Hús skáldsins á Gljúfrasteini

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:02:50 (1517)

2003-11-12 14:02:50# 130. lþ. 26.1 fundur 71. mál: #A hús skáldsins á Gljúfrasteini# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mun svara þeim fyrirspurnum sem hv. þm. hefur borið fram en leiði hjá mér annað sem er fyrirspurninni óviðkomandi.

Hv. þm. hefur spurt: 1. Hvað líður stofnun safns um Halldór Laxness á Gljúfrasteini? Hvernig verður háttað samstarfi þess og væntanlegs fræðaseturs á vegum Mosfellsbæjar?

Í 4. gr. samnings um safn Halldórs Laxness á Gljúfrasteini í Mosfellsdal segir m.a., með leyfi forseta: ,,Íslenska ríkið mun opna safn um Halldór Laxness á Gljúfrasteini. Forsætisráðherra skipar þriggja manna ráðgefandi stjórn fyrir safnið og ræður til þess safnstjóra sem stýrir daglegri starfsemi þess undir yfirstjórn forsætisráðuneytisins.``

Forsrh. skipaði hinn 24. mars sl. ráðgefandi stjórn fyrir safnið og nú hefur verið auglýst eftir starfsmanni sem gegna skal starfi safnstjóra. Hafa allmargar umsóknir borist. Unnið er að viðgerðum og endurbótum á húsinu á Gljúfrasteini og undirbúningi að skipulagi á safninu. Stefnt er að því að safnið verði opnað almenningi í ágúst 2004. Hafnar eru viðræður við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ um málefni fræðaseturs Halldórs Laxness í Mosfellsbæ. Meðal þess sem rætt hefur verið er að kanna möguleika þess að fræðasetur verði staðsett í næsta nágrenni við Gljúfrastein. Með þeim hætti mætti samræma og samhæfa betur þá starfsemi sem lýtur að varðveislu og miðlun upplýsinga um ævi og störf Halldórs Laxness.

2. Hvernig hefur umsjón með eigninni á Gljúfrasteini verið háttað frá afhendingunni 21. apríl 2002?

Byggingardeild forsrn. hefur haft yfirumsjón með eigninni á Gljúfrasteini frá 21. apríl 2002. Forsrn. gerði samning til eins árs við Guðnýju Halldórsdóttur um að hún mundi hafa tilsjón með húsinu og vera ráðuneytinu innan handar við hvaðeina sem það snertir, þar á meðal skráningu húsmuna. Sá samningur rann út 31. ágúst 2003 og var aldrei gert ráð fyrir framlengingu hans.

3. Hefur húseignin verið nýtt með einhverjum hætti á vegum forsætisráðuneytisins frá apríl 2002 eða öðrum verið heimiluð afnot af henni?

Frú Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, voru heimiluð afnot af húseigninni þar til hún flutti að Dvalarheimili aldraðra í Mosfellsbæ þann 12. ágúst 2002. Að öðru leyti hefur húseignin ekki verið nýtt á vegum forsrn.

4. Hver varðveitir bókasafn Halldórs Laxness, handrit hans og minnisbækur sem Auður Laxness gaf íslenska ríkinu? Hvernig er háttað umsjón þeirra, flokkun og skráningu?

Bókasafn Halldórs Laxness er og verður varðveitt á Gljúfrasteini. Yfirumsjón með skráningu safnsins er í höndum bókasafnsfræðings í forsrn. en nú stendur yfir tenging þeirra eintaka sem þegar eru skráð og flokkuð í landskerfi bókasafna, Gegni. Handrit Halldórs Laxness og minnisbækur hafa verið afhentar Landsbókasafni Íslands -- Háskólabókasafni til varðveislu og mun safnið annast flokkun og skráningu þeirra. Skjöl þau sem frú Auður Laxness gaf þjóðinni og afhenti Þjóðarbókhlöðu eru Gljúfrasteini og þeirri starfsemi algjörlega óviðkomandi.