Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:11:25 (1314)

2003-11-06 12:11:25# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nú þannig til að ég hef lesið álitið í gegn og veit út á hvað það gengur. Það verður ekki fram hjá því litið að minni hlutinn byggir niðurstöðu sína um það að setning bráðabirgðalaganna hafi ekki staðist ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar á álitsgerð Ragnhildar Helgadóttur og niðurstöðu hennar. Sú álitsgerð gengur þvert gegn niðurstöðu nefndarinnar. Og ef við bara tölum á mannamáli og sleppum lögfræðimálinu varpa ég fram spurningu, og svara henni: Hvert er inntak og niðurstaða álitsgerðarinnar? Jú, niðurstaðan er sú að höfundur álitsgerðarinnar, hinnar lögfræðilegu álitsgerðar, segir að telji einhver að réttur hafi verið á sér brotinn við setningu bráðabirgðalaganna vegna þess að skilyrði stjórnarskrár um brýna nauðsyn hafi ekki verið uppfyllt er ólíklegt að dómstólar mundu fallast á kröfur viðkomandi á þeim grundvelli. Þetta er aðalatriðið. Ef menn færu í mál og flögguðu álitsgerð sem þessari bæri náttúrlega álitsgjafa, eins og t.d. flutningsmanni, hv. þm. sem hér stóð í pontunni, að vekja athygli á því að niðurstaða álitsgerðarinnar, hinnar lögfræðilegu álitsgerðar, er sú að að öllum líkindum mundi setning bráðabirgðalaganna standast ákvæði stjórnarskrárinnar.

Þess vegna sætir það furðu að minni hluti landbn. komist að þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram og gengur þvert á það lögfræðiálit sem hún sjálf byggir á.