Stofnun sædýrasafns

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:41:07 (1437)

2003-11-10 18:41:07# 130. lþ. 23.11 fundur 277. mál: #A sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við þingmenn séum nú almennt inni á þessari þáltill. Eins og fram hefur komið hefur þetta merkilegt nokk mistekist í a.m.k. tvö eða þrjú skipti. Það er náttúrlega sjálfsagt og eðlilegt að til svona safns verði stofnað með það að leiðarljósi hver er undirstaða hins efnahagslega sjálfstæðis sem við búum við. Í sjálfu sér er verið að togast hér á um hluti sem óþarfi er að eyða tíma í. Við ættum heldur að láta hraða þessari rannsókn og koma þessu máli í verk. Það væri þá eðlilegt að á síðari stigum yrði tekist á um hver staðsetningin ætti að vera. Hins vegar finnst mér vera mjög eðlilegt að þetta sé kannað og farið yfir kostnaðarþætti og annað sem er kannski, því miður, ekki allt of oft lagt upp með. Menn vissu þá út í hvaða peningaleg dæmi væri verið að fara.

Varðandi höfuðborgarsvæðið og viðkvæmnina gagnvart því þá sé ég enga ástæðu til að menn geri það að bitbeini eins og hv. þm. gerði áðan.