Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:07:34 (1312)

2003-11-06 12:07:34# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við aðra af meginniðurstöðum minni hluta landbn. sem gengur út á það að við setningu bráðabirgðalaganna hafi skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar ekki verið uppfyllt. Ég tel að þessi niðurstaða sé ekki bara röng, heldur algjörlega lögfræðilega ótæk. Og af hverju segi ég það? Jú, ég segi það vegna þess að fyrst og fremst er vísað í tvö atriði þessari niðurstöðu til stuðnings, annars vegar hæstaréttardóm þar sem meiri hluti Hæstaréttar fellst á það að skilyrði stjórnarskrár um brýna nauðsyn hafi verið uppfyllt þegar þau lög voru sett. Samt sem áður kýs minni hlutinn í landbn. að vísa til þessa dómafordæmis máli sínu til stuðnings, í mál Hæstaréttar þar sem komist er að allt annarri niðurstöðu en niðurstaða nál. byggir á. Í öðru lagi er vísað til álits sérfræðinga sem komu fyrir nefndina og á grundvelli þeirra álitsgerða ályktað að setning bráðabirgðalaganna hljóti að brjóta í bága við skilyrði 28. gr.

Ef við skoðum þá álitsgerð sem lögð hefur verið fram með þessu máli, álitsgerð Ragnhildar Helgadóttur, segir þar, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þeim dómum sem gengið hafa um þetta atriði á síðasta áratug tel ég ólíklegt að dómstólar mundu telja bráðabirgðalöggjafann hafa farið út fyrir valdsvið sitt samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar er lög nr. 103/2003 voru sett. Sú niðurstaða er þó ekki vafalaus.``

Þetta hlýtur að þýða að álitsgerðin komist að þeirri niðurstöðu að það sé mjög ólíklegt að skilyrði um brýna nauðsyn hafi ekki verið uppfyllt. Það sætir því furðu að minni hluti landbn. komist að þveröfugri niðurstöðu.