Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:10:27 (1430)

2003-11-10 18:10:27# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, BH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þeim spurningum sem hér hefur verið beint til hæstv. forseta verði svarað. Þær eru fullkomlega eðlilegar, það er fullkomlega eðlilegt að hér séu spurnir uppi af hálfu hv. þingmanna um það hvernig bráðabirgðalagasetningu á borð við þessa beri að, og ekki síst í ljósi þess hversu umdeild þessi meðferð málsins var.

Nú kann vel að vera, herra forseti, að hæstv. forseti geti ekki kallað hingað einstaka þingmenn og krafið þá svara eða að einstakir þingmenn geti ekki orðið við slíkum beiðnum. En einhver hlýtur þó að hafa það hlutverk, herra forseti, að svara fyrir hönd yfirstjórnar þingsins. Nú er það þannig að hæstv. forseti, hv. þm. Halldór Blöndal, hefur sex menn til vara í forsn. sem fara þá með vald forseta hverju sinni. Í ljósi þess, herra forseti, og í ljósi þeirrar túlkunar sem hæstv. forseti hefur hér gefið um að hann geti ekki knúið einstaka þingmenn til að koma hingað og svara hlýt ég að beina þeim spurningum sem hv. þm. Helgi Hjörvar beindi hér til forseta þingsins, hv. þm. Halldórs Blöndals, til þess hæstv. forseta sem nú situr í forsetastóli. Það er algjörlega óviðunandi, herra forseti, að enginn svari fyrir hönd hv. Alþingis þegar spurningar á borð við þessar, sem eru eðlilegar, eru bornar fram.

Herra forseti. Hvað er það sem gerist hér í störfum þingsins þegar framkvæmdarvaldið vill setja bráðabirgðalög og Alþingi er í hléi? Ráðfæra þá hæstv. ráðherrar sig við hæstv. forseta Alþingis? Var það gert í þessu tilviki?

Ég held að það sé eðlilegt að fara fram á það, virðulegi forseti, að sá forseti sem nú situr í forsetastóli svari þeim spurningum sem til forseta hefur verið beint.

(Forseti (BÁ): Sá forseti sem hér situr ætlar ekki að svara fyrir atvik sem honum er ekki kunnugt um. Hins vegar, án þess að forseti vilji fara út í miklar stjórnskipulegar vangaveltur, er ljóst að setning bráðabirgðalaga á sér stað án aðkomu Alþingis, eins og kunnugt er.)