Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:38:47 (1322)

2003-11-06 12:38:47# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, MS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:38]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Við erum hér að fjalla um mál sem er fyrst og fremst til komið vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum og til fullgildingar tilskipun Evrópusambandsins sem varðar m.a. viðskiptafrelsi. Það hefur komið fram, bæði í þessari umræðu hér og áður, að hér er um að ræða mjög flókið og snúið mál. Það er á margan hátt viðkvæmt og snertir stóra hagsmuni, ekki einungis hvað varðar fiskeldi eða laxveiðihlunnindi o.s.frv. heldur einnig hagsmuni Íslands almennt í samstarfi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í umfjöllun í landbn. um málið var leitað allra leiða til þess að ná þeim markmiðum sem ég hygg að allir hafi í huga, þ.e. að gæta hagsmuna íslenska villta laxastofnsins og lífríkisins í ám og vötnum. Nefndin átti samskipti við fjölmarga aðila, fékk, eins og fram hefur komið, álit frá ýmsum aðilum þannig að nefndin er vel nestuð í þessari umfjöllun og ég vil nota tækifærið og þakka samstarfið við alla þá aðila sem hafa komið að málinu.

Ég vil líka að það komi fram hér að í umfjöllun um málið var það vilji, hygg ég, flestra og þar á meðal okkar í meiri hlutanum að við gætum fundið leið til þess að lögbinda fortakslaust bann við innflutningi laxfiska. Um það mál var fjallað ítarlega og við leituðum álits ýmissa aðila, bæði hérlendis og erlendis. Niðurstaðan varð sú að það væri ekki fært að gera þetta með þeim hætti vegna þess að það samrýmdist ekki þeirri tilskipun sem um er að ræða og þar með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Niðurstaða okkar varð því sú, því miður, að þessi leið væri ófær.

Þær tillögur sem hér liggja fyrir frá meiri hluta nefndarinnar ganga eins langt og okkur þykir fært að ganga miðað við þær forsendur sem liggja fyrir, sérstaklega gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þær skuldbindingar sem þar liggja að baki. Niðurstaða okkar varð sú að leggja fram þessa tillögu. Ég tel að verði frv. samþykkt gefi það alla möguleika á því að ná þeim markmiðum sem við höfum í huga varðandi vernd íslenska laxastofnsins og lífríkisins. Þar eru veittar ýmsar heimildir sem landbrh. hefur þá, eftir að frv. verður lögfest, til þess að beita aðgerðum til að svo megi verða.

Ég vil líka í þessu sambandi benda á að í ýmsum öðrum lögum og reglugerðum eru ákvæði sem snerta málið. Ef til þess kæmi að einhver aðili vildi flytja hér inn laxfiska eða slíkt eru ýmis lög og reglugerðir sem næðu yfir málið. Ég bendi þar m.a. á ákvæði um starfsleyfi, mat á umhverfisáhrifum o.s.frv. þannig að það er víða eitthvað sem við getum kallað öryggisgirðingar í laga- og reglugerðaumhverfinu til að tryggja að þessum markmiðum verði náð, þ.e. að vernda lífríkið.

Hv. formaður landbn., Drífa Hjartardóttir, hefur gert hér ítarlega grein fyrir niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar og farið yfir nál. sem liggur fyrir og brtt. Ég vil sérstaklega draga fram tvennt í því sambandi, í fyrsta lagi það að meiri hlutinn leggur til að 62. gr. laga um lax- og silungsveiði verði breytt þannig að varðandi skilyrði til rekstrarleyfis, fiskeldis og hafbeitar annars vegar og hins vegar umsagnarferil þurfi veiðimálastjóri ekki eingöngu að leita umsagnar Veiðimálastofnunar um það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- og hafbeitarstöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun og/eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum, heldur þurfi einnig að líta til þess hvort fyrirhugaðar eldistegundir eða eldisaðferðir gefi tilefni til þessarar hættu. Í öðru lagi vil ég einnig vísa til brtt. þar sem lagt er til að sett verði sérstakt öryggisákvæði þar sem landbrh. er heimilt að takmarka eða banna innflutning á laxfiskum til að koma í veg fyrir blöndun á staðbundnum stofnum og vistfræðilega og erfðafræðilega hættu að fengnu vísindalegu áliti Veiðimálastofnunar.

Ég vil, herra forseti, undirstrika þessar tvær af þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur hér fram. Þær sýna fram á að við höfum lagt okkur fram um að tryggja þessa hagsmuni eins vel og okkur hefur þótt fært.

Ég vil einnig fá að vísa til nál. umhvn. sem hér var gerð grein fyrir áðan þar sem athyglisverðir hlutir koma fram. Ég er mjög ánægður með það nál. Það er vel unnið og gert í fullri samstöðu allrar nefndarinnar.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég tel að hér hafi komið fram öll meginatriði málsins ef ég vísa til framsögu formanns nefndarinnar. Ég vil að lokum segja það að ég er eftir ástæðum ánægður með þessa niðurstöðu meiri hlutans og tel að þar hafi verið unnið gott verk og ítarlegt, og ég tek undir það sem fram hefur komið hér að landbn. hefur lagt sig mjög fram í þessu máli þrátt fyrir að stuttur tími hafi verið til umfjöllunar og þar hafi verið unnið faglega og kallað eftir öllum upplýsingum og sjónarmiðum sem nefndarmenn töldu þörf á.

Ég geri mér grein fyrir því að ýmsir hagsmunaaðilar sem tengjast málinu hefðu viljað að lengra yrði gengið í að banna innflutning, sérstaklega ef við tölum um laxfiska. En ég trúi því að þegar frá líður verði menn sáttir við þá niðurstöðu sem meiri hluti landbn. leggur hér fram og að hún verði metin að verðleikum.