Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:14:20 (1383)

2003-11-06 18:14:20# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það eru vissulega mörg atriði sem spila inn í það hvort Ísland stendur betur innan eða utan Evrópusambandsins Það er umræða sem þarf að fara fram með opnum og hreinskiptum hætti. Öryggsimál eru þáttur í því máli. Þróunin er með þeim hætti að við þurfum að fylgjast mjög vel með. Hins vegar er aðalatriðið samt það að við séum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Ég tel að í staðinn fyrir varnarsamninginn við Bandaríkin geti ekkert komið. Ég tel að það sé algerlega óhugsandi að einhver sambærilegur varnarsamningur verði gerður við Evrópuríki. Svarið við þessari spurningu er því að við þurfum að horfa til beggja átta. Við megum ekki slíta þann mikilvæga streng sem hefur verið milli okkar og Bandaríkjanna, það er algert grundvallaratriði. Og við megum heldur ekki slíta þann streng sem felst í aðildinni að Atlantshafsbandalaginu.

Næst á eftir þessu kemur svo samstarf okkar í öryggis- og varnarmálum við Evrópu, þar með talið við Norðurlöndin, en við höfum aukið þátttöku okkar í samstarfi Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála sem kemur m.a. fram í því að fundur varnarmálaráðherra þessara landa hefur í fyrsta skipti verið haldinn á Íslandi og Íslandi voru gerð mjög góð skil í umræðu um öryggis- og varnarmál á þingi Norðurlandaráðs nú fyrir stuttu.