Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:37:56 (1341)

2003-11-06 15:37:56# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn er veitt mikil ábyrgð með 28. gr. stjórnarskrárinnar þar sem henni er gefin heimild til þess að setja lög án atbeina Alþingis við mjög þröngar aðstæður. Hv. þm. og þingmönnum stjórnarliðsins er líka sýnd mikil ábyrgð með því að sýna sinni ríkisstjórn það aðhald sem þeir þurfa að gera til þess að hún fari rétt að í sínum verkum.

Herra forseti. Af því að hv. þm. sagði að ég hefði skeiðað fimlega fram hjá þeim spurningum sem hann lagði fyrir okkur áðan þá vil ég ekki meina að ég hafi gert það vegna þess að ég dró fram í máli mínu að við fáum það álit að þarna hafi verið um takmarkatilvik að ræða, þ.e. álitið sem gefið er um brýnu nauðsynina um að ólíklegt sé að o.s.frv. En það er þó þannig að álitsgjafar segja að þarna sé um takmarkatilvik að ræða. Tveir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti gefa það álit. Við viljum einfaldlega umgangast stjórnarskrána með varúð og virðingu. Við viljum líka að þessari samkundu, hinu háa Alþingi, sé sýnd sú virðing sem henni ber. Þess vegna átti hæstv. ríkisstjórn að kalla þingið saman. Ef ekki var unnt að leggja þetta fyrir á vorþinginu þá átti hún að kalla þingið saman í sumar. Það er niðurstaða okkar og sannfæring burt séð frá því hver geti hugsanlega unnið slíkt mál fyrir Hæstarétti ef til þess kæmi að meta hvort um brýna nauðsyn hafi verið að ræða eða ekki. Við eigum einfaldlega ekki að vera alltaf úti á ystu nöf hvað varðar umgengni við stjórnarskrána.