Starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:49:42 (1461)

2003-11-11 13:49:42# 130. lþ. 24.91 fundur 132#B starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Frú forseti. Það er ástæðulaust að fyrtast við þó að við ræðum svona athyglisvert svar eins og ég hef fengið frá hæstv. iðnrh., eins og hæstv. félmrh. gerði og svara með þjósti, það er alveg ástæðulaust. Það er full ástæða til að ræða þetta.

Hæstv. ráðherra sagði að ég væri að bera saman starfslok starfsmanns sem hefði hætt í sátt og samlyndi, og ég skal halda því áfram. Síðari forstjóri hjá Byggðastofnun hætti í sátt og samlyndi. Hann hætti af sjálfsdáðum eins og sagt er. Hann hafði starfað í eitt og hálft ár og fær tæpar 20 millj. kr. í greiðslur.

Forstjóri Jafnréttisstofu eða framkvæmdastýra Jafnréttisstofu var búin að starfa í þrjú ár. Hún hætti ekki í sátt og samlyndi, hún var látin hætta. Og hvað er henni boðið? Henni eru boðnir sex mánuðir í laun. Það er full ástæða til að ræða það hvernig starfslokum er háttað eftir því hvort það eru karlar eða konur og full ástæða til að skoða það. Og ég hef útbúið fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það.

Karlinn sem hættir 2002 fær tæpar 20 milljónir þegar hann hættir eftir eins og hálfs árs starf, en konunni sem er að hætta núna eftir þriggja ára starf eru boðin sex mánaða laun, (Gripið fram í: Átti að hækka ...?) sem eru kannski um 3 milljónir með öllum launatengdum gjöldum.

Það er fullkomlega óviðunandi. (Gripið fram í.) Auðvitað eigum við að skoða þessa starfslokasamninga, setja reglur og fara eftir þeim. Eigum við að láta bjóða okkur að körlum séu boðin svona kjör og konurnar sitji eftir? Nei takk.