Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 14:13:40 (1466)

2003-11-11 14:13:40# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Jón Bjarnason:

Virðulegi frú forseti. Með þessum frv. um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla og um stjórn fiskveiða sem hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir er verið að breyta í nokkru farvegi og skerpa á heimildum á innheimtu á gjöldum sem koma inn annars vegar vegna ólögmæts sjávarafla sem gerður er upptækur og hins vegar vegna meðafla sem kemur í land og ekki getur flokkast sem hluti af aflaheimildum viðkomandi skips. Lagt er til að þetta fjármagn renni í sérstakan Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Samkvæmt þeim lögum sem gilt hafa um þetta frá því í fyrra á féð að renna til Hafrannsóknastofnunar. Ég tek undir orð hv. þm. Grétars Mars Jónssonar en vil árétta að fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt er svo fullkomlega gatslitið og götótt að það eitt sér er náttúrlega meginvandamálið. Við erum síðan með einum eða öðrum hætti að reyna að stoppa upp í gat hér og stoppa upp í götin og reyna að gera það besta úr vandanum hér og vandanum þar. Þetta er náttúrlega bara eins og að elta skottið á sjálfum sér.

[14:15]

En þar sem kerfið í heild sinni er ekki hér til umræðu heldur ákveðin atriði þess vil ég láta í ljós þá skoðun mína að ég lýsti miklum efasemdum um að Hafrannsóknastofnun fengi óskilgreint svo mikið fjármagn til ráðstöfunar og kveðið er á um í gildandi lögum, þ.e. að fé sem innheimtist með þessum hætti rynni óskilgreint til Hafrannsóknastofnunar. Þetta eru um nokkur hundruð millj. kr. á ári og er í raun orðinn eins konar skattstofn á sjávarútveginum, á atvinnuveginum. Upprunalega var þetta hugsað til að leiðrétta eða til að koma í veg fyrir brottkast eða minnka brottkast þannig að það þjónaði nokkrum tilgangi að koma með afla að landi án þess að vera settur í fangelsi fyrir það. En nú er farið að meðhöndla þetta meira eða minna sem skattstofn. Þá verður að fara að líta þetta svolítið öðrum augum.

Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvað er gert ráð fyrir því að þessi Verkefnasjóður sjávarútvegsins geti velt miklum upphæðum, þessi sjóður sem á að fara inn í sjútvrn. og vera til útdeilingar, jafnvel háður þess vegna geðþóttaákvörðunum eða ákvörðunum sem Alþingi hefur ekki lagt blessun sína yfir? Ég tel að þessi sjóður, Verkefnasjóður sjávarútvegsins, ætti að lúta ráðstöfun og ákvörðunum Alþingis. Um gríðarlega fjármuni er þarna að ræða sem Alþingi á að ráðstafa að mínu mati til verkefna sem tengjast atvinnuveginum sjávarútvegi. Hér er verið að opna á að ráðstafa megi þessu fé til ýmissa annarra verkefna en bara hafrannsókna, gott og vel. Ég tel að þessu fjármagni eigi að ráðstafa á vegum Alþingis.

Mér heyrist af umræðunum að þetta geti skipt nokkur hundruð millj. kr. Kannski er farið að styttast í að þarna geti verið til ráðstöfunar á ári hálfur til 1 milljarður kr. Því er algjörlega óeðlilegt og ólýðræðislegt að ráðherra hafi nánast einn vald til að úthluta þessu fé. Þó svo að hæstv. ráðherra skipi stjórn slíks sjóðs þá er hún bara nokkurs konar framlenging á hans sterka armi. Það er óeðlilegt að ráðstafa svo miklum fjármunum með þeim hætti.

Margar aðrar stofnanir gætu átt rétt á að fá einmitt hlutdeild í þessu, t.d. náttúrustofurnar sem geta stundað staðbundnar rannsóknir á lífríki meðfram ströndum landsins. Ég nefni háskólana, háskólasetrið á Ísafirði, háskóla í Skagafirði o.s.frv. sem gætu vel stundað ákveðnar staðbundnar rannsóknir út frá sínum svæðum.

Mér kom svolítið spánskt fyrir sjónir að heyra að Hafrannsóknastofnun væri að sækja um sérstakt fjármagn á fjárlögum til þess að geta haldið úti sinni litlu starfsemi á Ísafirði. Hún var þó að fá til starfsemi sinnar háar upphæðir, að mig minnir, svo skipti hundruðum millj. kr. í formi einmitt þessa meðaflafjár. En hún gat ekki varið 10--15 millj. kr. af þessu fjármagni til að standa undir rekstri starfsemi sinnar á Ísafirði sem er þó einn af stærri löndunarstöðum íslensks sjávarfangs. Það er eitthvað að í slíku kerfi.

Virðulegi forseti. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við meðhöndlun hv. sjútvn. á frv. verði litið til þess að gera þær breytingar að þetta fjármagn komi til ráðstöfunar á vegum Alþingis og úthlutist til verkefna vítt og breitt um landið sem tryggja, styðja að og efla störf í sjávarútvegi og verkefnum tengdum sjávarfangi og atvinnulífið meðfram ströndum landsins.