrædda reglugerð sem byggir á 41. gr. náttúruverndarlaga um bann við innflutningi á dýrum. Kannski liggur skýringin í því að þessi mál hafa verið til umræðu í talsverðan tíma og tekist hefur verið á um hvar vald á þessum málaflokki eigi að liggja.

Því segi ég, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að ég vona að valdatogstreita hæstvirtra ráðherra geri þetta ekki að verkum þá bendir mjög margt í gögnum málsins til þess að svo sé. Það tel ég vera afar alvarlegan hlut ef rétt er.

Hinn möguleikinn er vitaskuld sá sem við höfum reyndar bent á fyrr, þ.e. að stjórnsýslan og undirbúningur þessa máls hafi ekki verið sem skyldi. En a.m.k. komu aldrei fram nein rök í hv. landbn. fyrir því hvers vegna sú leið skyldi ekki farin sem við bendum á. Við í minni hluta landbn. sitjum því uppi með það að við teljum vænlegt að fara aðra leið eins og fleiri sérfræðingar, eins og lagaprófessor í Evrópurétti í háskólanum hefur bent á, en hún er ekki farin og engin rök eru fram sett hvers vegna sú leið er ekki farin.

[11:45]

Í öðru lagi í kafla 2 í álitinu, virðulegi forseti, fjöllum við um villtan lax og þá hagsmuni sem kunna að verða settir í uppnám hvað hann varðar vegna afnáms innflutningsbanns á lifandi fiskum, krabbadýrum og lindýrum.

Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf þar sem villtir stofnar Atlantshafslax hafa nokkurn veginn náð að halda velli á undanförnum áratugum. Í öllum öðrum löndum hafa laxastofnar mjög látið á sjá eða þeim hefur hreinlega verið útrýmt. Ástæður þessa má meðal annars rekja til mengunar, virkjana og sjúkdóma.

Sömu sjónarmið um hvers vegna þessir stofnar hafa látið verulega á sjá komu fram á fundi hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur sem ég sótti í gærkvöldi.

Margir stofnar hafa orðið fyrir þungum áföllum af völdum sjúkdóma eða sníkjudýra sem rekja má til laxeldis. Fjölmörg dæmi finnast um þetta, meðal annars í Skotlandi og Noregi. Nú eru veiðar á villtum laxi í nágrannalöndunum aðeins brot af því sem var um og upp úr miðri 20. öld, þ.e. rétt áður en hafið var sjókvíaeldi í stórum stíl í þessum löndum.

Ég vil þó taka skýrt fram, virðulegi forseti, að það frv. sem við ræðum hér lýtur ekki beint að sjókvíaeldi. Hins vegar er ég hér að draga fram þau sjónarmið sem eigendur laxveiðiréttinda og sjóstangaveiðimenn hafa sett fram um það hvaða ógn geti steðjað að íslenskri náttúru ef ekki verður gott skipulag á innflutningi á þessum lifandi dýrum.

Íslendingar hafa blessunarlega verið lausir við hrun eða útrýmingu laxastofna sinna. Hér á landi er löng hefð fyrir því að reyna eftir fremsta megni að vernda og hlúa að villtum laxastofnum. Það hefur tekist bærilega þótt vissulega hafi menn sökum vanþekkingar í einhverjum tilvikum gert mistök. Sjókvíaeldi á laxi hefur verið mjög takmarkað. Veiðitölur tala skýru máli. Á tímabilinu 1974--2003 var meðalheildarveiði á villtum löxum í íslenskum laxveiðiám nálægt 35.000 löxum árlega. Mest veiddist árið 1978, en þá voru um 55.000 laxar dregnir á land. Lægst fór veiðin árið 1984, en þá veiddust um 25.000 laxar. Veiðin í fyrra var 36.000 laxar. Enginn vafi leikur á því að sala á laxveiðileyfum er mikilvæg tekjulind í mörgum sveitahéruðum hér á landi. Nefna má sveitir Borgarfjarðar, Húnavatnssýslur, Múlasýslur, Árnes- og Rangárvallasýslur í þessu sambandi og án efa mun fleiri. Talið er að laxveiðin skili um þremur milljörðum króna í tekjur árlega, þar af a.m.k. einum milljarði sem kemur frá útlendingum sem kaupa laxveiðiréttindi í íslenskum ám. Það er ljóst að hér eru stórkostlegir hagsmunir í húfi.

Mikil fjármunavelta er í kringum veiðarnar, bæði með sölu veiðileyfa og einnig í tengslum við ýmsa verslun og þjónustu sem tengist veiðunum. Heildarverðmæti þeirrar auðlindar sem felst í íslensku laxveiðiánum er talið nema um 30 milljörðum króna. Hér skal vitaskuld skýrt tekið fram að allt slíkt mat er mjög erfitt en hér er væntanlega byggt á hefðbundnum sjónarmiðum við fasteignamat, þ.e. að árlegar tekjur séu margfaldaðar með 10. Til viðbótar þessu verðmæti í krónum og aurum má síðan bæta þeirri auðlegð sem felst í þeim náttúruperlum sem laxveiðiárnar eru og þeirri staðreynd að veiðar og dvöl við þessar ár veita þúsundum manna mikla ánægju og hvíld árlega.

Það er líka alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vernda ímynd laxveiðinnar á Íslandi, og m.a. var á það bent af einstaklingum sem til þekkja og komu fyrir landbn. að mikið eldi við strendur Skotlands og Írlands hafi dregið mjög úr vægi og tekjumöguleikum áa á þeim svæðum.

Komið hefur fram í nýlegu svari landbúnaðarráðherra á hinu háa Alþingi að nú eru um 2,5 millj. laxa í sjókvíaeldi í Mjóafirði og Berufirði. Erfitt er að sjá fyrir að mikill hagnaður geti orðið af þessu eldi. Vitað er að laxeldi á mjög við ramman reip að draga í nágrannalöndunum þar sem laxeldi hefur þó verið stundað í áratugi. Sjúkdómar hafa t.d. valdið miklu tjóni. Meðal annars hefur veirusjúkdómurinn blóðþorri (ISA) valdið miklum búsifjum í Færeyjum. Þessi sjúkdómur hefur aldrei greinst í laxi hér á landi en þessir laxar sluppu nýverið úr kvíum í Oyndarfirði í Færeyjum en þaðan eru aðeins rúmar 300 sjómílur til sjókvíaeldisstöðvanna á Austfjörðum. Ef ég man ummæli hæstv. landbrh. rétt þegar eldisfiskar sluppu úr kvíum á Norðfirði hafði hæstv. landbrh. orð á því að vonandi mundu þeir bara synda til Færeyja. En ef hinir færeysku laxar taka undir sjónarmið hæstv. landbrh. með öfugum formerkjum gætu þeir tekið upp á því að synda til Íslands. (Gripið fram í.) Þá sjá menn hvílík hætta stafar af þessu. Með þessu er ég aðeins að draga fram hvaða hagsmunir geta verið í húfi. Og ég er líka að draga það fram, virðulegi forseti, að það að ráðast í bráðabirgðalagasetningu á þann hátt sem gert var í sumar á jafnlítt ígrundaðan hátt þegar jafnlitlir hagsmunir og raun ber vitni voru í húfi er mjög alvarlegt í mínum huga og mjög alvarlegt í huga minni hluta landbn. Við teljum, virðulegi forseti, að hæstv. landbrh. og ríkisstjórninni í heild sinni hafi orðið verulega á í aðgerðum sínum og við skoðun hefur reynst mjög erfitt að finna viðunandi rök fyrir þessum aðgerðum, og eiginlega vonlaust.

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að mikið af eldislaxi sleppur árlega úr sjókvíum. Ekkert hefur komið fram sem sannfærir minni hlutann um að það sé minni hætta á að lax sleppi úr sjókvíum við Ísland en sjókvíum við Færeyjar eða Noreg svo að dæmi sé tekið. Talið er að um 2 millj. laxfiska hafi sloppið úr sjókvíunum við Norður-Atlantshaf í fyrra. Þar af sluppu um 620 þús. laxar og urriðar úr norskum kvíum. Það sem af er þessu ári hafa Norðmenn misst 354 þús. laxfiska úr sínum kvíum en talið er að um 600 þús. laxar hafi sloppið úr sjókvíum við Færeyjar á síðasta ári.

Það er alþekkt staðreynd að eldislaxar leita upp í laxveiðiár þar sem þeir geta spillt fyrir hrygningu villtra laxa og jafnvel blandast þeim að erfðum sem aftur kann að veikja villta laxastofninn og gera hann síður hæfan til að komast af við náttúrulegar aðstæður. Veiðimálastofnun hefur m.a. bent á þetta í ágætri umsögn frá 22. október 2003.

Íslenskar laxveiðiár eru flestar litlar en mjög fjölbreytilegar að allri gerð. Tiltölulega fáir laxar ganga í þær árlega. Ekki síst er miðað við þann gríðarlega fjölda norskættaðra eldislaxa sem nú eru í sjókvíum á Austfjörðum. Minni hlutinn telur því nauðsynlegt að ýtrustu varúðarráðstafana verði gætt við veitingu leyfa til sjókvíaeldis við strendur Íslands.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en vakið sérstaka eftirtekt á þeim málflutningi sem meiri hluti landbn. og á köflum hæstv. landbrh. hafa haft uppi sem réttlætingu fyrir þeim bráðabirgðalögum sem sett voru í í sumar. Þau hafa sagt að allt fiskeldi í landinu hafi verið í uppnámi. Því vil ég mótmæla harðlega. Það minnisblað sem hv. formaður landbn., Drífa Hjartardóttir, las upp úr áðan er minnisblað sem minni hlutinn hefur ekki séð. Það minnisblað hefur sem sagt ekki verið kynnt minni hluta landbn. þannig að þær upplýsingar sem þar voru raktar hafa ekki verið kynntar okkur. En það breytir ekki hinu að þær röksemdir sem voru settar fram fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga voru fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis vegna þess að uppi var að ákvarðanir höfðu verið teknar um bann á innflutningi þeirra dýra sem hér um ræðir til Skotlands og hugsanlega Írlands. Innflutningur til þessara landa frá 1. júlí til dagsins í dag nemur rúmum 6 millj. kr. Það er í reynd sá hlutlægi mælikvarði sem við getum lagt á þá ákvörðun sem tekin var af ríkisstjórninni í sumar. Allt annað er útúrsnúningur af hálfu ríkisstjórnar og þeirra sem mæla fyrir þessu.

Því segi ég það, virðulegi forseti, að af öllu framansögðu er það mat minni hluta landbn. að setning bráðabirgðalaganna í sumar hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem 28. gr. stjórnarskrárinnar gerir um heimild til setningar þeirra. Það er einnig mat minni hlutans að setning laganna hafi sett mikla hagsmuni í náttúru Íslands í uppnám og að undanþáguheimildir samkvæmt tilskipun 91/1967 og 13. gr. EES-samningsins hafi ekki verið nýttar til fulls. Það gagnrýnum við harðlega og í því felst gagnrýni á þá leið sem hæstv. landbrh. ákvað að fara í stað þess að fela hæstv. umhvrh. að sjá um að setja þær reglur sem er nauðsynlegt að setja til að tryggja þessa hagsmuni.

Minni hlutinn telur enn fremur að vinnubrögð Stjórnarráðs í þessu mikilvæga máli geti ekki talist eðlileg. Það var í reynd ekkert samstarf eins og fram kemur í skriflegri yfirlýsingu ráðuneytisstjóra umhvrn. milli landbrn. og umhvrn. í þessu mikilvæga máli. Ég ítreka því þá afstöðu minni hluta landbn. að hann lítur þetta mjög alvarlegum augum.

Hv. alþm. Magnús Þór Hafsteinsson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur nál. þessu en ásamt þeim sem hér stendur stendur að áliti þessu allur minni hluti landbn., þ.e. hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Ásgeir Friðgeirsson. Eftir að hafa gert grein fyrir áliti minni hluta landbn., virðulegi forseti, vil ég segja að það er mjög mikilvægt að yfir þetta mál verði sest nú, yfir þetta mál verði sest enn frekar og leitað nýrra leiða til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt vegna þess að ég held að í raun og veru hafi minni hluti landbn., meiri hluti landbn. og hæstv. landbrh. sömu markmið í málinu. Hins vegar teljum við að vinnubrögðin og þær leiðir sem eru farnar til að ná þessum markmiðum muni ekki ganga upp og við teljum að sú mikla áhersla sem lögð er á sjúkdómavarnir í þessu kunni að verða túlkuð þannig í framtíðinni að um sé að ræða fyrst og fremst tæknilegar viðskiptahindranir sem er beitt í ljósi þeirra krafna sem koma frá tilskipuninni um frjáls viðskipti með þau dýr og markaðssetningu þeirra dýra sem tilskipunin fjallar um.

Ég vil nefna það hér og þakka formanni nefndarinnar fyrir að þrátt fyrir að við höfum haft skamman tíma var hægt að kalla til alla þá sérfræðinga sem við óskuðum eftir og þeir komu fyrir nefndina. Því er hægt að fullyrða að samstarfið í nefndinni hafi verið með ágætum og það þrátt fyrir að Norðurlandaráðsþing hafi komið þarna inn í vinnu nefndarinnar. Eins og hv. þm. þekkja þarf að afgreiða þetta frv. innan sex vikna frá því að þing kemur saman því ella falla lögin úr gildi og þá um leið væntanlega allar reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli laganna.

Að þessum orðum sögðum, virðulegi forseti, hef ég lokið við að gera grein fyrir áliti minni hluta landbn.