Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:55:59 (1335)

2003-11-06 14:55:59# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, ÁF
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Það er sannarlega athyglisvert að stjórnarliðar skuli eyða dýrmætum tíma sínum í að setja kút og kork hver á annan. Ég hélt að menn ættu að vera orðnir syndir þegar þeir væru komnir í ráðherrastól.

Atvinnusköpun á landsbyggðinni er eitt af mikilvægustu viðfangsefnum stjórnvalda í dag. Nýsköpun er vandasöm. Huga þarf vel að undirbúningi slíkra verkefna og sá undirbúningur er ákaflega mikilvægur. Skoða þarf alla þætti málsins, huga vel að orsökum og afleiðingum, ekki hvað síst þegar um er að ræða verkefni sem tengjast vistkerfi okkar og viðkvæmri náttúru. Vel skal vanda það sem lengi skal standa.

Í mínum huga eru brtt. meiri hluta landbn. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, staðfesting þess að hæstv. landbrh. vandaði ekki vinnu sína þegar hann undirbjó bráðabirgðalögin í sumar og setti þau síðan. Það er mjög áberandi að allur þessi málatilbúnaður sýnir hvernig stjórnvöld fórna ítrekað almennum og almannahagsmunum fyrir sérhagsmuni.

Ég vil halda því sérstaklega til haga í þessu máli að tilefni bráðabirgðalaganna var í sjálfu sér ekki staða fyrirtækjanna út af fyrir sig eða þessarar greinar. Tilefnið er miklu frekar sinnuleysi stjórnvalda, að hafa ekki sinnt því að skapa atvinnugreinum hér á landi eðlilegt umhverfi. Bráðabirgðalagasetningin var í raun viðbrögð stjórnvalda við eigin skussahætti. Það að ríkisstjórnin skuli síðan hleypa þessum bráðabirgðalögum í gegn er kafli út af fyrir sig.

Við höfum nefnt að tilefnið er frekar lítið, 6 milljónir hafa verið nefndar. Það má segja að kominn sé verðmiði á bráðabirgðalög. Þetta er svona meðalyfirdráttur hjá meðalstóru fyrirtæki sem um ræðir. En þó svo að fjárhæðirnar séu hærri, þó svo að þessi verðmæti sem þarna um ræðir séu kannski fimm sinnum meiri eða tíu sinnum meiri, (Landbrh.: Hundrað sinnum.) þá er mjög erfitt í mínum huga (Landbrh.: Margt annað er í húfi.) að réttlæta slík bráðabirgðalög eins og fram hefur komið í ræðum í morgun.

Það sem líka blasir við er hversu óvönduð þessi lagasetning er. Þetta er óvönduð lagasetning sem stefnir umhverfinu í hættu. Ekki er hugað að öllu og ekki vandað til. Þetta er óvönduð lagasetning sem stefnir einum farsælasta sprota íslensks landbúnaðar í hættu, sem eru veiðar í ám, laxveiðar í ám, ein farsælasta og fegursta grein landbúnaðar okkar sem skapar verðmæti, aflar okkur tekna erlendis frá sem okkur er að sjálfsögðu mjög mikilvægt.

Þetta er óvönduð lagasetning þar sem ekki virðist vera gangvegur á milli tveggja ráðherra í sama flokki, ráðherra sem reyndar kepptu um sama embættið nýverið í þeim flokki. (Landbrh.: Nei, nei, það er ekki rétt --- við stóðum saman ...) Miklu frekar spyr ég þá, fyrst vinskapur er svona mikill, því voru þessi mál ekki rædd og leyst með eðlilegum hætti? Hvers vegna var ekki farin sú leið sem flestir telja að sé heppilegust og eðlilegust í þessu, þ.e. að slá skjaldborg um einstaka náttúru, einstakt umhverfi hér á landi, vernda fjölbreytileika náttúrunnar og vernda þær einstöku perlur sem við búum við hér á landi?

Ég tel að forsvarsmenn fiskeldis hafi komið á fund hæstv. ráðherra í góðri trú. Ég held að þeir hafi átt við talsverðan vanda að stríða. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr þeim vanda sem felst í sambýli ferskvatnsveiða í ám og fiskeldis í sjó. Ég held að stjórnvöld mættu gefa því enn meiri gaum og hefja þegar undirbúning að ítarlegum rannsóknum þar að lútandi þannig að ekki þurfi aftur haltur að leiða blindan.

En það er ekki vandi þessara fyrirtækja eða þessara greina sem er hér aðallega til umræðu. Það eru hin undarlegu úrræði stjórnvalda. Það eru fyrst og fremst vinnubrögð stjórnvalda, það eru viðbrögðin við þeim vanda sem við sem stöndum að áliti minni hlutans í landbn. gerum athugasemdir við. Það eru fyrst og fremst vinnubrögðin.

Virðulegi forseti. Ég tel að ef forsvarsmenn fiskeldis hér á landi telji ráðherra til vina sinna eftir að hafa hleypt hagsmunum þeirra í uppnám með óvönduðum vinnubrögðum, þá held ég að þeir ágætu menn þurfi ekki á óvinum að halda.