Samkomulag við heimilislækna

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:55:13 (1539)

2003-11-12 14:55:13# 130. lþ. 26.2 fundur 118. mál: #A samkomulag við heimilislækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann kom með. Mér sýnist samt sem áður að lítið hafi breyst frá því í ágúst. Ég hef undir höndum viðtal við hæstv. ráðherra sem tekið var af einum fjölmiðli. Þar er því lýst að Félag ísl. heimilislækna sé orðið heldur langeygt eftir því að gengið sé frá því samkomulagi sem fyrirheit voru gefin um. Hæstv. ráðherra segir að í ágúst eftir þessa tvo fundi í apríl og 13. maí geri hann sér vonir um að að sumarfríum loknum verði hægt að fara í að vinna að þessum samningum eins og í viljayfirlýsingunni standi. Það hefur heldur lítið gerst síðan þá.

Þetta er kannski það sem að er í heilbrigðiskerfinu, þ.e. þessi seinagangur á öllu. Það er gefin ákveðin viljayfirlýsing í nóvember 2002. Nú er nóvember 2003 og það er búið að vinna nokkurn vegin a- og b-lið samkomulagsins en c-liðurinn er eftir. Það hafa verið haldnir tveir fundir á heilu ári. Það er oft nefnt hér, virðulegi forseti, að það þurfi að styrkja heilbrrn., það vanti kannski fleira starfsfólk þarna inn svo að hægt sé að sinna öllum þeim mikilvægu verkefnum sem þar eru og e.t.v. er það ástæðan fyrir því að ekki gengur betur en raun ber vitni í stefnumörkun, í vinnu og því t.d. að ganga frá því samkomulagi sem hér um ræðir. Vera má að það sé vegna þess að það vantar mannskap. Þó getur verið að ástæðan sé sú að ekki sé mikill áhugi á þessum þætti heilbrigðismála, þ.e. heilsugæslunni. Getur það verið?