Sjálfboðastarf

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:51:12 (1446)

2003-11-10 18:51:12# 130. lþ. 23.10 fundur 275. mál: #A sjálfboðastarf# þál., Flm. LMR (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Flm. (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu sjálfboðastarfs.

Þáltill. er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem meti stöðu sjálfboðastarfs á Íslandi, hvernig megi efla virðingu fyrir því starfi og auka mikilvægi þess íslensku samfélagi til framdráttar. Nefndin athugi og hvort hægt er að bæta aðstæður frjálsra félagasamtaka hér á landi svo að starf þeirra megi eflast til samræmis við það sem best gerist í öðrum löndum.

Nefndarmenn verði þrír, skipaðir af ráðherra.

Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. september 2004.

Sjálfboðastarf þekkjum við öll og það hefur skipað ákveðinn sess í íslensku samfélagi um langan aldur. Ég held að við höfum séð best sl. laugardagskvöld í söfnun fyrir Sjónarhól hverju sjálfboðastarf getur áorkað. Hjálparsveitir hafa unnið þrekvirki og þakka verður ósérhlífnu starfi meðlima þeirra. Íþróttafélög og barna- og unglingastarf hefur oft og tíðum byggst á sjálfboðastarfi og svo mætti lengi telja. Íslendingar hafa einnig veitt fátækum þjóðum aðstoð með sjálfboðavinnu, ýmist í þeim ríkjum þar sem aðstoðar hefur verið þörf eða m.a. með peningasöfnun hér á landi. Fatasöfnun er heldur ekki óþekkt. Meðal stórra samtaka og félaga sem byggst hafa á framlagi sjálfboðaliða eru Íþróttasamband Íslands, Landsbjörg, Kvenfélagið Hringurinn, Rauði kross Íslands og svo mætti telja áfram.

Árið 2001 var ár sjálfboðastarfs hjá Sameinuðu þjóðunum. Það ár var haldin ráðstefna hér á landi þar sem íslenskir og erlendir fyrirlesarar skiptust á skoðunum. Margt var gert á þessu ári sjálfboðastarfs hér heima. Umræða var einnig á Alþingi um þessi mál og hún gæti nýst í starfi þeirrar nefndar sem ég legg til að ráðherra skipi.

Þrátt fyrir að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess starfs sem sjálfboðaliðar vinna skortir nokkuð á fullan skilning í þeim efnum. Því hafa ýmsir aðilar, m.a. Evrópuráðsþingið, lagt til og beint þeim tilmælum til aðildarríkja Evrópuráðsins að störf sjálfboðaliða verði metin að verðleikum en rannsóknir hafa sýnt fram á að þau eru stór hluti af landsframleiðslu hvers ríkis, allt frá 10--20%. Þeir sem bjóða krafta sína til sjálfboðastarfa öðlast oft mikla reynslu sem ekki verður aflað annars staðar og þeir fá líka mikla lífsfyllingu út úr þessu starfi. Víða erlendis er slík starfsreynsla metin til fulls á við reynslu sem aflað er í launuðu starfi en svo er ekki hér nema að takmörkuðu leyti. Það er þó gleðiefni að það hefur verið gert á síðari árum í meira mæli en var. Það er álit mitt að þessu þurfi að breyta. Því er lagt til að nefndin meti hvernig efla megi virðingu fyrir starfi sjálfboðaliða og hvort breyta megi lögum á þann hátt að kveðið verði á um að við mat á hæfni þeirra sem sækja um opinber störf skuli tekið fullt tillit til reynslu sem aflað hefur verið í sjálfboðastarfi.

Ég get nefnt nokkra hópa. Ýmsir sem vinna heima vilja gjarnan vinna úti hluta dags en sækjast þá ekki alltaf eftir launuðu starfi heldur leita allt eins að vettvangi þar sem þeir geta látið gott af sér leiða og þegið ánægju og virðingu í stað launa. Það má einnig nefna t.d. eftirlaunaþega og námsmenn. Það er fjöldi fólks í þjóðfélaginu sem er tilbúið til þess að rétta hjálparhönd þegar á reynir. Vegna breyttra þjóðfélagsskilyrða og þess að fólk, báðir foreldrar t.d., hjón eða sambýlismenn, vinnur fullt launað starf í meiri hluta tilvika er því miður full ástæða til að hvetja fólk til þess að leggja sjálfboðastarfi lið. Slíka fórnfýsi þarf ekki bara að virkja heldur þarf að sýna henni fulla virðingu og sóma.

Störf sjálfboðaliða eru mikilvægur þáttur í hverju samfélagi. Þetta eru oft störf sem hvorki ríki né einkafyrirtæki hafa tök á að sinna. Þess vegna er rík ástæða til að athuga hvort bæta megi á einhvern hátt umhverfið sem frjáls félagasamtök búa við hér á landi og þá er ég að ræða um félagasamtökin sjálf. Sparnaður þjóðfélagsins af vinnu sjálfboðaliða er nefnilega ómældur, nefndin gæti aflað grunnupplýsinga um þann sparnað og þær gætu reynst mikilvægt tæki við hagstjórn.