Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:46:57 (1333)

2003-11-06 14:46:57# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Talsmenn okkar í Samf. í umhvn. og landbn., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hafa gert góða og skilmerkilega grein fyrir afstöðu okkar til ýmissa efnisatriða málsins. Ég hef út af fyrir sig ekki neinu við það að bæta, til þess eru þau mér fremri að bæði viti og þekkingu á málinu sem hér er fyrir. Ég vil þó fá að nota tækifærið og hrósa sérstaklega vinnubrögðum formanns landbn., hv. þ.m. Drífu Hjartardóttur og meiri hluta landbn., því að þótt meiri hlutinn hafi ekki viljað fara þær leiðir sem minni hlutinn lagði til, þá finnst mér að það beri að halda því til haga að meiri hluti landbn. hefur tekið á þessu máli af festu og sannarlega leiðbeint ráðherranum eins og löggjafans hlutverk er. Ég held að ekki væri ósanngjarnt að segja að formaður landbn., hv. þm. Drífa Hjartardóttir, hafi í þessu máli sett bæði kút og kork á hæstv. landbrh., Guðna Ágústsson, því ef ekki hefðu komið til þær sex efnisbreytingar á frv. hæstv. landbrh., þá hefði hann auðvitað sokkið á bólakaf í málinu.

Það er auðvitað hið vandræðalegasta að landbrh. komi hér að sumri loknu með frv. sem stjórnarmeirihlutinn í þinginu verður síðan að gefa út að sé varla þingtækt og að hér séu sett bráðabirgðalög sem í sex efnisatriðum þurfi að leiðrétta þegar á næsta þingi. Það eru vinnubrögð sem eru engum til sóma. Það sést náttúrlega best þegar litið er yfir ríkisstjórnarbekkinn hér í dag, að það er enginn í ríkisstjórninni sem vill verja þetta verklag. Það hefur enginn af helstu forustumönnum ríkisstjórnarinnar komið hér og varið þetta verklag við umræðuna. Ég ítreka, herra forseti, að þetta er augljóslega allt hið vandræðalegasta mál.

En mér finnst sómi að því að landbn. tekur málið föstum tökum, gerir þær efnisbreytingar sem hún telur nauðsynlegar, þótt okkar fólk hafi viljað ganga lengra í því efni og ég vil hrósa hv. þm. Drífu Hjartardóttur sérstaklega fyrir að hafa fyrir hönd þingsins staðið í lappirnar ef svo má segja í málinu.

En ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að ég kem hér upp er þó kannski fyrst og fremst önnur og hún er sú að ég átta mig ekki alveg á aðdraganda málsins, enda verður að virða mér það til vorkunnar að ég er nýliði í þinginu. Mér sýnist að það frv. sem hér er fyrir varði óverulega hagsmuni. Það má eflaust deila um hvort þeir hagsmunir nema 6 milljónum eða 50 milljónum, eða jafnvel eitthvað eilítið meira en 50 milljónum, en óverulegir hljóta þeir að teljast og ég held að sannfærandi rök hafi verið leidd að því að engin knýjandi nauðsyn hafi kallað á það að sett væru bráðabirgðalög.

En ef það var knýjandi nauðsyn að sett væru lög, þá skil ég ekki hvers vegna þingið var ekki kallað saman til að fjalla um það. Og í því efni, virðulegur forseti, velti ég fyrir mér hlutverki forseta Alþingis og því hvaða samskipti hafi farið fram milli Stjórnarráðsins og Alþingis í aðdraganda málsins. Ég veit ekki betur en ég sé á launum hjá hinu háa Alþingi í 12 mánuði á ári og kalla megi mig til starfa, sé til þess knýjandi þörf, með tiltölulega skömmum fyrirvara. Og hafi sú knýjandi þörf verið fyrir hendi, þá ítreka ég að ég skil ekki hvers vegna það ekki var gert.

Mér finnst mikilvægt að við þessa umræðu komi fram hvort forseta Alþingis hafi verið kunnugt um að í undirbúningi væri setning bráðabirgðalaga um þessi efni, laga sem eins og fram hefur komið ekki var talið unnt að setja á þinginu vegna tímaskorts og vegna þess að það þyrfti að taka tíma til að vanda vel til verka eins og raunin hefur nú orðið í landbn. Var forseta Alþingis kunnugt um þær fyrirætlanir? Var óformlegt eða formlegt samráð milli Stjórnarráðsins og Alþingis um með hvaða hætti skyldi staðið að þessu? Spurðist Stjórnarráðið fyrir um hvort forseti teldi efni til að kalla saman þingið vegna þeirrar knýjandi nauðsynjar sem Stjórnarráðið sá á því að setja þessi lög?

Mér finnst það mikilvægt vegna þess að við sem kusum hæstv. forseta Alþingis hér á vordögum gerðum það auðvitað í trausti þess að hann gætti stjórnsýslunnar í þinginu og héldi hlut þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég er þeirrar skoðunar að bráðabirgðalög eigi ekki að setja nema brýna nauðsyn beri til og þá á ég við hryðjuverk, náttúruhamfarir eða aðra slíka aðsteðjandi vá sem ekki þolir neina bið að bregðast við. Og síðan hins vegar þegar óumdeilt er að Alþingi hafi orðið á mistök, þá má leiða rök að því að óþarfi sé að kalla saman þingið vegna þess að enginn ágreiningur sé um að leiðrétta slík mistök með bráðabirgðalögum. En í öllum öðrum tilfellum þá tel ég að kalla eigi saman þing. Ég tel að meðferðin í landbn. og þær sex efnisbreytingar sem meiri hluti landbn. leggur til á frv. sýni það einfaldlega og sanni að það eru þau vinnubrögð sem vert er að hafa, að kalla þingið saman, fjalla efnislega á vandaðan hátt um málin til að tryggja að lagasetningin sé í lagi.

Þetta er afstaða mín og mér finnst mikilvægt að ljóst sé hver afstaða forseta Alþingis er í þessu efni. Telur forseti Alþingis að setning þessara bráðabirgðalaga hafi verið í lagi? Hvers vegna gekkst hann ekki fyrir því að þingið væri kallað saman? Og hvenær telur hann ástæðu til að þingið sé kallað saman?