Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:24:00 (1338)

2003-11-06 15:24:00# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SKK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessari ræðu ætla ég að fjalla örlítið nánar um álit minni hluta landbn. Ég gerði það reyndar í stuttu andsvari fyrr í dag. En ég vil gjarnan fara yfir þau atriði í nál. sem ég tel rétt að gera athugasemdir við og tel að standist í rauninni ekki. Ég vil að þessum atriðum sé haldið til haga í þessari umræðu vegna þess að ýmsu hefur verið haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar sem lítill fótur er fyrir.

Því miður eru nú reyndar þeir hv. þm. sem skrifa undir nál. ekki staddir í salnum þrátt fyrir að hafa farið mikinn í ræðustól. Vonandi heyra þeir til mín og geta komið til að svara þeim spurningum eða þeim álitaefnum og sjónarmiðum sem koma munu fram í þessari ræðu. (Gripið fram í: Það er verið að ná í þá.)

Varðandi niðurstöðu minni hluta landbn. þá er það um hana að segja að hún er í grundvallaratriðum í þremur liðum. Í fyrsta lagi er það niðurstaða minni hlutans að setning bráðabirgðalaganna uppfylli ekki ákvæði 28. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Í öðru lagi er því haldið fram að hagsmunir náttúrunnar séu settir í uppnám og í þriðja lagi er því haldið fram að vinnubrögð Stjórnarráðsins séu óeðlileg. Ég ætla ekki að fjalla um alla þessa liði heldur ætla ég að fjalla um fyrsta atriðið sem ég tel að sé meginniðurstaðan hvað varðar álit minni hluta landbn., þ.e. hvort setning bráðabirgðalaganna uppfylli ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Ágreiningurinn snýst í rauninni ekkert um öll þau skilyrði sem fram koma í 28. gr. stjórnarskrárinnar heldur fyrst og fremst um það hvort það skilyrði um brýna nauðsyn til setningar laganna hafi verið uppfyllt. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur lýst því hér yfir að hún telji að svo sé ekki og tekur þar með undir nál. minni hlutans, en undir það skrifa hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Ásgeir Friðgeirsson.

Í sjálfu sér er ekkert nýtt að menn geri ágreining um það þegar sett eru bráðabirgðalög að brýna nauðsyn hafi borið til slíkrar lagasetningar. Í rauninni varða öll þau mál sem hafa komið fyrir dómstóla í réttarsögunni og lúta að þessu ákvæði stjórnarskrárinnar, ágreining um hvort skilyrði laganna um brýna nauðsyn hafi verið uppfyllt. Minni hluti landbn. telur að svo hafi ekki verið og í rökstuðningi sínum fyrir þessu atriði er vísað til tveggja atriða niðurstöðunni til stuðnings.

Í fyrsta lagi er vísað til álits sérfræðinga, á bls. 4 í álitinu, og í öðru lagi til dóms Hæstaréttar í máli frá árinu 1995, á bls. 2417 í Dómasafni Hæstaréttar.

Hvað varðar álit sérfræðinga þá hljóta höfundar nefndarálitsins og fulltrúar í minni hluta nefndarinnar að vísa til álitsgerðar Ragnhildar Helgadóttur lektors við Háskólann í Reykjavík, enda leggja þeir álitsgerðina fram sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Þeir sem mynda minni hlutann telja sem sagt að þessi tvö atriði styðji þá niðurstöðu sem þeir komast að í sínu áliti.

Ef við víkjum að þessum dómi Hæstaréttar í máli frá 1995, á bls. 2417 í Dómasafni Hæstaréttar, þá er alveg ljóst af þeim dómi, þegar hann er lesinn, að í niðurstöðu hans er ekki fallist á það með þeim sem höfðar það mál að með þeirri bráðabirgðalagasetningu sem málið varðar hafi verið brotið gegn ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hlýt náttúrlega að lýsa furðu minni á því að minni hluti landbn. skuli vísa til niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem gengur þvert gegn niðurstöðu nefndarinnar í álitinu sem hún hefur sent frá sér. Það er algjörlega óskiljanlegt að menn skuli ætla að styrkja niðurstöðu sína með tilvitnun í dóm sem gengur þvert gegn þeirra eigin niðurstöðu.

Ef við víkjum að hinu atriðinu sem er lögfræðileg álitsgerð Ragnhildar Helgadóttur þá liggur hún frammi sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Í niðurstöðukaflanum er fjallað um það, svo það sé tekið fram, hvort brýn nauðsyn hafi verið fyrir setningu bráðabirgðalaganna og hvort skilyrðum 28. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið fullnægt. Þar segir, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Með hliðsjón af þeim dómum sem gengið hafa um þetta atriði á síðasta áratug tel ég ólíklegt að dómstólar myndu telja bráðabirgðalöggjafann hafa farið út fyrir valdsvið sitt samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar er lög nr. 103/2003 voru sett.``

Ég leyfi mér að endurtaka: ,,... tel ég ólíklegt að dómstólar myndu telja bráðabirgðalöggjafann hafa farið út fyrir valdsvið sitt samkvæmt 28. gr. ...``

Þýðing álitsgerðarinnar eins og annarra lögfræðilegra álitsgerða er náttúrlega fyrst og fremst sú að þegar menn senda slíkar álitsgerðir frá sér þá eru þeir að spá fyrir um það hver niðurstaða dómstóla yrði varðandi það álitaefni sem til umfjöllunar er ef gerður yrði réttarágreiningur um það og málið færi fyrir dómstól. Niðurstaðan er náttúrlega sú, eins og hér hefur komið fram og ég hef tekið upp úr álitsgerðinni, að álitsgerðarhöfundur telur mjög ólíklegt eða ólíklegt, svo að rétt sé með það farið, að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að skilyrði ákvæðis 28. gr. stjórnarskrárinnar yrði ekki uppfyllt. Höfundur álitsgerðarinnar kemst með öðrum orðum að annarri niðurstöðu, þveröfugri niðurstöðu en höfundar álits minni hluta nefndarinnar, þ.e. hún kemst að annarri niðurstöðu en minni hluti landbn. Maður hlýtur að lýsa furðu sinni á því og telja það furðulegt að minni hluti nefndarinnar vísi niðurstöðu sinni til stuðnings hvað þetta atriði varðar til álitsgerðar Ragnhildar Helgadóttur, lögfræðings og lektors við Háskólann í Reykjavík. Eins og ég hef farið hér yfir ganga því þær tvær meginröksemdir sem færðar eru fyrir niðurstöðu minni hluta landbn. þvert gegn þeirri niðurstöðu sem nefndin sjálf kemst að. Ég sagði í stuttu andsvari fyrr í dag í umræðunni að niðurstaða minni hluta landbn. væri röng og hún væri lögfræðilega ótæk. Ég ætla að leyfa mér að bæta því við eftir að hafa fengið að fara í gegnum þetta atriði málsins nánar að ég held því fram að það standi hreinlega ekki steinn yfir steini hvað varðar minnihlutaálit landbn., ekki steinn yfir steini, þannig að ef það er rétt sem hér hefur verið haldið fram af einum þeirra sem skrifar undir þetta nefndarálit, hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni, að illa hafi verið staðið að lagasetningunni þá er mjög illa staðið að þessu nefndaráliti minni hluta landbn., mjög illa. Það er uppfullt af þversögnum og gengur hreinlega ekki upp.

Herra forseti. Af því að kallað hefur verið eftir sjónarmiðum frá okkur stjórnarliðum í þessari umræðu vildi ég að þessu atriði yrði haldið til haga varðandi fullyrðingar um að sú málsmeðferð sem hér er til umræðu brjóti í bága við eða standist ekki ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel að fullyrðingar um slíkt og öll slík sjónarmið séu ekki á rökum reist. Það væri ágætt að fá viðbrögð við því frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar hvort eitthvað af því sem ég hef hér fjallað um sé rangt, sérstaklega varðandi þær tvær meginröksemdir sem færðar eru fyrir niðurstöðu nefndarinnar.