Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:13:33 (1489)

2003-11-11 16:13:33# 130. lþ. 24.7 fundur 37. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Ég hef áður mælt fyrir þessu frv. hér á hv. Alþingi sem er í raun aðeins ein lagagrein. Hún kveður á um að auka réttarstöðu launþega þegar lengi dregst að gera kjarasamninga og er í raun og veru ætlað að tryggja það að launþegar sem sitja undir því að kjarasamningur kemst ekki á við viðkomandi stéttarfélag eða stéttarsamband svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir, þurfi ekki að una við slíkan tíma óbættan. Þetta skýrist mjög í 1. gr., en hún hljóðar svona:

[16:15]

,,Í stað 3. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi en þó því aðeins að hann hafi verið undirritaður innan sex mánaða frá því að fyrri samningur féll úr gildi, enda sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.``

Síðan segir:

,,Séu kjarasamningar lausir lengur en sex mánuði skal upphafshækkun launaliða og önnur atriði sem bæta kjör launþega þegar kjarasamningur kemst á virka aftur til helmings þess tíma sem liðinn er án nýs kjarasamnings. Við hverja tvo mánuði sem bætast við án kjarasamnings færist gildistaka upphafshækkunar aftur um einn mánuð. Eftir tólf mánuði eða meira með lausa kjarasamninga gildir umsamin hækkun frá því að samningurinn féll úr gildi. Óheimilt er að semja um annan upphafsgildistíma, nema því aðeins að launþegum verði greidd eingreiðsla sem telst jafngild í tekjum þeim afturvirku upphafshækkunum, eða áfangahækkunum á liðnum tíma án endurnýjunar kjarasamnings, sem lög þessi kveða á um.

Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.``

2. gr. hljóðar síðan upp á að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þessu frv. fylgir svofelld greinargerð, virðulegi forseti:

Með frumvarpi þessu er lögð til réttarbót fyrir launþega ef upp kemur sú staða að kjarasamningar eru lausir mánuðum saman. Viðbótarákvæðin, sem lagt er til með frumvarpi þessu að komi í 5. gr. laga nr. 80/1938, með síðari breytingum, eru efnislega þau að tryggja launþegum sambærilegar launabreytingar og öðrum launþegum hafa verið tryggðar fyrir sömu tímabil eða ár ef svo hagar til að gerð nýrra kjarasamninga dregst verulega á langinn. Ákvæðin sem bætt er í 5. gr. laganna eiga aðeins við og verða því aðeins virk að kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags hafi verið lausir lengur en í sex mánuði. Sé nýr kjarasamningur gerður innan sex mánaða frá því að eldri kjarasamningur féll úr gildi hafa þau ákvæði sem frumvarpið felur í sér enga beina virkni. Ákvæðin ættu samt sem áður að hafa óbeina virkni í þá veru að hvetja aðila kjaradeilu til þess að leysa mál sín fyrr en ella.

Þarna er m.a. með þessari síðustu setningu verið að benda á það að séu slík ákvæði sett í lög er það auðvitað hagur, ekki bara launþeganna að ná kjarasamningi, það er líka hagur atvinnurekendanna og samtaka þeirra að kjarasamningurinn komist á áður en sex mánuðir eru liðnir því að ella byrjar ákvæðið um afturvirknina sem lagagreinin kveður á um að telja. Strax og komið er umfram sex mánuði mundi samningurinn virka aftur fyrir sig um einn mánuð. Þannig mundi það telja og það þýðir að ef kjarasamningurinn dregst í heilt ár skal upphafshækkun hans og þau ákvæði sem samið er um í samningnum gilda frá því að samningurinn féll úr gildi en ekki frá undirskriftardegi samningsins. Hér er auðvitað verið að setja ákveðna pressu á atvinnurekendurna einnig í þessari deilu. Launþeginn og launþegasamtökin hafa haft þá pressu á undanförnum árum að þurfa að ná inn í kjarasamningana einhverjum upphafshækkunum ef þeir hafa dregist á langinn. En hér er eftir sex mánuði pressunni svolítið snúið við og hún kemur á atvinnurekendur af þeim þunga að gangi þeir ekki til samninga og leysi samningamál sín er það réttur launþeganna og launþegasamtakanna að samningurinn verði afturvirkur allt að þeim degi sem hann féll úr gildi ef dregist hefur í tólf mánuði að gera kjarasamning.

Hér er þess vegna réttarbót launþega sem felst í því að honum sem einstaklingi er tryggð leiðrétting á launum í samræmi við það sem samið hefur verið um við önnur launþegasamtök eða stéttarfélög.

Síðan eru í grg. nefnd ýmis dæmi um það að samningar hafi dregist á langinn, m.a. birt tafla um kjarasamninga sjómanna á fiskiskipum en þeir hafa mjög oft orðið fyrir því að kjarasamningar þeirra hafa dregist á langinn eða þá að lög hafa verið sett á kjarasamninga þeirra. Þannig hagar einnig til nú, virðulegi forseti, að sjómenn starfa eftir samningum sem settir voru með lögum og sem mig minnir að falli úr gildi um áramótin. Í ákveðinni töflu þarna er sýnt fram á það hversu lengi sjómenn hafa verið samningslausir á þessu ákveðna tímabili, og það eru hvorki meira né minna en 2.403 dagar, virðulegi forseti. Það munar um minna.

Fiskimenn eru ekki þeir einu sem hafa lent í þessu dæmi sem hér er nefnt til. Það hefur vissulega náð til annarra stétta, t.d. lögreglumanna man ég eftir, gott ef ekki kennara líka. Þegar samningar dragast á langinn mánuðum saman þýðir það að ef ekki næst að semja um upphafshækkun sem gildir frá því að samningurinn féll úr gildi --- sem oftast nær hefur ekki verið --- hafa samtök atvinnurekendanna hagnast verulega á því að láta samningana dragast mánuðum og árum saman meðan launþegar hafa tapað verulegum upphæðum á því sama lagi.

Hér er með þessu frv. verið að leggja til réttarbót fyrir launþega inn í vinnulöggjöfina og tryggja að samið skuli við launþega með ákveðnum hætti, miðað við þennan lagabókstaf sem hér er, ef samningar dragast lengur en sex mánuði, og ef þeir dragast lengur en tólf mánuði skal, samkvæmt lagaákvæðinu, samningurinn vera algjörlega afturvirkur frá því að samningurinn féll úr gildi eða þá að það skal samið um eingreiðslu sem bætir með sama hætti og upphafshækkun hefði gert kaup og kjör launþeganna sem um er að ræða. Ákvæðið um að semja um eina eingreiðslu er einfaldlega til einföldunar þannig að það þurfi ekki að færa þetta sem eftirágreiðslu aftur í tímann heldur megi semja um þetta til hagræðis til eingreiðslu. Auðvitað er þá samninganefndum falið að meta það og átta sig á því um hvaða upphæðir væri að ræða ef þannig væri þá gengið frá samningi.

Allt að einu felur frv. í sér þá réttarbót að tryggja stöðu launþeganna og ég mæli eindregið með því að þetta frv. fái góða og efnislega skoðun.