Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:04:53 (1378)

2003-11-06 18:04:53# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ekki vera spurning um að undanskilja sig ábyrgð heldur að sýna fulla ábyrgð, því að hæstv. utanrrh. talar um NATO sem tæki sem beitt er til að verja friðinn. Ég er að tala um að NATO sé tæki sem notað sé í auknum mæli til að verja hernaðarlega og efnahagslega hagsmuni, til að verja olíuna, olíuhagsmuni Bandaríkjanna t.d. Mér finnst hættulegt hve gagnrýnislaus íslensk stjórnvöld eru gagnvart herrunum í Washington. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. að því, af því að hann vildi alhæfa um afstöðu mína gagnvart Bandaríkjunum og gagnvart NATO, þá vil ég spyrja hann: Finnst honum engin áherslubreyting t.d. hafa orðið innan Bandaríkjanna og í stefnu Bandaríkjanna við stjórnarskiptin frá Clinton-stjórninni yfir í Bush-stjórnina? Finnst honum ekki áhyggjuefni hvernig haukarnir þar á bæ hafa talað og framkvæmt og er hann tilbúinn að fylgja Atlantshafsbandalaginu, NATO, í einu og öllu, alltaf, vegna þess að hann beinir svona alhæfingarspurningum að mér?

Ég hef miklar áhyggjur af því hvert stefnir í Bandaríkjunum og þar af leiðandi miklar áhyggjur af hvert stefnir með NATO þar sem Bandaríkjamenn eru ráðandi, og mestar áhyggjur hef ég af undirlægjuhætti íslensku ríkisstjórnarinnar og þar með hæstv. utanrrh.