Heilsugæslumál

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:19:20 (1550)

2003-11-12 15:19:20# 130. lþ. 26.6 fundur 227. mál: #A heilsugæslumál# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurrós Þorgrímsdóttir hefur beint til mín spurningum varðandi heilsugæslu í Kópavogi, einkum um heilsugæslusutöðina í Salahverfi og hvenær fyrirhugað sé að hún taki til starfa, hve margir læknar muni starfa þar og hvort fyrirhugað sé að flytja heilsugæslustöðina í Fannborg í nýtt húsnæði.

Húsnæði var tekið á leigu við Salaveg 2 fyrir heilsugæslustöð í Salahverfi. Ákveðið var að bjóða rekstur þeirrar stöðvar út og var þar um frumkvæði af minni hálfu að ræða. Í ráðuneytinu var lögð mikil vinna við gerð útboðsgagna þar sem kröfulýsingar til ýmissa þátta starfseminnar voru ítarlega unnar og þeim lýst. Í lok síðasta árs var útboðið auglýst á vegum Ríkiskaupa og skilafrestur tilboða rann út um miðjan febrúar 2003. Mjög vönduð tilboð bárust og verðtilboð voru opnuð um miðjan mars 2003.

Að loknu mati á tilboði var undirritaður samningur við hóp sem kallar sig Salus og var samningurinn undirritaður 6. maí 2003. Það var ákvörðun ráðuneytisins frá upphafi að tilboðsgjafar gætu haft bein áhrif á fyrirkomulag innréttinga stöðvarinnar, ef ekki yrði um kostnaðarauka fyrir ráðuneytið að ræða, og reyndist það mjög jákvætt. Innréttingu stöðvarinnar, sem er á vegum leigusala hússins, lýkur í nóvember og húsnæðið verður afhent Salus til endanlegrar innréttingar og undirbúnings starfseminnar.

Samkvæmt samningi hefur Salus allt að þrjá mánuði til að hefja fulla starfsemi í stöðinni, en samkvæmt nýjustu upplýsingum þaðan er gert ráð fyrir að starfsemin hefjist fljótlega eftir áramótin, um miðjan janúar. Það er gert ráð fyrir að tveir læknar starfi við stöðina í upphafi, en eftir því sem skráðum einstaklingum fjölgar við Salastöðina er gert ráð fyrir að læknum fjölgi að sama skapi, þannig að fullnýtt stöð gæti verið starfsvettvangur fyrir sex heimilislækna.

Við opnun þessarar stöðvar gjörbreytast mál heilsugæslu Kópavogs til hins betra. Þá eru komnar þrjár heilsugæslustöðvar í bæjarfélagið og þar af tvær með þeim nýjustu á landinu.

Ljóst er að heilsugæslustöðin í Fannborg er staðsett í húsnæði sem í upphafi var ekki ætlað til slíkrar starfsemi. Verulega hefur þó létt á þeirri stöð og mun létta við það að tvær nýjar koma í bæjarfélagið. Möguleikar á flutningi stöðvarinnar hafa verið skoðaðir, en það liggja ekki fyrir ákvarðanir í því máli.

Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þm. um heilsugæslumál í Kópavogi.