Sjálfboðastarf

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 19:02:25 (1448)

2003-11-10 19:02:25# 130. lþ. 23.10 fundur 275. mál: #A sjálfboðastarf# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég er einn af flm. þessarar tillögu um eflingu sjálfboðaliðastarfs. Íslenska þjóðin hefur sem betur fer um áratuga skeið, ef ekki alda, notið þess að hér á landi hefur verið öflugt sjálfboðaliðastarf með ýmsum formerkjum. Vissulega var það svo að menn söfnuðust saman til sjálfboðaliðastarfa löngu áður en slík félög urðu til, þó að þau hafi vissulega snemma orðið til hér á landi. Ber kannski sérstaklega að minnast þess að það voru ákveðnir frumkvöðlar sem stofnuðu til sjóbjörgunarsamstarfsins fyrir margt löngu sem var forveri Slysavarnafélags Íslands og annarra samtaka og deilda úti um land sem störfuðu að björgun mannslífa og efldu vitund fólks um að vítt og breitt um landsbyggðina væri hópur manna tilbúinn til að leggja á sig ómæld störf til þess að þjóna þjóð sinni þegar þannig bæri að.

Það hefur verið sammerkt íslensku þjóðinni í áratugi og aldir að takast á við verkefni og sameinast um að leysa ákveðna hluti sem þjóðinni hefur fundist að þyrfti að taka á á hverjum tíma. Þetta er lærdómur og kannski innbyggt í þjóðarsálina. Nærtækt er að minna á söfnun sem fór fram um síðustu helgi þar sem efnt var til samskota í sambandi við Sjónarhól og áberandi hve vel þjóðin brást við slíku samskoti og slíku samstarfi, þar sem þjóðin var sammála um að þurfti að taka á.

Öll þau störf sem unnin eru af sjálfboðaliðum, bæði í íslensku þjóðfélagi og reyndar líka af Íslendingum utan landsteinanna, eru hverri þjóð mjög verðmæt. Það er kannski erfitt að leggja nákvæmt mat á verðmætið í einhverjum skölum en það er sjálfsagt ekki ofmælt að það megi meta þetta til tuga prósenta þegar málið er skoðað í samhengi fyrir þjóð.

Nú er það auðvitað svo, virðulegi forseti, að það reynir misjafnlega mikið á sjálfboðaliðastarfið og það er misjafnlega krefjandi. Sá farvegur sem hefur orðið á björgunar- og aðstoðarstörfum hér á landi, að sameina mörg hjálparsamtök í ein samtök, Landsbjörg, er skref sem var stigið fyrir nokkrum árum og hefur verið mjög til góðs. Þar er verið að þjálfa og efla fólk til hópstarfa. Það er auðvitað þannig, og það vita menn eins og sá sem hér stendur og hefur verið skipstjóri áratugum saman, að skipshöfn er aðeins góð ef allir hlekkirnir í henni virka. Það er nákvæmlega eins með hjálparstarf. Hjálparstarf er aðeins í lagi ef allir hlekkirnir í keðjunni sem ætlað er að taka þátt í viðkomandi hjálparstarfi virka og eru tilbúnir til þess að leysa þau störf af hendi með því hugarfari að menn séu að vinna verk sem komi bæði þeim sjálfum og öðrum vel í þjóðfélaginu og það sé ekki endilega verið að horfa til launa eða verðlauna í því sambandi. En að sjálfsögðu gera hjálparsamtök kröfu til þess að þeirra hlutur í þjóðfélaginu sé virtur og að ákveðin virðing sé borin fyrir þeim störfum sem unnin eru. Það er mjög eðlilegt.

Við getum kannski gert þessi störf verðmætari með því m.a. að vinna að því sem lagt er til í þáltill., að meta þessi störf, að efla þau, að verðlauna störfin sem unnin eru og okkur til góðs, og einnig að meta þá reynslu sem fylgir því að taka þátt í alls konar hjáparstarfsemi, hvort sem það eru líknarfélög, björgunarfélög eða önnur samtök sem stofnað er til í ákveðnum tilgangi til þess að takast á við ákveðin vandamál sem okkur finnast vera í íslensku þjóðfélagi.

Ég held að það væri vissulega þörf á því, virðulegi forseti, ef hægt væri, að búa til einhvern viðmiðunarskala um hvernig hægt væri að meta slík störf t.d. til launa, launareynslu eða starfsreynslu þegar menn eru að sækja um atvinnu eða vinna önnur störf.

Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, og ber að þakka það, að atvinnurekendur á Íslandi hafa horft fram hjá því við margan starfsmanninn sem hefur verið fullstarfandi í hjálparsamtökum og þurft að hverfa úr vinnu tímabundið og mjög snögglega. Launagreiðendur og atvinnurekendur hafa virt það við sína starfsmenn og borið af því kostnað og ekki séð eftir því. Það ber að þakka. Hjálparstarf á Íslandi væri ekki jafnöflugt og það er, ef atvinnurekendur hefðu ekki almennt litið til hjálparstarfsins með svo jákvæðu hugarfari. En það er ekki þar með sagt að við getum ekki metið þessa reynslu betur, lagt meira mat á hana eða stýrt henni til betri niðurstöðu og betri afreka, ef hægt er að orða það svo, því vissulega eru unnin afrek oft og tíðum í sjálboðastarfi, hvort sem við erum að tala um hjálparsamtök eins og Kvenfélagið Hringinn, mæðrastyrksnefnd eða björgunarfélög.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti. Ég tel að hér sé verið að hreyfa mjög þörfu máli og vonast til þess að niðurstaðan af því starfi sem hér er lagt upp með að verði skoðað, verði mjög jákvæð og við séum þá að veita málum frekara brautargengi.