Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:48:47 (1514)

2003-11-12 13:48:47# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. brást heldur illa við því sem ég sagði hér áðan. Ég var einfaldlega að benda á að þessi ríkisstjórn, eins og aðrar af svipuðu tagi í gegnum tíðina, kann ekki neitt í landbúnaðarmálum nema þessa gömlu stefnu. Það er engin breyting á því núna.

Auðvitað þarf enginn að vera hissa á því þó að forráðamenn sauðfjárbænda lýsi yfir ánægju með niðurstöðuna eftir að hafa samið við ríkisstjórnina um þessa niðurstöðu. En hún er engin framtíð fyrir þá og það er vandinn, að ríkisstjórnin kemst ekki til ráðs við verkefnið. Það þarf að hafa framtíðarhugsun fyrir allan landbúnaðinn í huga en ekki horfa bara beint á einhverjar tvær búgreinar og komast aldrei út úr því.

Hvers eiga þeir að gjalda sem vilja stunda annan atvinnurekstur í dreifbýli landsins? Þeir fá enga athygli stjórnvalda. Halda menn að það sé eitthvert sældarlíf og jólin hjá þeim sem reka núna ferðaþjónustu á landsbyggðinni? Fyrirtæki í þeim bransa eru að fara á hausinn um allt land. Hvernig halda menn að ástandið sé hjá kjötframleiðendum sem framleiða nautakjöt?

Það er auðvitað ekki boðlegt að fara svona að, að taka eina búgrein út úr, setjast yfir það og finna niðurstöðu. Þó var ég ekkert að mótmæla niðurstöðunni, það var útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra. Ég var bara að benda á að vinnubrögðin eru óboðleg. Þessi ríkisstjórn ætti að fara að skammast til að setjast yfir það að breyta þessari fornu landbúnaðarstefnu.