Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:28:30 (1358)

2003-11-06 16:28:30# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek skýringar hæstv. ráðherra á reglugerðarsmíðinni góðar og gildar. Ég hef kannski litlu við það að bæta. En ég tel að hæstv. ráðherra geti ekki réttlætt eða útskýrt afskiptaleysi sitt af þessu máli sem lýtur að lífríkið og náttúru Íslands. Hún getur ekki skýlt sér á bak við sameiginlegt álit umhvn. Það er algerlega fráleitt. Það er fráleitt að hæstv. umhvrh. réttlæti aðgerðaleysi sitt í þessu máli á þeirri forsendu að umhvn. þingsins hafi skilað sameiginlegu áliti. Virðulegi forseti. Það eru engin rök í þessu máli.

Þessi tilskipun, lögleiðing hennar og viðbrögð þingsins við lögleiðingu hennar snúast í reynd að mestu um að reyna að vernda lífríkið og vistkerfið. Lái mér hver sem vill en ég skil hæstv. ráðherra þannig að henni komi þetta mál lítið sem ekkert við. Ég vil mótmæla því að þetta sé algerlega á borði hæstv. landbrh. Ég tel það algerlega óásættanlegt. Ég tel reyndar sjálfur að hæstv. umhvrh. hefði fyrir löngu átt að vera búin að taka þetta mál af hæstv. landbrh. Það er mín prívatskoðun. En ég mótmæli því harðlega að aðgerðaleysi umhvrh. verði réttlætt með því að fyrir nokkrum dögum hafi komið sameiginlegt álit umhvn. í þessu máli. Þau rök halda ekki.