Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:03:05 (1429)

2003-11-10 18:03:05# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þm. Helgi Hjörvar setti hér fram áðan, að í öllu þessu sem við höfum nú farið yfir og í ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru við setningu þessara bráðabirgðalaga er mjög mikilvægt að afstaða þingsins liggi fyrir, afstaða þingsins sem eins þriggja handhafa ríkisvaldsins um það hvort forusta þingsins sé sammála því að við þær aðstæður sem uppi voru skuli sett bráðabirgðalög eður ei. Er einhver lína frá forseta þingsins til ríkisstjórnarinnar um þetta mál eða er þingið ekki á nokkurn hátt haft með í ráðum þegar slík ákvörðun er tekin eins og sú að setja bráðabirgðalög? Þetta finnst mér mikilvægt, virðulegi forseti, að liggi fyrir og þessum spurningum getur enginn svarað nema hv. þm. Halldór Blöndal, forseti Alþingis. Ég hefði talið eðlilegt að hafi þinginu verið gert viðvart um fyrirhugaða bráðabirgðalagasetningu hefði hv. forsn. verið kölluð saman til að ræða hana.

Ég segi fyrir mig og ég held að ég tali fyrir munn margra þingmanna að það hefði verið afar lítið mál að kalla þingmenn til fundar til að ræða þessi mál. Það hefur heldur betur komið á daginn að það var mikilvægt að gera það. Það liggur nú fyrir að meiri hluti landbn. hefur lagt til sjö breytingar á þessu litla frv. sem lagt var fram, og minni hluti landbn. lagði fram eina brtt. við frv.

Ég sé að hv. þm. Halldór Blöndal, forseti þingsins, hefur farið úr þingsal rétt á meðan þessi umræða fer fram, en ég vil hvetja hv. þm. Halldór Blöndal til að koma hingað og gera þingheimi grein fyrir þeim sjónarmiðum sem forusta þingsins hefur uppi við þessar aðstæður.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að forseti þingsins komi í þingsal því að ég er hér sem þingmaður að taka undir þær spurningar sem hér hafa verið bornar fram og bæta við. Ég óska eftir því að forseti þingsins, Halldór Blöndal, komi í þingsalinn.

(Forseti (BÁ): Forseti kannast ekki við að einstakir þingmenn hafi verið sóttir í þingsal samkvæmt óskum einstakra ræðumanna. En hitt er ljóst að hv. þm. Halldór Blöndal er í húsinu og tekur þátt í umræðum eftir því sem hann ákveður sjálfur. Forseti skikkar menn ekki í umræður.)

Virðulegi forseti. Ég get a.m.k. upplýst hæstv. forseta um það að það hefur oft og tíðum gerst að óskað hafi verið eftir því að tilteknir þingmenn séu viðstaddir umræðu, m.a. formenn nefnda. (Gripið fram í: Forseti.) En í þessu tilviki erum við að tala um það að forustumaður okkar á Alþingi, forseti þingsins, svari fyrirspurnum um það hver afstaða þingsins til þessarar bráðabirgðalagasetningar sé. Við erum raunverulega að kalla eftir þessum sjónarmiðum. Finnst hv. þingmönnum það mikið þó að eftir því sé leitað að forusta þingsins hafi einhverja afstöðu þegar bráðabirgðalög af þeim toga sem sett voru sl. sumar líta dagsins ljós?

Það er búið að fara mjög vandlega yfir málið. Hv. landbn. fór yfir allar þær hliðar málsins sem við töldum nauðsynlegt að fara yfir og dró það m.a. fram með skilmerkilegum hætti að ríkisstjórnin hafði a.m.k. fengið fjögur sendibréf frá Brussel þar sem hún var vöruð við því að ef ekki yrði ráðist í lögleiðingu á þessari tilskipun yrði gripið til aðgerða. Það hefur einnig komið fram að síðasta viðvörunarbréfið kom áður en vorþing kom saman. Eins þekkja allir þingmenn að málinu var hafnað af þinginu í mars sl. þegar það var ekki afgreitt.

Við þessar mjög svo sérstæðu aðstæður sem eiga sér ekki fordæmi í þingsögunni held ég að það sé alveg nauðsynlegt að forseti þingsins, forustumaður okkar hv. alþm., geri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hið háa Alþingi hefur við þessar aðstæður. Það er ekki mikill manndómsbragur að því, virðulegi forseti, að hv. þm. Halldór Blöndal, forseti þingsins, skuli hlaupast úr þingsal þegar þessi umræða fer fram.

Ég ítreka, virðulegi forseti, og mun sjálfsagt ekki standa hér út í eilífðina í þeirri von að hv. þm. Halldór Blöndal sjái sér fært að koma í salinn, að ég bíð, virðulegi forseti, samt sem áður spenntur eftir því að heyra sjónarmið forustu þingsins því að þetta er þannig mál að þingið hlýtur að hafa á því einhverja skoðun. Þá hljótum við að leita til forustu þingsins um að hún a.m.k. upplýsi okkur um það hvað gerðist í sumar þegar þessi ákvörðun var tekin.

Virðulegi forseti. Ég segi það og ítreka að ég hefði talið mikilvægt fyrir þessa umræðu að forustumaður þingsins kæmi hingað og tjáði sig um þessi mál. Mér virðist þó sem hæstv. forseti hafi kosið að gera svo ekki og er þá kannski ekki mikið við því að segja annað en að harma þá afstöðu forseta Alþingis.