Starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:35:34 (1453)

2003-11-11 13:35:34# 130. lþ. 24.91 fundur 132#B starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Það var nokkuð óljóst hvað hv. þm. var að fara í fyrirspurn sinni með athugasemdum sínum en ég vek athygli á því að tilefni umræðunnar eftir ræðunni að dæma var starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar. Ég vek athygli á því, frú forseti, að iðnrh. er ekki í salnum, er við skyldustörf sem ráðherra úti á landi og er því ekki hér til að bregðast við. Mér þykir sæta mikilli furðu að hv. þingmaður skuli koma hér upp af þessu tilefni að ráðherra fjarstaddri.

Þar að auki má bæta við þetta að ef hv. þingmaður hefði haft fyrir því að kynna sér málið ögn betur (Gripið fram í: Er iðnrh. ...?) liggur m.a. fyrir að stærstur hluti af þeirri upphæð sem hv. þm. nefndi byggir á samningum sem gerðir voru árið 1985 við fyrri forstjórann sem hér barst í tal og það eru samningar um lífeyrisskuldbindingar. Þá hlýtur hv. þm. sem hneykslast á þessu að þurfa að svara því hvort þá hefði átt að bregðast þeim samningum sem gerðir voru 1985.

Í síðara tilvikinu var um að ræða mun lægri upphæð en byggir á því að það er gerður samningur við starfslok og er farið þar eftir lögum og reglum og þá hlýtur hv. þm. að svara því hvort þá hafi átt að brjóta þau lög og þær reglur sem gilda í slíkum tilvikum að mati þeirra sem eru yfirstjórnendur viðkomandi stofnana.

Frú forseti. Ég árétta það að mér þykir það mjög ómaklegt að fara upp með mál af svona tilefni að ráðherra fjarstaddri. (Gripið fram í.)