Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 14:11:25 (1465)

2003-11-11 14:11:25# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., GMJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Grétar Mar Jónsson:

Hæstv. þingforseti. Ég vil byrja á því að þakka sjútvrh. fyrir að taka upp þessa 5% reglu sem gerð var fyrir tæpum tveimur árum og segi ég að það hafi verið til bóta, einkum að viðurkenna loks brottkast. Forverar núv. sjútvrh. höfðu ekki viðurkennt brottkast þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á það í ein 12--15 ár frá því að þetta kvótakerfi var tekið upp, fiskveiðistjórnarkerfi, og það er vel að taka upp þessa viðurkenningu. En þessi 5% regla er samt of lítil. Ég hefði viljað sjá hana vera 10% af afla sem mætti landa í einhvern sjóð. Fyrst það stendur ekki til að eyrnamerkja þessa peninga til Hafrannsóknastofnunar hefði ég talið að tekjurnar þyrftu að eyrnamerkjast einhverjum ákveðnum aðilum eins og t.d. Landhelgisgæslunni, Slysavarnaskóla sjómanna, slysavarnafélögunum, björgunarsveitum, jafnvel Lífeyrissjóði sjómanna, þannig að menn sæju hag af því að hirða fisk í þetta. Eins þyrfti að breyta hlutfallinu svo að það yrði meiri hvati fyrir sjómenn að hirða þennan fisk. Það er of lítið að fá bara 20% af þessum afla. Sjómenn þurfa að fá lágmark að mínu mati 50% af aflanum.

Kannski má segja í lokin að þetta sýni náttúrlega best hvað þetta fiskveiðistjórnarkerfi okkar er handónýtt til allra nota.