Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:56:24 (1428)

2003-11-10 17:56:24# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa kvatt mér hljóðs of seint. Ég átti raunar von á að hv. þm. Halldór Blöndal kveddi sér hljóðs í umræðunni og vildi biðja hann um að hlýða á mál mitt sem forseta þingsins. Við 2. umr. flutti ég ræðu og þakkaði hv. þm. Drífu Hjartardóttur hennar framgöngu í málinu og hvernig hún hefði staðið vörð um sóma Alþingis í því og sett á hæstv. landbrh. kút og kork hér í umræðunni, sem síðan hefur verið á floti frá einum ræðumanni til annars.

Það stóð ekki á svörum frá hv. formanni landbn. við þeirri ræðu minni. Hún svaraði henni skjótt og vel. Fyrst og fremst kom ég þó upp við þá umræðu til að beina nokkrum spurningum til hæstv. forseta Alþingis, þá sem nýliði. Vegna þess að ég hef ekki fengið svör við þeim spurningum vildi ég við lok umræðunnar fá að árétta þær spurningar og óska eftir því að hv. þm. Halldór Blöndal veiti svör við þeim.

Ég sagði eitthvað á þá leið að sem nýliði skildi ég ekki með hvaða hætti lagasetningu bæri að í þinginu. Ég var kallaður til vorþings í tvo daga síðasta vor og lá nokkuð á að senda okkur heim í leyfi. Ég heyri síðan af því nokkrum vikum síðar að knýjandi nauðsyn beri til að setja lög um það efni sem hér hefur verið fjallað um. En þá er þingið ekki kallað saman heldur sett bráðabirgðalög. Ég vissi samt ekki betur, virðulegur forseti, en ég væri hér í þinginu í vinnu í 12 mánuði á ári og þægi laun fyrir að vera hér alþingismaður í 12 mánuði á ári. Ég stóð í þeirri trú að ef brýna nauðsyn bæri til að setja lög í landinu þá ætti að vera vandalaust að kalla þingið saman og fjalla um það. Ég taldi raunar mikilvægt fyrir vandaða málsmeðferð í jafnmikilvægu máli og þetta var talið vera að þing væri kallað saman og kallað yrði eftir sjónarmiðum, athugasemdum og ábendingum um hvernig best mætti standa að lagasetningunni.

Ég tel að þær breytingar sem hv. landbn. hefur orðið að gera á þessu frv. sýni vel að það er nauðsyn á slíkum vinnubrögðum við lagasetningu. Hér stendur til að taka til greina sjö brtt. við það frv. sem lagt var fram. Það segir ekki beinlínis góða sögu um það með hvaða hætti staðið hefur verið að bráðabirgðalagasetningunni. Það átti kannski ekki að þurfa að koma á óvart. Hér hefur jafnframt komið fram að á síðasta þingi, þ.e. þinginu fyrir kosningar og áður en ég tók hér sæti, töldu menn að það þyrfti meiri tíma til að fjalla um málið en svo að hægt væri að setja um það lög þá þegar. Það hefði átt að vera mönnum nokkur aðvörun í þessu efni.

[18:00]

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta þá aftur að því hvort hann taki undir með meiri hluta hv. landbn. að það frv. sem hæstv. landbrh. lagði hér fram standist vart 36. gr. þingskaparlaga, sé einfaldlega ekki þinghæft. Það segir þá sína sögu um bráðabirgðalögin. Lítur forsetinn svo á að hér sé um að ræða takmarkað tilvik þegar stjórnarskráin er annars vegar? Nú hafa verið hér við umræðuna skiptar skoðanir á því hvort verið væri að brjóta gegn stjórnarskránni eða ekki. Á því hef ég ekki vit eða þekkingu næga, ég er ekki lögfræðingur að mennt, en vil spyrja hæstv. forseta þingsins hvort hann deili því sjónarmiði sem kemur fram í grg. meiri hluta landbn. frá háttvirtum lagaprófessor við Háskóla Íslands að hér sé um takmarkatilvik að ræða. Ég hlýt að spyrja bara af því að ég hef ekki unnið hérna áður: Var haft samráð um þetta við þingið af hálfu ríkisstjórnarinnar? Gaf forseti þingsins einhvers konar grænt ljós fyrir því að sett væru bráðabirgðalög í þessu efni, eða var þetta alfarið upp á einsdæmi ríkisstjórnarinnar? Telur forsetinn þá að þingið eigi að hafa á því einhverja skoðun?

Ástæðan fyrir því að ég spyr, virðulegur forseti, er sú að við förum núna í fyrri hluta desembermánaðar heim í jólafrí og ég sé á starfsáætlun þingsins að það er ekki ætlast til að við mætum í vinnuna aftur fyrr en 28. janúar. Það er einn og hálfur mánuður. Síðan eigum við eftir að fara í sumarfrí og maður hlýtur að velta fyrir sér hvort maður eigi þá von á því að þegar maður fari heim í frí geti framkvæmdarvaldið afgreitt þau lög sem það kom ekki í gegnum þingið --- átölulaust? Eða hvað þarf til að nýta megi þessa heimild til setningar bráðabirgðalaga? Ég held að það sé mikilvægt að sjónarmið hæstv. forseta þingsins í þessu efni komi fram og ég inni þess vegna eftir þeim.

Það hefur komið fram að nokkuð skiptar skoðanir eru um það hvort hér hafi verið um 6 millj. eða 50 millj. kr. hagsmuni að ræða. Ég spyr hæstv. forseta sömuleiðis hvort hér sé kominn einhvers konar verðmiði á það hvenær framkvæmdarvaldið megi setja bráðabirgðalög og þarflaust sé að kalla þingið saman. Ef það eru hagsmunir sem hlaupa á nokkrum tugum milljóna má framkvæmdarvaldið líta svo á að ef þingið er í leyfi sé því heimilt að setja bráðabirgðalög, eða hvaða sjónarmið hefur forseti þingsins um þetta? Ég ítreka að ég er hér nýliði, ófróður um starfshætti þingsins um margt og hlakka til að heyra svör hv. þm. Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, við þessu enda býr hann að langri starfsreynslu hér og þekkingu á starfsháttum.