Ferðasjóður íþróttafélaga

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 17:04:20 (1506)

2003-11-11 17:04:20# 130. lþ. 24.14 fundur 135. mál: #A ferðasjóður íþróttafélaga# þál., GHj
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Guðjón Hjörleifsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. flm. Hjálmari Árnasyni um till. til þál. um ferðasjóð íþróttafélaga og mikilvægi þess að reynt verði að draga úr þeim mikla ferðakostnaði sem mörg íþróttafélög á landsbyggðinni búa við í dag.

Öflugt íþróttastarf er einn af hornsteinum hvers samfélags og, frú forseti, það verður seint ofmetið í heilbrigðri uppbyggingu æsku þessa lands. Mikil sjálfboðavinna liggur að baki í starfi íþróttafélaga, bæði stjórnenda og foreldra, og er sá þáttur ómetanlegur bæði félagslega og fjárhagslega.

Ferðakostnaður allflestra íþróttafélaga á landsbyggðinni er mjög mikill og dæmi eru um að kostnaður íþróttafélags hafi numið allt að 25 millj. kr. á einu ári. Svo mikill er ferðakostnaður liða á landsbyggðinni að þau hafa jafnvel ekki séð sér fært að standa undir honum og orðið að draga lið sín úr keppni og greiða frekar sektir til að sleppa við kostnað vegna ferðalaga. Þegar svo er komið má öllum ljóst vera að félögin róa stöðugan lífróður og ekkert má út af bregða í fjáröflun félaga eigi þau að geta starfað áfram.

Frú forseti. Það er metnaður hvers íþróttafélags að geta átt lið í efstu deildum hverju sinni og mikil styrking fyrir hvert bæjarfélag að öflugt og fjölbreytt íþróttastarf sé til staðar enda hafa flest sveitarfélög byggt upp mjög myndarleg íþróttamannvirki svo að eftir er tekið. Á sama tíma og lagst er í þessar stóru framkvæmdir minnkar því miður oft fjölbreytni íþróttastarfseminnar þar sem margar íþróttagreinar leggjast af vegna mikils ferðakostnaðar félaganna. Þá skal einnig leggja ríka áherslu á, eins og fram kemur í grg. með þáltill., að íþróttastarf er einn af hornsteinum forvarnastarfs hvers byggðarlags.

Frú forseti. Við skulum gera okkur grein fyrir því að ekki einungis hefur ferðakostnaður með áætlunarflugi hækkað verulega heldur sýnir ferðaáætlun flugfélaga að ekki eru í boði áætlunarferðir á kvöldin eftir að leikjum lýkur. Það gefur augaleið að þetta hefur oft í för með sér gistikostnað og launatap fyrir íþróttafólk sem hefur þurft að vera frá vinnu, sem og fjarveru frá skóla daginn eftir leiki. Það er því mín skoðun að hér sé um mikið réttlætismál að ræða og mikilvægt að jafna þennan aðstöðumun eins mikið og hægt er. Frú forseti. Ég fullyrði að slíkt kemur til með að skila sér í enn öflugri og betri starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni.