Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:55:44 (1463)

2003-11-11 13:55:44# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Jafnframt mæli ég fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Samkvæmt lögum nr. 37/1992 rennur andvirði ólögmæts sjávarafla í sérstakan sjóð sem ráðherra skal ráðstafa til hafrannsókna og eftirlits með fiskveiðum. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIX við lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er skipstjóra heimilt að ákveða að hluti aflans reiknist ekki til aflamarks skipsins og rennur andvirði þess afla til Hafrannsóknastofnunarinnar. Þessi afli er almennt kallaður Hafró-afli. Ráðstöfun fjár úr þessum sjóðum er lögum samkvæmt takmörkuð við tilgreind verkefni.

Í frumvörpunum er lagt til að andvirði Hafró-aflans og andvirði ólögmæts sjávarafla renni í einn og hinn sama sjóð og verði hann nefndur Verkefnasjóður sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins verði víkkað og fé úr þeim sjóði verði varið til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs sem og til eftirlits með fiskveiðum. Með þessu móti yrði hlutverk þessa nýja sjóðs allmiklu víðtækara en þeirra tveggja sjóða sem nú eru fyrir. Með því að breyta hlutverki sjóðins eins og hér er lagt til skapast miklir möguleikar til að auka þau verkefni sem sjóðurinn gæti styrkt með markvissum hætti. Verði frv. að lögum verður unnt að styrkja rannsóknir á sviði sjávarútvegs almennt auk þess sem möguleikar opnast til þess að efla nýsköpun í sjávarútvegi. Í ljósi hins víðtæka hlutverks sjóðsins er lagt til að nafn hans verði Verkefnasjóður sjávarútvegsins eins og áður segir.

Andvirði Hafró-aflans hefur runnið til Hafrannsóknastofnunar eins og kveðið er á um í ákvæðinu sem öðlaðist gildi 1. febr. 2002. Námu tekjur Hafrannsóknastofnunarinnar vegna þessa á árinu 2002 um 96 millj. kr. og um 125 millj. kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003.

Heildargjaldtaka vegna ólögmæts sjávarafla hefur verið mjög mismikil á síðustu árum en á fimm síðustu árum, 1998--2002, innheimtust samtals tæplega 182 millj. kr. vegna ólögmæts sjávarafla. Í frv. um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla er lagt til að Fiskistofu verði heimilað að svipta skip veiðileyfi hafi skuld vegna upptöku ólögmæts sjávarafla ekki verið greidd 30 dögum eftir að til álagningar kom. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að nokkur dæmi eru um að útgerðaraðilar hafi haldið áfram útgerð skips, oft undir nýju nafni og kennitölu, eftir að reyndar hafa verið árangurslausar innheimtuaðgerðir hjá þeim. Er hér oft um að ræða eignalítil einkahlutafélög með óveruleg fjárráð sem tekið hafa á leigu eða keypt, oft eingöngu um yfirtöku veðskulda, kvótalítil eða kvótalaus skip sem þeir síðan gera út með kaupum á aflaheimildum. Fyrir liggur að mestan hluta afskrifta af gjaldtöku vegna ólögmæts sjávarafla má rekja til slíkra útgerða. Er talið nauðsynlegt að þessi breyting nái fram að ganga, bæði til að tryggja skilvísa greiðslu álagningar og eins til að koma í veg fyrir ólögmætar veiðar. Í þessu sambandi má benda á að vanskil bæði á veiðileyfisgjaldi og gjaldi til Þróunarsjóðs valda niðurfellingu veiðileyfis auk þess sem lögveð stofnast í skipum vegna þeirra gjalda.

Samkvæmt b-lið 16. gr. laga nr. 85/2002 hefur ráðherra til ráðstöfunar 500 lestir af þorski til tilrauna með áframeldi á þorski. Heimild þessi tók gildi á fiskveiðiárinu 2001/2002 og gildir næstu fimm fiskveiðiár þar á eftir. Á síðasta fiskveiðiári var úthlutun þessara heimilda falin Rannsóknasjóði til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-verkefninu, en vegna ýmissa orsaka nýttust þessar heimildir ekki að fullu. Er hér lagt til að ónýttar aflaheimildir, sem til ráðstöfunar voru í þessum tilgangi á fiskveiðiárinu 2002/2003, flytjist til fiskveiðiársins 2003/2004.

Loks er í frv. um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla lagt til að leiðréttar verði tvær rangar lagatilvísanir.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frumvörpunum vísað til hv. sjútvn.