Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:34:32 (1339)

2003-11-06 15:34:32# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. ríkisstjórn til hamingju með þann knáa talsmann sem þeir hafa nú fengið í lið með sér því að hann er fyrsti almenni þingmaðurinn sem kemur úr stjórnarliðinu í þessa umræðu. Aðrir hafa verið tilneyddir sem framsögumenn nefnda til að standa fyrir álitum sínum hér ef ráðherra er undanskilinn.

Herra forseti. Ég held að niðurstaða minni hluta og meiri hluta landbn. hvað varðar stjórnarskrána snúist einmitt um mismunandi afstöðu manna til þess hvernig umgangast eigi stjórnarskrána. Þeir sem gáfu álit sögðu að þetta væri takmarkatilvik. Þótt ólíklegt væri að dómur mundi dæma að þetta hafi farið gegn stjórnarskrá þá segja þessir álitsgjafar eigi að síður að þarna sé um takmarkatilvik að ræða og eigi að síður ákveður meiri hlutinn að fara í þetta mál á þessum forsendum.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja þann sem hér talaði burt séð frá deilunni um brýna nauðsyn. Við leysum það ekki hér. Það er dómstóla að leysa úr henni. Við getum verið ósammála en við leysum hana ekki hér. En hvað kom í veg fyrir að málið yrði lagt fyrir þingið og hefði það ekki verið betra, herra forseti, að það hefði verið gert á vorþinginu í vor? Hefðu það ekki verið betri vinnubrögð að mati hv. þm. sem hér talaði? Hvað kom í veg fyrir að kalla þingið saman ef ekki var hægt að taka þetta fyrir á þinginu í vor? Hefðu það ekki verið betri vinnubrögð að mati hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar? Og í lokin: Af hverju er þessi hæstv. ríkisstjórn sí og æ að láta reyna á þanþol stjórnarskrárinnar? Við erum farin að eyða ansi löngum tíma í þingsölum í að diskútera það fram og til baka, svo að ég sletti nú, herra forseti, hvort það standist stjórnarskrá sem við erum að gera og er það ekki umhugsunarefni?