Umferðarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:54:22 (1501)

2003-11-11 16:54:22# 130. lþ. 24.13 fundur 134. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo það sé alveg skýrt, ég hélt ég hefði nú talað nokkuð skýrt, að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að heimilt sé að beygja til hægri á móti rauðu ljósi, virða stöðvunarskyldu o.s.frv., en í undantekningartilvikum sé það bannað en þá er þess getið sérstaklega með þar til gerðu skilti eins og tíðkast bæði í Kanada og Bandaríkjunum.

Ég hélt lengi vel af ræðu hv. þm. að ástæðan fyrir andstöðu hans væri bara af því orðið ,,hægri`` kemur inn í á móti rauðu ljósi, en heyrði síðan að svo var ekki, það er meira sem býr þar á bak við. Og ég tók það mjög alvarlega og ég vona að hv. þm. hafi ekki verið að saka mig um að stofna vísvitandi lífi og limum fólks í hættu með þessu frv. Mér fannst hv. þm. tala þannig og ég tek það mjög alvarlega. Ég tel það alvarlega ásökun af hálfu hv. þm. hafi hann meint það þannig. Ég reyndi að færa þau rök fyrir því máli, þau bestu rök sem ég hef, reynslu vestan hafs og víða í Evrópu þar sem þetta er notað og hefur gefið góða raun og engin hætta á öðru en að menn væru búnir að breyta því ef reynslan hefði verið léleg, ég nefni þar sérstaklega Kanada og mætti reyndar nefna Bandaríkin líka.

Hins vegar tel ég að rök hv. þm. að svona hafi þetta verið, hefðin sé þessi og þar af leiðandi eigum við ekki að breyta því, ég hefði nú ekki, frú forseti, trúað því að heyra slíka íhaldssemi koma fram hjá hv. þm. Með nákvæmlega sömu rökum værum við líklega enn hér að keyra vinstra megin en ekki hægra megin á vegi eins og nágrannaþjóðir okkar gera, því við fórum jú úr vinstri umferð yfir í hægri umferð 1968 og þá með nákvæmlega sömu íhaldsrökum, hefðarökum, hefðum við ekki átt að fara í þá breytingu. Telur hv. þm. að það hafi verið mistök?