Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:52:45 (1412)

2003-11-10 16:52:45# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, EKH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Ég hef sem nýliði á Alþingi og í umhvn. reynt að leggja mig eftir röksemdum sem hafa verið færðar fram fyrir setningu bráðabirgðalaganna og málflutningi bæði laxeldismanna og þeirra sem stunda sjókvíaeldi. Ýmislegt hefur komið mér mjög á óvart.

Mér hafa ekki komið á óvart þær deilur sem hafa risið um setningu bráðabirgðalaganna. Eins og fram hefur komið er setning þeirra næsta einstæð í þingsögunni og í besta falli takmarkatilvik. Jafnvel má leiða að því rök að setning þeirra fari í bága við anda stjórnarskrárinnar.

Það hefur hins vegar vakið mér undrun að við sjálfa lagasetninguna og við innleiðingu tilskipunar nr. 91/67/EBE skuli ekki vera farið eftir þeim ábendingum sem augljóslega eru gefnar í EES-samningingnum sjálfum og í tilskipuninni sjálfri og þeim leiðbeiningum sem þar eru gefnar heldur valin sú leið að hafa þetta allt á forræði landbrn. og reyna að reisa skorður út frá sjúkdómavörnum og þess háttar hlutum í staðinn fyrir að vísa til umhverfis- og náttúruverndarlaga og alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Þetta er annað atriðið. Hitt er það, þegar maður hlustar á rök stangveiðimanna og laxeldismanna, hve niðurstöður rannsókna sem þeir vísa til eru mismunandi. Þar mætast stálin stinn og menn skylmast með rannsóknarniðurstöðum, getur maður sagt. Mig langar til að fara aðeins yfir þessi tvö atriði.

Það er augljóst að í 13. gr. EES-samningsins, eins og margoft hefur komið fram, er hægt að réttlæta verndaraðgerðir á lífi og heilsu dýra og vistkerfum. Í tilskipuninni sjálfri sem hér er verið að innleiða í lög með bráðabirgðalögum og staðfestingu þeirra er í 2. mgr. 1. gr. I. kafla sagt að hún gildi með fyrirvara um ákvæði Evrópusambandsins sjálfs eða innlendra ákvæða um verndun tegundanna. Sjálfur umhverfiskommissar Evrópusambandsins, Margot Wallström, hefur lagt áherslu á það í opinberu bréfi að mikil nauðsyn sé að varðveita líffræðilega fjölbreytni og gæta fyllstu varúðar þegar tegundir eru fluttar milli svæða, eins og komið hefur fram í þessum umræðum á Alþingi, bæði vegna hættu á blöndun erfðaeiginleika og neikvæðum áhrifum þess og vegna þess að sumar tegundir sem fluttar eru milli landa geta gerst mjög ágengar í nýju vistkerfi, nýju lífríki, og útrýmt þeim tegundum sem þar eru fyrir.

Þarna er okkur bent á að við getum leitað út fyrir EES-samninginn og í þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum samkvæmt alþjóðasamningum. Við erum aðilar að Ríó-samningnum um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og í samræmi við það hafa verið sett náttúruverndarlög, nr. 44/1999, sem fjalla m.a. um innflutning framandi lífvera. Þar segir í 41. gr. um innflutning og ræktun og dreifingu á lífverum að umhvrh. sé heimilt að setja í reglugerð skrá yfir plöntur sem ekki má flytja inn og líka skrá yfir dýr sem ekki má flytja inn. Það hefur komið fram í þessum umræðum að fyrrnefnda skráin er fyrirliggjandi en sú síðarnefnda mun vera skammt á veg komin, svo ekki sé meira sagt, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef.

Af þessum málsástæðum er algjörlega augljóst, eins og minni hluti landbn. kemst að, að frá lagatæknilegu sjónarmiði vegna uppbyggingar laganna er eðlilegast að ákvæðið eða fyrirvarinn um að heimildin til þess að flytja inn eldisdýr, krabbadýr og lindýr sé ekki alveg opin, komi strax inn í 1. efnismálsgrein laganna þar sem talað er um að opna fyrir innflutning vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga okkar, þ.e. að þá komi fyrirvarinn sem heimill er þar inn samkvæmt því sem gert er ráð fyrir í tilskipuninni. Þess vegna hefði verið hægt að koma í veg fyrir allan þennan hrakning landbrh. í málinu ef strax í 1. mgr. hefði verið tekinn af allur efi um að heimildin væri í gildi nema önnur lög svo sem náttúruverndarlög og alþjóðasamningar sem Ísland er skulbundið af banni slíkan innflutning vegna sjónarmiða um verndun tegunda, stofna, vistgerða eða viskerfa. Vissulega snýst þetta ekki bara um sjúkdómavarnir eins og viðurkennt er í brtt. meiri hluta landbn. þar sem í rauninni er verið að reyna að þvæla inn í öryggisákvæði bráðabirgðalaganna tilvísun í 4. gr. umhverfislaga þar sem tekið er fram að landbúnaðinum sé heimilt að grípa til bannákvæða og um leið er verið að leggja honum það á herðar að hann eigi nú að spjalla við ýmsar umhverfisstofnanir áður en hann grípur til þess heimildarákvæðis.

[17:00]

Ég held að þetta sé mjög mikill galli á lögunum. Þó menn hafi talað um fegrunaraðgerðir af hálfu meiri hluta landbn. varðandi þessi bráðabirgðalög og talið þau heldur til bóta þá held ég að lagasetningin sjálf verði aldrei talin fagur smíðisgripur. Það er þó kannski alvarlegra að hætt er við því eins og lögin eru byggð upp, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði í ræðu sinni í dag, að innan Evrópusambandsins verði litið á þetta sem dæmigerðar tæknilegar viðskiptahindranir sem þar eru litnar hornauga og mjög líklegt er að skoðað verði af EES-dómstólnum hvort þær fái staðist í okkar löggjöf. Því er ekki víst, þó þessi bráðabirgðalög verði staðfest, að við höfum séð fyrir endann á málinu. Það gæti komið aftur til kasta hv. þingmanna eftir umfjöllun á vettvangi Evrópusambandsins.

Aftur að þeim deilum sem risið hafa milli stangveiðimanna og laxeldismanna. Þær eru að mörgu leyti eðlilegar. Stangveiðimenn óttast að strokulaxar úr sjókvíum gangi í ár, spilli hrygningu villtra stofna og leiði til óæskilegrar erfðablöndunar. Óttinn stafar náttúrlega af því að laxeldi virðist vera í mikilli sókn hér á landi. Aukninguna má alla rekja til fárra eða stórra aðila sem hafa komið inn í greinina og sameina aðgang að nýrri tækni, miklu fjármagni og öflugu markaðskerfi fyrir laxeldisafurðir. Til marks um sóknina í laxeldisleyfi er að nú þegar er búið að fá leyfi fyrir eldi á meira en 20 þús. tonnum. Stærsta eldisstöðin sem áformað er að setja á laggir mun samkvæmt áætlunum framleiða fast að 8 þús. tonnum af laxi fáist tilskilin leyfi. Það er athyglisvert að það er meira en nokkur einstök eldisstöð framleiðir í heiminum í dag. Því er skiljanlegt að stangveiðimenn hafi af þessu nokkrar áhyggjur. Þeir kvíða þó mestu meintum áhrifum kynbætta norska stofnsins sem alfarið er notaður í sjóeldi hér á landi. Stofninn vex mun hraðar en innlendir stofnar og hefur verið kynbættur sérstaklega til að ná fram síðbúnum kynþroska. Sá eiginleiki tryggir mikinn og langvarandi vöxt þar sem laxinn er löngu kominn í sláturstærð þegar hann verður kynþroska. Eldismenn benda hins vegar á að síðbúni kynþroskinn tryggi einmitt að strokulax muni engin áhrif hafa á villta stofna þar sem hann verði löngu horfinn úr vistkerfi sjávarins áður en hann verður kynþroska. Um þetta atriði er deilt.

Landbrh. hefur, eins og við höfum heyrt margoft í þessum umræðum, takmarkað laxeldi í sjókvíum við það sem hann kallar sjálfur langa, mjóa og djúpa firði á Austurlandi og staðhæfir að strokulax gangi þaðan til Færeyja. En þar er ekki að finna náttúrulegan laxastofn samkvæmt upplýsingum sem fram komu hjá Gísla Jónssyni, dýralækni fisksjúkdóma, á fundi Stangaveiðifélags Reykjavíkur á Grand Hótel í síðustu viku. Stangveiðimenn telja þetta hins vegar alrangt. Að þeirra mati getur kynbættur norskur lax dvalið og vaxið í hafinu úti fyrir Austurlandi og gengið sem stórlax í austfirsku árnar og spillt stórlega hrygningarsvæðum og erfðamengi náttúrulegs lax. Þetta er annað dæmi um ágreining.

Í svari landbrh. við fyrirspurn hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á þingmáli nr. 180 kemur fram að 3 millj. 53 þús. laxar hafi verið settir í sjókvíar í Mjóafirði árið 2001, 2002 og nú nýverið 2003. Þar eru nú í sjókvíum 2 millj. 68 þús. laxar og 260 þús. 983 löxum hefur verið slátrað.

Hv. þm. Jón Gunnarsson vakti athygli á því í umræðum á Alþingi 7. nóvember að samkvæmt þessu hefðu 724 þús. laxar annaðhvort sloppið úr kvíunum eða drepist í þeim. Engin svör hafa enn fengist um afdrif þeirra. En hæstv. ráðherra landbúnaðarmála, Guðni Ágústsson, hefur jafnan fullyrt að enginn eldislax sleppi úr kvíunum.

Þannig stendur styr um fjölmargar aðrar staðhæfingar af hálfu hinna ýmsu aðila deilunnar. Þetta kom glöggt fram á þeim fundi í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur sem ég nefndi áðan.

Vigfús Jóhannsson, líffræðingur og formaður Landssambands fiskeldisstöðva, staðhæfði að engar vísindalegar rannsóknir lægju fyrir sem bentu til þess að eldisfiskur spillti villtum stofnum.

Guðni Guðbergsson, deildarstjóri og fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, hélt hinu gagnstæða fram í erindi á fundinum og taldi margar nýlegar vísbendingar úr rannsóknum styðja fullyrðingar um spillingu stofna af völdum eldis.

Það vekur athygli að sérfræðingarnir virðast ekki einu sinni vera sammála um staðreyndir sem hægt er að sannreyna tölulega. Þannig hélt einn fiskifræðingur því fram á upplýsingafundi Stangaveiðifélags Reykjavíkur að tíðni strokulaxa úr eldi væri 2--3% meðan annar staðhæfði að meðaltal sl. þriggja ára væri 0,1% og töldu báðir sig byggja á alþjóðlegum reynslutölum.

Sömuleiðis virðast vera á kreiki misvísandi upplýsingar úr rannsóknum um æxlunarþrótt eldislaxa og blendinga þeirra og villtra laxa, hegðun þeirra í búsvæðum villtra stofna í ám og lífsþrótt seiða sem undan þeim koma.

Þá eru sérfræðingar heldur ekki á einu máli um hvaða afleiðingar strokulaxar hafi haft á náttúrulega laxastofna og er sláandi t.d. hversu mikill munur er á upplýsingum frá annars vegar Vesturheimi og hins vegar Norður-Evrópu.

Þegar svona er í pottinn búið og menn skylmast með rannsóknarniðurstöðum og ekki virðist vera hægt að fá neinn óyggjandi vísindalegan grunn eða sæmilega vísindalegan grunn til þessa að byggja umræðuna á þá er í fyrsta lagi afar nauðsynlegt að gæta varúðarreglu á öllum sviðum og að gulu og rauðu ljósin séu blikkandi í öllum okkar athöfnum varðandi laxeldismálin.

Því hef ég farið yfir þessar deilur að við erum nokkrir þingmenn sem munum flytja till. til þál. um sambúð laxeldis- og stangveiði þar sem lagt er til að nefnd sérfræðinga verði af hálfu ríkisstjórnar sett í að reyna að fá einhvers konar niðurstöðu í þessar deilur og einhvers konar sameiginlegan grunn þar sem t.d. alþingismenn og aðrir sem vildu taka þátt í ákvörðunum geta staðið á þegar ákvarðanir eru teknar í þessum málum. Ég held að það sé hið þarfasta verk. Það hlýtur að vera hægt að komast nær staðreyndum og nær sameiginlegum vísindalegum grunni til að standa á heldur en nú er í þessari umræðu. Að því viljum við stuðla því eins og sagt hefur verið í þessari umræðu þá eru þegar tveir atvinnuvegir í þessu landi, annar í mikilli sókn og þó hann sé einangraður við ákveðið landsvæði þá er um mjög stórar laxeldisstöðvar að ræða. Hins vegar eru svo 4.300 veiðiréttarhafar á 1.860 lögbýlum í landinu sem hvert um sig hefur um 1. millj. kr. í tekjur af sölu laxeldisleyfa. Laxveiði er atvinnugrein sem veltir í heild um a.m.k. 3 milljörðum á ári. Þarna er í húfi það sem menn kalla gjarnan erfðagóss sveitanna og hefur gríðarleg áhrif á afkomu og búsetu í landinu. Þess vegna vil ég endurtaka að mér þykja tillögurnar frá minni hluta landbn. vera það skynsamlegasta sem sagt hefur verið í málinu til þessa.