Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:46:12 (1513)

2003-11-12 13:46:12# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Sauðfjárbændur eru ekki ofsælir af þeim 140 millj. kr. sem þeim var úthlutað með ákvörðun ríkisstjórnarinnar. En sauðfjárbændur eru heldur ekki ofsælir af hæstv. landbrh. sem hefur engin ráð til lausnar á þeim vanda sem við þeim blasir. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og hella fúkyrðum yfir þá þingmenn sem benda á þá augljósu staðreynd að á meðan hæstv. ráðherra hefur setið á rassi sínum aðgerðalítill, að ég ekki segi aðgerðalaus, í landbrn. hefur fjarað undan sauðfjárbændum. Það þýðir ekki að ráðast með fúkyrðaflaumi að boðbera þeirra válegu tíðinda að hæstv. landbrh. hefur enga lausn til frambúðar.

Hvernig má það vera, frú forseti, að í landbúnaðarráðherratíð Framsfl. hafi komið upp sú staða að sauðfjárbændur hafa aldrei búið við verri skilyrði en undir hæstv. landbrh. Guðna Ágústssyni? Það þýðir ekki fyrir hann að hella köpuryrðum yfir og skattyrðast við hv. þingmenn sem vekja máls á þeirri einföldu staðreynd. En hvar eru lausnir hæstv. ráðherra? Þær skortir.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að sauðfjárbændur væru ekki ofsælir af því sem þeir fengu frá hæstv. ríkisstjórn. En það breytir ekki hinu að ekkert gerðist í gær og ekkert mun gerast á morgun af hálfu þessarar ríkisstjórnar, hvað þá hæstv. landbrh., sem skiptir sköpum um framtíð þeirra. Hæstv. ráðherra kom sjálfur hingað í ræðustól fyrr á þessu hausti og hrósaði sjálfum sér af því að hafa tekið svo í taumana varðandi aðrar greinar að bændur þar horfðu nú fram á bjarta framtíð. En hann sagði sjálfur að staða sauðfjárbænda á markaði væri erfið og það væri allt saman bönkunum að kenna.

Sjálfur hefur hann og flokkur hans gengið fram fyrir skjöldu til að veikja Samkeppnisstofnun. Svo kemur hann núna og talar um að styrkja þurfi hana til að hjálpa sauðfjárbændum. Ég spyr, frú forseti: Er ekki eina lausnin á vanda sauðfjárbænda í dag sú að skipta um landbúnaðarráðherra? (SJS: Hvaðan á sá nýi að koma?)