Sýkingarhætta á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:42:23 (1534)

2003-11-12 14:42:23# 130. lþ. 26.4 fundur 159. mál: #A sýkingarhætta á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Það er alveg ljóst af því sem ráðherra bar fram hér áðan að þegar á tiltölulega fáum árum hafa borist 17 tilvik skráð um spítalasýkingar, þar af 11 alvarlegar, þá gerir það ekkert annað en að staðfesta það sem umræddir læknar í Læknablaðinu halda fram, að málið sé mjög alvarlegt og þeir hafi verulegar áhyggjur af því hvað spítalasýkingum hafi fjölgað á síðustu missirum. Vitnað er til þess að hreinlætisaðstaða sé bágborin og mikil nálægð sjúklinga og síendurtekin tilfærsla þeirra grafi undan sýkingavarnastarfi.

Þess vegna verð ég að segja, herra forseti, að mér kom það á óvart að hæstv. ráðherra var að draga úr því sem þessir læknar, sóttvarnalæknir annars vegar og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, halda fram og gera minna úr því en efni standa til. Það finnst mér mjög alvarlegt. Ég gat ekki skilið annað á orðum hæstv. ráðherra.

Það verður auðvitað að gera áætlanir um hvernig á að standa að vörnum gegn slíkum sýkingum, hvort sem ráðist verður í byggingu nýs spítala eða ekki sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að er óvíst, þá tekur það mörg ár þar til fullkominn spítali sem tekur tillit til sýkingavarna verður reistur. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að gera nú áætlanir um hvernig megi taka með markvissum og fyrirbyggjandi hætti á þessu máli vegna þess að við verðum greinilega að búa við þennan spítala í einhver ár í viðbót. Það er alveg ljóst að það margborgar sig þegar sóttvarnalæknir heldur því fram að slíkar spítalasýkingar geti kostað hundruð milljóna á hverju ári.

Þess vegna, herra forseti, vænti ég þess að hæstv. ráðherra taki alvarlegar á þessu máli heldur en mér fannst koma fram í máli hans hér áðan. Mér finnst þetta mál grafalvarlegt, herra forseti.