Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:19:22 (1474)

2003-11-11 15:19:22# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ engan botn í málflutning hv. þm. Hvernig vill hann hafa þetta? Auðvitað er vísindamönnum og Hafrannsóknastofnun það vel ljóst að miklir efnahagslegir hagsmunir tengjast þeim störfum sem þeir vinna. En hefur hv. þm. Pétur Blöndal einhverjar forsendur til þess að fullyrða annað en að þessir menn starfi samkvæmt bestu samvisku og á grundvelli þess sem þeir vita best og réttast á hverjum tíma? Þeir hafa verið að endurmeta ráðgjöf sína og tillögur sínar, m.a. viðurkennt á milli ára að ofmat eða vanmat á tilteknum stofnum hafi átt sér stað og leiðrétt það og hafa fengið alls konar skammir fyrir. Auðvitað vitum við öll að þessi vísindi eru mjög umdeild. Ég kem ekki hér í ræðustólinn til þess að skrifa upp á og ábyrgjast að allt sem Hafrannsóknastofnun hafi gert sé rétt. Þetta snýst ekki um það. En ég held að menn verði að gæta aðeins að sér áður en þeir fara að gefa þessu fyrirkomulagi falleinkunn á forsendum jafnóljósum og þeim sem hv. þm. Pétur Blöndal kemur með.

Hvernig ætlar hv. þm. að hafa kerfið? Vill hann skipta stanslaust um vísindamenn þannig að alltaf komi nýir og nýir menn að því að meta hlutina? Hann talar um að menn geti ekki viðurkennt mistök af því svo miklir hagsmunir hafi tengst ákvörðunum þeirra. Þetta finnst mér ekki gáfuleg nálgun. Ég sé ekki hvernig við ætlum að leysa þetta í litlu landi. Ætlum við að gera það með því að skipta stanslaust um vísindamenn þannig að það séu alltaf nýir og nýir menn að meta hlutina, óbundnir af öllu sem einhverjir aðrir hafa einhvern tímann gert? Við þyrftum að fjölga talsvert fiskifræðingum og líffræðingum sýnist mér til þess að manna það ef endurnýja ætti áhöfnina á Hafrannsóknastofnun einu sinni á ári. Og ætli það væri nú endilega mjög gáfulegt frá faglegum sjónarhóli séð, ætli sé ekki líka ákveðin reynsla og þekking sem byggist upp í starfsmönnum sem hafa starfað þar um árabil? Halda menn að það hefði verið gott fyrir síldarrannsóknir á Íslandi að skipta um Jakob Jakobsson einu sinni á ári? Þetta er bara þvæla sem ég held að nái ekki máli hjá hv. þm.