Heilsugæslumál

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:23:07 (1552)

2003-11-12 15:23:07# 130. lþ. 26.6 fundur 227. mál: #A heilsugæslumál# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurrós Þorgrímsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Kópavogur er ört stækkandi bæjarfélag og glímir við sama vanda og mörg önnur bæjar- og sveitarfélög í landinu sem er skortur á frumheilsugæslu.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir vakti athygli á því að hér í kjördæmum í Reykjav. s. og Reykv. n. hefur verið viðvarandi vandi af þessu tagi. Sú tilraun sem menn eru að ráðast í í Salahverfinu er ákaflega merkileg. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að taka upp nýjar leiðir og nýjar áherslur, ekki síst á sviði heilsugæslunnar, til þess að ráða bót á þeim vanda sem þar er við að glíma, ekki bara á hinum þéttbýlli svæðum landsins, heldur um allt land. Við vitum að skortur á heilsugæslu og skortur á læknum úti um landið hefur verið einn af þeim þáttum sem hafa dregið úr vilja manna til þess að byggja hinar dreifðu byggðir. Ég held að menn þurfi að ráðast gegn því vandamáli með nýjum aðferðum og þess vegna er brýnt að við sjáum afleiðingarnar af þessari tilraun sem hæstv. heilbrrh. hefur ráðist í í Kópavogi.