Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:13:17 (1382)

2003-11-06 18:13:17# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nákvæmlega mergurinn málsins. Evrópustoðin, eins og hæstv. utanrrh. kallar hana, í Atlantshafsbandalaginu er stöðugt að eflast og við sjáum alveg til hvers vilji ráðamanna í Washington stendur. Hæstv. ráðherra segir réttilega að menn eigi að hugsa til þess að þau ríki sem standa utan Evrópusambandsins kunni að veikjast í varnarlegu tilliti. Þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þetta séu ekki enn ein rökin fyrir því að við hugsum það til enda hvort okkur sé ekki betur borgið innan Evrópusambandsins. Ég spyr þá hæstv. utanrrh.: Telur hann ekki, eins og þróunin er að verða sem hann lýsir sjálfur, að það séu öryggishagsmunir sem kalla á það að við sækjum í fullri alvöru um aðild að Evrópusambandinu?