Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:52:59 (1482)

2003-11-11 15:52:59# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef rannsóknir á loðnu í norðurhöfum er mjög mikilvægt verkefni, verkefni sem skiptir sköpum, þá held ég að stofnun sem hafði á síðasta ári og væntanlega á þessu og næsta ári vel á annan milljarð til ráðstöfunar hljóti að forgangsraða þannig að það verkefni fái forgang þannig að hún geti sinnt því verkefni. Það er hlutverk stofnananna að vinna með þá fjármuni sem þær fá til ráðstöfunar. Í ráðuneytinu förum við ekki ofan í einstök verkefni hjá þeim til þess að ákveða hvað eigi að gera fyrst og fremst. Það er þeirra hlutverk að gera það. Við förum yfir heildarrammana.

Ég held að ákveðinn stígandi þurfi að vera í fjárframlögum til hafrannsókna þegar við skoðum þetta í lengri tíma samhengi. Hins vegar er ekki hollt fyrir rannsóknastofnanir að of mikil og of hröð aukning verði á þeim fjármunum sem þær hafa til ráðstöfunar. Það hefur margsinnis sýnt sig að þá þynnast rannsóknirnar út, eins og menn orða það í vísindaheiminum. Það vil ég ekki sjá gerast hjá Hafrannsóknastofnuninni og ég held ekki að það sé að gerast þar. Ég held að þar noti menn fjármunina betur en svo. Ég held að stofnuninni sé gert kleift að sinna og framkvæma þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir okkur hér á landi.