Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:29:28 (1388)

2003-11-06 18:29:28# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé rétt, að það sé hægt að sundurgreina annars vegar stundarhagsmuni og hins vegar varanlega hagsmuni. Ég held að staðreyndin sé sú að stundarhagsmunir geti verið undirseldir hinum varanlegu hagsmunum. Þetta er allt einn hnykill og þegar allt kemur til alls ber okkur að taka afstöðu á siðferðilegum grunni. Hvað teljum við vera rétt og hvað teljum við vera rangt?

Ég er þeirrar skoðunar að Atlantshafsbandalagið, NATO, sé orðið --- jafnvel í ríkari mæli en það hefur verið til þessa --- tæki í höndum Bandaríkjanna, þessa öflugasta hernaðarveldis heimsins, sem er farið að beita þessu tæki, ekki aðeins í þröngum varnarskilningi gagnvart aðildarríkjum bandalagsins heldur er verið að færa út kvíarnar. Það er verið að breyta eðli bandalagsins og færa það meira og í ríkari mæli út í árásarfarveginn. Mér finnst það vera áhyggjuefni og mér finnst það vera nokkuð sem eigi að ræða, ekki síst þegar fyrir liggur tillaga um að stækka þetta bandalag.