Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:59:31 (1363)

2003-11-06 16:59:31# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í andsvar við hæstv. landbrh. vegna þess að hann fór í söguskýringar áðan varðandi innflutning á norska laxinum, aftur til ársins 1984. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort hann geri sér ekki grein fyrir því, eins og ég þykist muna, að þar hafi verið heiðursmannasamkomulag um að um landeldi væri að ræða. Menn ræddu a.m.k. um að þessi fiskur færi aldrei í sjó.

Hæstv. landbrh. dró Steingrím J. Sigfússon inn í þá umræðu sem þáverandi landbrh. Ég veit ekki betur en málin horfi þannig við að þessi norski lax hafi farið í sjó í tíð ráðherra Framsfl. í landbrn. Heiðursmannasamkomulagið um að þessi fiskur færi aldrei í sjó stóð í nokkur ár. Það er náttúrlega reginmunur á landeldi og því að fara með fiskinn út í sjó. Eitt af því sem fram kom í umræðunni, virðulegi forseti, varðandi mögulega tæknilega hindrun á innflutningi var að setja inn ákvæði um að einvörðungu mætti vera með landeldi á innfluttum fiski. Ég tel að það sé mikilvægt að fram komi í þessari umræðu að norski laxinn átti upprunalega aldrei að fara í sjókvíar. Menn voru alltaf með það í huga að þess fiskur yrði í sjávarlóninu.