Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:36:23 (1406)

2003-11-10 16:36:23# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, AKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Enn er verið að bjarga hæstv. landbrh. með breytingartillögum á breytingartillögur ofan eftir að bráðabirgðalög voru sett í sumar með mjög umdeilanlegum hætti. Ég held að það sé dagljóst að verklagið við lagasetninguna í sumar var mjög ámælisvert. Um það vitna nefndarálitin, bæði meiri hluta og minni hluta landbn. Ef maður skoðar allan þann tíma sem hæstv. landbrh. hafði til að undirbúa lagasetninguna og koma í gegnum þingið, í réttan farveg með eðlilegum hætti, þá er ekki neinum vafa undirorpið að mínu mati að hér var ekki vel að verki staðið.

Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er ljóst að landbrh. er að gæta hagsmuna fiskeldismanna í þessu tilviki. Sumir tala um mikla hagsmuni og aðrir um litla. Litlu verður Vöggur feginn, segir máltækið. Öllum sem til þekkja er ljóst að íslenskt atvinnulíf munar oft um litlar fjárhæðir enda er það í rauninni ekki höfuðatriðið í þessu máli. Höfuðatriðið er að landbrh. ber að gæta hagsmuna fleiri aðila, m.a. handhafa veiðiréttinda, þeirra sem stunda þá iðju að veiða sér til gamans og þeirra sem hafa af því atvinnu að veita þjónustu af því tagi.

Hins vegar er um enn aðra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni íslenskrar náttúru. Það er mér óskiljanlegt hvers vegna ekki eru farnar allar þær leiðir sem hugsanlegar eru til að gæta hagsmuna íslenskrar náttúru. Við höfum tækifæri til þess í skjóli alþjóðasamninga. Okkur hefur verið bent á fordæmi og ég skil ekki af hverju ekki er vísað í náttúruverndarlög. Af hverju eru ekki nýttir allir þeir möguleikar sem við höfum til þess að gæta hagsmuna íslenskrar náttúru, hagsmuna laxveiðimanna og þeirra sem hafa á landsbyggðinni atvinnu af þessari iðju?

Getur verið að hér sé um að ræða, eins og talað hefur verið um, valdatogstreitu milli ráðuneyta? Það kann að vera. Ekki get ég dæmt um það. En ef svo er þá er það afar alvarlegt mál.

Þessi meðferð málsins á Alþingi, allar þær brtt. sem hér hafa komið fram við bráðabirgðalögin frá í sumar, sannar fyrir mér gildi umræðunnar á Alþingi. Umræðan er lóð á þá vogarskál sem við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að leggja okkar á í vetur. Við höfum bent á hversu alvarlegt það er fyrir lýðræðið að í þingsölum skuli iðulega aðeins vera fulltrúar stjórnarandstöðunnar að tala um mjög mikilvæg mál sín á milli sem væri mikill fengur í að fá stjórnarmeirihlutann til þess að taka þátt í. Þetta er lifandi dæmi um það, öll meðferðin á þessu máli og allar þær brtt. sem hér hafa komið fram í tveimur hrinum, hversu umræðan er mikilvæg.

Ég vil í lok máls míns, herra forseti, ítreka að það eru þrenns konar hagsmunir sem ber að gæta. Það eru hagsmunir fiskræktenda, fiskeldismanna. Það eru hagsmunir laxveiðibænda og það eru hagsmunir íslenskrar náttúru ekki síst. Ég tel að það beri að leita allra hugsanlegra leiða til að gæta hagsmuna hinna síðarnefndu, sem fara saman. Hagsmunir laxveiðimanna og íslenskrar náttúru fara saman í þessu tilfelli. Ég tel að brtt. minni hlutans sé ráð sem dugi í því efni.