Skipulag og framkvæmd löggæslu

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 17:07:13 (1507)

2003-11-11 17:07:13# 130. lþ. 24.15 fundur 136. mál: #A skipulag og framkvæmd löggæslu# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um úttekt á skipulagi og framkvæmd löggæslu, sem ég flyt ásamt hv. þm. Jónínu Bjartmarz, Þuríði Backman, Guðjóni A. Kristjánssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Hjálmari Árnasyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Þessi tillaga var flutt á 128. löggjafarþingi af sömu flutningsmönnum en komst þá ekki á dagskrá þannig að ekki liggja fyrir umsagnir um þetta mál sem nú er endurflutt.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp tillögugreinina, sem hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sem skilgreini, meti og geri tillögur um skipulag og framkvæmd löggæslu í landinu og móti reglur um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi, með það að markmiði að ná fram hagræðingu, aukinni skilvirkni og samhæfingu innan lögreglunnar svo að tryggja megi aukna þjónustu við íbúana og öryggi þeirra. Þá fari nefndin einnig yfir menntunarmál lögreglumanna og geri tillögur til úrbóta ef þörf er á.

Nefndin kanni sérstaklega:

a. Breytingar á skipulagi lögreglumála með hliðsjón af kröfum um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi. Nefndin meti einnig hvort hægt sé að auka hagkvæmni með því að greina lögregluumdæmi frá sýslumannsembættum, jafnframt því sem lögregluumdæmi verði stækkuð og rannsóknardeildir styrktar eða stofnaðar við hvert embætti.

b. Kosti þess og galla að flytja tiltekin verkefni lögreglu til sveitarfélaga.

c. Grunnmenntun og framhaldsmenntun lögreglumanna.

d. Önnur þau atriði sem nefndin telur að geti orðið lögreglu til framdráttar.

Dómsmálaráðherra skipi í þessu skyni nefnd með aðild dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélags Íslands, Lögregluskóla ríkisins, Landssambands lögreglumanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi á haustþingi 2004.``

Við höfum iðulega rætt, virðulegi forseti, málefni lögreglunnar og þá fjárþörf sem mörg okkar telja að lögreglan hafi verið í. Margir telja að þróun framlaga til lögreglunnar hafi ekki fylgt þeim breytingum sem orðið hafa á samfélaginu og tilflutningi íbúa. Þó er alls ekki við lögregluna að sakast --- það er nauðsynlegt að taka það fram --- sem oft hefur við erfið skilyrði tekist vel upp við löggæsluna þrátt fyrir aukin verkefni, minnkandi yfirvinnu og verulega fækkun óbreyttra lögreglumanna. Miklar umræður og deilur hafa verið um hvort almanna- og réttaröryggi sé tryggt með hliðsjón af núverandi fjölda lögreglumanna og skipulagi löggæslu í landinu.

Síðastliðinn áratug hefur orðið gífurleg þróun í íslensku samfélagi og umhverfið allt orðið flóknara og alþjóðlegra. Samfara þessum breytingum hefur afbrotum fjölgað, ekki síst auðgunar-, ofbeldis- og fíkniefnabrotum, sem oft tengjast innbyrðis. Einnig hefur kærum vegna kynferðisbrota fjölgað og nýir brotaflokkar orðið til, svo sem skipulögð glæpastarfsemi, efnahagsbrot, tölvubrot og brot gegn ýmsum sérrefsilögum. Fólksfjölgun hefur verið mikil og þróun byggðar þannig að fleiri og fleiri flytjast til höfuðborgarsvæðisins.

Þá hefur bifreiðaeign landsmanna stóraukist og hefur það leitt til mikillar útþenslu í umferðinni. Veitingastöðum, fyrirtækjum og verslunum hefur fjölgað ört á þessu tímabili.

Í skýrslu sem hæstv. fyrrv. dómsmrh. lagði að mig minnir fram á 128. löggjafarþingi kom fram að á árunum 1990--2001 hafi yfirmönnum og stjórnendum í lögreglu fjölgað mikið. Það sem er alvarlegast í þessu, virðulegi forseti, er að á sama tíma hefur óbreyttum lögreglumönnum á landinu öllu fækkað um tæp 30% þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um rúmlega 30 þúsund. Við höfum orðið vör við, virðulegi forseti, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, verulega fækkun á óbreyttum, almennum lögreglumönnum. Við sjáum það í miðborginni að það er ekki oft sem lögreglumenn sjást þar á ferli eins og var fyrir nokkrum árum síðan. Ljóst er að fjárþörf og fjárvöntun lögreglunnar hefur átt verulegan þátt í því.

Ég vil rifja upp að fyrir nokkrum árum, sennilega fyrir þremur árum, óskaði ég eftir að fá í hendur fjárlagabeiðnir lögreglustjórans í Reykjavík. Þá kom fram að verulega vantaði upp á, einhverja tugi lögreglumanna, virðulegi forseti, að hægt væri að halda uppi lágmarksþjónustu við íbúana að mati lögreglustjórans í Reykjavík.

Óánægja ýmissa aðila í þjóðfélaginu með fjárveitingar til löggæslunnar er þó engan veginn bundin við höfuðborgina, og hafa sveitarfélög víða ályktað vegna ófullnægjandi löggæslu og öryggisleysis íbúanna að þeirra mati.

Helstu gallar á núverandi skipulagi eru að flest embættin eru of litlar löggæslueiningar, sem kemur meðal annars í veg fyrir aukna sérhæfingu, svo sem varðandi rannsóknir, en nauðsynlegt er að koma upp öflugum rannsóknardeildum um landið. Stærð lögregluliða þarf m.a. að taka mið af staðháttum, samgöngum, stærð landsvæðis, lengd vegakerfis, fjölda íbúa og samsetningu byggðar, hvort heldur er í dreifbýli eða þéttbýli. Hafa verður í huga tíðni afbrota og heppilegt skipulag og stærð lögregluliðs, með það að markmiði að hvert lögreglulið hafi sem mesta getu til að ráða við þau verkefni sem upp geta komið í umdæminu. Þjónusta við almenning hvað varðar löggæslu er í reynd mismunandi eftir búsetu. Hvað skipulag snertir er þó nægjanlegt að hafa margvíslega umsýslu verkefna á einum stað fyrir allt landið, svo sem varðandi starfsmannamál.

Núverandi skipting lögreglu í 26 embætti með 26 lögreglustjórum er mjög þunglamaleg og stendur þróun lögreglunnar fyrir þrifum. Í reynd má segja að núverandi kerfi sé þess eðlis að íbúar fái misjafna þjónustu lögreglu eftir búsetu.

Ég vil benda á hvernig þessu er háttað erlendis, þá á ég við Norðurlöndin. Í Noregi hafa orðið miklar breytingar á skipulagi lögregluembætta og um þessar mundir er verið að fækka embættum þar um nánast helming, þau voru áður 54. Í Svíþjóð og Finnlandi er unnið að fækkun embætta og í Danmörku eru þessi mál í mikilli skoðun. Samfara þeim breytingum hefur lögreglumönnum eða lögreglustöðvum ekki fækkað, heldur er einungis stefnt að nýrri uppbyggingu löggæslunnar í viðkomandi löndum. Í Svíþjóð hafa embætti ríkislögreglustjóra og landssamband sænskra lögreglumanna orðið ásátt um að fjölga þurfi lögreglumönnum um allt að 3.000, sem meðal annars lýtur að stækkun Evrópusambandsins til austurs og þeim vandamálum sem því fylgir, auk þess sem skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist í Svíþjóð og eins glæpir almennt.

[17:15]

Ég held því, herra forseti, að það sé full ástæða til að kanna sérstaklega kosti þess og galla að færa líka yfir til sveitarfélaganna tiltekna þætti löggæslunnar í þeirri skipulagsbreytingu sem við viljum sjá. Ýmsir sveitarstjórnarmenn telja að með slíkum breytingum megi auka öryggi íbúa í nánari samvinnu við lögregluyfirvöld, félagasamtök og fagaðila á hverjum stað. Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að á þessu eru skiptar skoðanir en yfirvöld í Reykjavík hafa m.a. haft áhuga á að þetta verkefni flytjist yfir til Reykjavíkurborgar.

Ég held að það geti ekki einungis tryggt aukið öryggi og þjónustu, heldur einnig að hægt verði að skipuleggja markvisst átak gegn vímuefnavandanum með aðgerðaáætlun. Ekki síður gæti það tryggt nauðsynlegar aðgerðir til að koma umferðaröryggismálum í betra horf.

Ég vil, herra forseti, hér undir lokin nefna líka mikilvægan þátt í þeirri skoðun sem við viljum láta fara fram á breytingu á skipulagi lögreglumála, að það verði m.a. litið til menntunarmála lögreglumanna. Allar þær breytingar sem orðið hafa á starfsumhverfi lögreglunnar kalla óhjákvæmilega á menntun lögreglumanna, bæði grunnmenntun, framhaldsmenntun og aukna menntun stjórnenda í lögreglunni. Það er nauðsynlegt að allir þættir séu þar skoðaðir þegar gera á úttekt eins og hér er lögð til sem hefur það markmið að auka hagkvæmni, jafnframt því að bæta þjónustuna við íbúa og eru menntunarmál lögreglumanna einn þáttur í því.

Virðulegi forseti. Til að ná sátt um uppbyggingu á stöðu lögreglunnar í landinu verður að fara af kostgæfni og vandvirkni yfir þau atriði sem þessi þáltill. kveður á um og til þess að tryggja sem best öryggi og þjónustu við borgarana. Í þá vinnu verður dómsmrn. að ráðast með fulltrúum sveitarfélaga, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélagi Íslands, Lögregluskóla ríkisins og Landssambandi lögreglumanna. Meginatriðið er að farið verði gaumgæfilega yfir hvaða leiðir séu skynsamlegastar til að auka hagkvæmni, skilvirkni þjónustu við íbúana og öryggi þeirra.

Sú mikla breyting, virðulegi forseti, sem ég lýsti í upphafi máls míns sem orðið hefur á þjóðfélaginu á umliðnum árum gefur tilefni til þess að lagt sé í þá vinnu sem þessi þáltill. kveður á um.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að það er nokkuð breið samstaða um þessa tillögu á hv. Alþingi. Að henni standa fulltrúar allra þingflokka á Alþingi nema frá Sjálfstfl. Það er því ljóst, virðulegi forseti, að það má ætla að þessi tillaga hafi góðan meiri hluta á þingi. Ég vek líka athygli á því að nýr dómsmrh. hefur nýverið sagt opinberlega, ég held að það hafi verið á fundi sýslumanna á Selfossi í október, að hann telji að það þurfi að styrkja lögregluumdæmin. Hann viðraði þá hugmynd að hugsanlega bæri að stefna að stækkun lögregluumdæma og eflingu þeirra. Það er, herra forseti, meðal þess sem kveðið er á um í þessari tillögu.

Ég held að mjög gott væri fyrir hæstv. ráðherra að hafa stuðning þingsins með samþykkt þessarar tillögu við það verkefni sem hann ætlar vonandi að ráðast í. Maður verður að ætla, meðan annað kemur ekki upp, að ráðherrar hafi góðar meiningar í því að það þurfi að styrkja lögregluumdæmin og efla lögregluna. Að vísu sér maður það ekki mikið, virðulegur forseti, í fjárlagafrv. en það er orðið mjög brýnt að skilgreina þá lágmarksþjónustu og þann lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi sem við viljum sjá. Það er ekki lengur búandi við þessar eilífu deilur, nýjar á hverju ári nánast, um það fjársvelti sem lögregluembætti þurfa að búa við. Við verðum að skilgreina þá þjónustu sem við viljum sjá í löggæslu okkar og öryggi fyrir íbúana. Og að því miðar þessi tillaga, herra forseti.

Það er því von okkar flutningsmanna að um þessa tillögu geti náðst víðtæk sátt, hraðað verði þeirri úttekt sem hér er lögð til og niðurstaða um mat á kostum sem til greina koma verði síðan lögð fyrir haustþingið 2004.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessa tillögu neitt frekar en legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til síðari umr. og hv. allshn.