Stofnun sædýrasafns

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:42:34 (1438)

2003-11-10 18:42:34# 130. lþ. 23.11 fundur 277. mál: #A sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu# þál., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson séum sammála um að svona skoðun þurfi og eigi að fara fram, þ.e. varðandi stofnun sædýrasafns. En ég tel að við eigum ekki að skilyrða það með þeim hætti sem gert er í þessari till. til þál. Hér er það skilyrt að þetta verði eingöngu skoðað á höfuðborgarsvæðinu.

Með leyfi forseta vitna ég í grg. en þar stendur:

,,Eigi safn af þessari stærð að bera sig er nauðsynlegt að það verði á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan gerir því ráð fyrir að athugun beinist eingöngu að því svæði.``

Ef þessi till. til þál. gerði ráð fyrir því að við veltum því fyrir okkur í alvöru hvort við vildum sjá sædýrasafn, íslenskt sædýrasafn, og skoðað yrði hvar borgaði sig að reisa það þá væri ég tilbúinn að styðja það mál. En að skilyrða það með þessum hætti, að við séum eingöngu að tala um Reykjavík og nágrenni og skilja aðra hluta landsins frá í því sambandi þegar verið er að leggja til að nota eigi opinbert fé til að kanna hvort það borgi sig að reisa þetta eða ekki, því get ég ekki verið sammála.