Heilsugæslumál

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:16:05 (1549)

2003-11-12 15:16:05# 130. lþ. 26.6 fundur 227. mál: #A heilsugæslumál# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SÞorg
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir):

Virðulegi forseti. Ein mikilvægasta grunnþjónusta hvers sveitarfélags er heilsugæsla fyrir íbúana. Íbúum Kópavogs hefur fjölgað mjög mikið undanfarin ár og eru nú um 26.000, þar af búa um 5.000 íbúar í Linda- og Salahverfi og á Vatnsenda. En þessi hverfi liggja fyrir austan Reykjanesbraut. Aukin uppbygging er nú á Vatnsenda og einnig hefur verið úthlutað lóðum á Hörðuvöllum, svo íbúum austan Reykjanesbrautar mun fjölga ört á næstu árum. Er gert ráð fyrir að íbúar á þessu svæði verði um 11.000 innan tíu ára.

Hluti íbúa í þessum hverfum er án læknis eða sækir læknisþjónustu á þær heilsugæslustöðvar sem fyrir eru í Kópavogi og nálægum hverfum. Biðtími eftir viðtali hjá heimilislækni hefur lengst verulega að undanförnu. Vegna erfiðleika við að ná sambandi við heimilislækni hefur aðsókn til annarra læknisfræðilegra sérfræðinga og vaktþjónustu aukist verulega. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf að leita til læknis og fá lausn sinna vanda og hún á að leiðbeina fólki um heilbrigðiskerfið. Viðurkennt er að góð og virk frumheilsugæsla getur leitt til verulegs sparnaðar í heilbrigðisþjónustunni.

Á síðasta ári ákvað hæstv. heilbr.- og trmrh. að bjóða út rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salahverfi. Í maí sl. var síðan undirritaður samningur við fyrirtækið Salus ehf. um rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salahverfi. Samningur af þessu tagi hefur ekki verið gerður áður á Íslandi og ég fagna honum, hann opnar fyrir fleiri kosti í heilsugæslu en verið hefur.

Þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar í Linda- og Salahverfi ásamt Vatnsendahverfi, en þar búa fjölmörg börn og meðalaldur lágur og því enn brýnna að stöðin verði opnuð sem allra fyrst, en stöðin á m.a. að sinna ungbarnavernd, unglingaráðgjöf og heilsugæslu í skólum. Gert var ráð fyrir að heilsugæslustöðin í Salahverfi yrði tekin formlega í notkun í haust, en hún hefur ekki enn tekið til starfa. Því spyr ég hæstv. heilbrrh.: Hvenær er fyrirhugað að heilsugæslan í Salahverfi í Kópavogi taki til starfa og hvað munu margir heilsugæslulæknar starfa þar?

Að lokum, virðulegi forseti, legg ég fram spurningu vegna heilsugæslustöðvarinnar í Fannborg. Vegna mikillar fólksfjölgunar og skorts á heilsugæslulæknum í bænum hefur verið gífurlegt álag á þær heilsugæslustöðvar sem þar eru starfræktar. Heilsugæslustöðin í Fannborg hefur búið við illan kost, en hún er elsta stöðin í Kópavogi. Ljóst er að húsnæðið er orðið afar lélegt og mjög brýnt að stöðin flytji í nýtt húsnæði. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er fyrirhugað að heilsugæslustöðin í Fannborg flytji í nýtt húsnæði?