Hús skáldsins á Gljúfrasteini

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:59:35 (1516)

2003-11-12 13:59:35# 130. lþ. 26.1 fundur 71. mál: #A hús skáldsins á Gljúfrasteini# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Þegar hæstv. forsrh. sagði frá því í árslok 2001 að erfingjar Halldórs Laxness hefðu léð máls á því að íslenska ríkið eignaðist hús skáldsins á Gljúfrasteini bætti hann því við að þar með gæfist okkur tækifæri til, með leyfi forseta, ,,að sýna minningu skáldsins nokkurn sóma``. Þetta var hógværlega orðað og í stíl Halldórs sjálfs og má segja með sanni að hér hafi forsrh. talað fyrir munn þjóðarinnar allrar sem raunar er ekki alsiða. Þess vegna vakti það sérstaka athygli þegar bæði Gljúfrasteinn og ýmis gögn þaðan komust í hámæli á haustmánuðum. Einum aðstandenda, dóttur skáldsins, hafði verið falin umsjón hússins með samningi en ekki reyndist áhugi á því að halda þeirri skipan mála áfram þegar samningurinn rann út. Húsið var þó ekki komið í hendur undirbúningsnefndar að þeirri stofnun sem þar á að lokum að standa og ekki fenginn annar umsjónarmaður. Þá er óljóst hvernig farið hafði verið og fara skyldi með gögn skáldsins ýmis og bækur, bæði þau sem áður höfðu verið falin Landsbókasafninu til varðveislu og þau sem Auður Laxness, ekkja Halldórs, gaf þjóðinni sérstaklega með gjafabréfi 21. apríl 2002. Hæstv. forsrh. hafði ekki séð sér fært að tjá sig um þessi efni í fjölmiðlum þegar komið var fram í byrjun október og mér þótti því rétt að gefa honum tækifæri til að skýra þessi mál hér á þinginu.

Eftir að fyrirspurnin kom fram á öðrum degi þingsins kviknuðu líka margs konar fréttir, flestar reyndar tengdar fræðimanni nokkrum hér í bæ sem hyggst skrifa bækur um skáldið. Um þann fræðimann fjallar þessi fyrirspurn ekki sérstaklega. En meðfram þessu kom í ljós að eftir að upphaflegur umsjónarmaður lét af störfum virðist skrifstofumaður á vegum forsrh. hafa tekið að sér einhvers konar umsjónarstörf með húseign, innbúi og gögnum á Gljúfrasteini og er kunnugt um a.m.k. tvær ferðir þessa starfsmanns í ráðuneyti hæstv. forsrh. þangað upp eftir. Önnur var farin ásamt landsbókaverði til að hirða þar gögn sem hann taldi tilheyra sér. Síðar kom í ljós að þar var um að ræða einkaeign erfingja skáldsins og urðu Gljúfrasteinsfarar að skila aftur þeim feng.

Hina ferðina fór skrifstofumaðurinn til að sýna húsið áðurnefndum fræðimanni, að því er virðist með sérstöku leyfi hæstv. forsrh. en ekki er kunnugt um að slíkar skoðunarferðir hafi verið sérstaklega auglýstar eða kynntar áhugamönnum eða almenningi. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. fagni tækifærinu til að skýra þessi mál og tengsl þeirra við þann ásetning að leitast við að sýna minningu skáldsins nokkurn sóma.

Þegar íslenska ríkið keypti hús og lóð af erfingjum skáldsins og tók við rausnarlegri gjöf var það ekki gert til þess að hæstv. forsrh., húskarlar hans eða vildarvinir hefðu þar frjálsa ráðstöfun heldur var þetta verk unnið fyrir hönd þjóðarinnar og í þágu hennar sem með því heiðrar sitt skáld, fremsta Íslending aldarinnar sem leið, og þetta vænti ég að hæstv. forsrh. staðfesti í svari sínu hér á eftir.