Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:44:11 (1512)

2003-11-12 13:44:11# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Með þessum ráðstöfunum er augljóst að ríkisstjórnin er að gefa stefnu sinni í þessum málaflokki falleinkunn. Það liggur í augum uppi. Það er ekki að sjá ljós í myrkri í þessum tillögum. Þær aðgerðir eða þær aðferðir sem stjórnvöld hafa hvað varðar skipan mála á þessum markaði ná ekki jafnvægi á kjötmarkaði. Þau ná ekki að leysa vanda kjötframleiðenda til frambúðar og eins og fram hefur komið duga þær heldur ekki til að veita bændum lífsviðurværi. Um 70 ár eru frá því að landbúnaður varð sérstakt verkefni á borði ríkisstjórnar hér á landi. Í um 61 ár hafa helmingaskiptaflokkarnir tveir sem nú sitja að völdum farið með þetta ráðuneyti. Í dag hafa þeir í rauninni eina ferðina enn gefið stefnu sinni í málaflokknum falleinkunn.

Ég held að mikilvægt sé að fá fram í umræðunni hvernig umræddum fjármunum er ráðstafað og að fram komi hverjir það eru sem fá hæstu greiðslurnar og hvaða bændur fái lægstu greiðslurnar þegar ríkisstjórnin deilir úr þessum sjóði sínum.