Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:18:20 (1337)

2003-11-06 15:18:20# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með langri ræðu. Við í Frjálsl. höfum skýra afstöðu í þessu máli. Á síðasta landsþingi samþykkti Frjálsl. að hafna eldi á erlendum laxastofnum við strendur Íslands. En við ætlum að gera meira með okkar samþykktir en Sjálfstfl. og Framsfl., en þeir viðast vilja gleyma þeim sem fyrst eftir kosningar.

Ég minnist samþykktar framsóknarmanna um að gera ætti betur við atvinnulaust fólk. Það varð fyrsta verk hæstv. félmrh. að ráðast á kjör þessa fólks. Maður efast í þessari umræðu í raun um orð hæstv. landbrh., þ.e. hvað hann meini með þessari elsku sinni á íslenskri náttúru.

Ég tek heils hugar undir álit minni hluta landbn. sem telur í fyrsta lagi að bráðabirgðalögin sem sett voru í sumar standi á mjög veikum grunni. Ég spyr því hæstv. landbrh. hvers vegna þingið var ekki kallað saman fyrst svona miklir hagsmunir voru í veði. Hvað var því til fyrirstöðu?

Það er merkilegt að enginn ráðherra skuli reyna að verja þessa lagasetningu. Það hefur þó hv. þm. Drífa Hjartardóttir gert með því að vitna í mögulegar sölutölur. En raunveruleikinn varðandi þessa hagsmuni sýnir að það voru ekki mjög háar upphæðir í veði. Ég skora á hæstv. landbrh. að koma hér og greina okkur frá því hvers vegna þingið var ekki kallað saman. Hvað stóð því til fyrirstöðu? Var það færð eða hvað var því til fyrirstöðu? (Landbrh.: Sumarsólin.) Það var sumarsólin.

Ég ætla heldur ekki að rekja í löngu máli þá hættu sem innflutningur á útlendum laxastofnum setur íslenska náttúru í og aðra hagsmuni og hagsmuni veiðiréttarhafa. Það hefur verið gert hér í löngu máli fyrr í dag. Hér hefur komið fram að hann stofnar lífríkinu í hættu og það hefur líka komið fram að allar vísindastofnanir sem hafa fjallað um þetta mál og eiga aðkomu að því hafa gagnrýnt þessa lagasetningu.

Í gær var ég staddur á fundi hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Þar flutti hæstv. landbrh. skemmtilega ræðu sem var nú kannski ekki innihaldsmikil. Þó kom fram að hann viðurkenndi ákveðna hætta bæði fyrir veiðiréttarhafa og einnig íslenska náttúru. (Landbrh.: Og?) Jú, hann kallaði sig varðmann íslenska laxins. Mér finnst þá rétt að varðmaðurinn koma hérna upp og segi okkur frá því hvaða girðingar hann ætlar að setja laxinum til verndar og íslenskri náttúru. Ég hef ekki séð þessar girðingar. Mér væri akkur í því ef greint yrði frá því hér hvaða aðgerða eigi að grípa til.

Svo er oft vitnað til þess að strangar reglur gildi um starfsleyfi þessara fyrirtækja. Jú, en í framhaldi af því er rétt að spyrja: Hvað gerist ef þeir brjóta starfsleyfið? Hvaða ábyrgð eru þessi fyrirtæki látin sæta? Hvaða ákvæðum var beitt eða var einhver látin sæta ábyrgð þegar laxinn slapp út í Mjóafirði nú í sumar? Það væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. landbrh. hvaða sektum var beitt í því tilfelli.

Vegna þess að hæstv. landbrh. hefur viðurkennt að hagsmunir veiðiréttarhafa eru í hættu þá er rétt að spyrja: Hvernig á að bæta þeim ef illa fer? Mér finnst að það verði að koma fram hjá varðmanninum. Hann verður að segja okkur frá því.

Einnig tel ég rétt að taka betur á í umhverfislöggjöfinni þannig að menn geti ekki brotið starfsleyfisreglur og sæti engri ábyrgð. Þeir urða jafnvel lax í óleyfi svo tugum tonna skiptir. Síðan er urðunarstaðurinn bara gerður löglegur eftir á.