Heilsugæsla á Suðurlandi

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:28:48 (1556)

2003-11-12 15:28:48# 130. lþ. 26.7 fundur 232. mál: #A heilsugæsla á Suðurlandi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu síðan barst sveitarstjórnum á Suðurlandi bréf þar sem þeim var tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að stjórn allra heilsugæslustöðva á Suðurlandi yrðu um næstu áramót færð á einn stað undir stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Í sjálfu sér höfðu sveitarstjórnirnar ekkert með þetta að gera, þar sem yfirstjórn heilsugæslunnar er hjá ríkinu. Þó hefði mátt ætla, þar sem áður hafði heyrst sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að hann teldi ekki fráleitt að skoða þann möguleika að sveitarfélögin tækju yfir rekstur heilsugæslunnar sem hefur gefist nokkuð vel hjá svokölluðum tilraunasveitarfélögum og vegna þess að nú er að störfum nefnd sem á að skoða breytt verkaskipti ríkis og sveitarfélaga, að þetta verkefni hlyti að vera ofarlega á blaði hvað varðar aukin verkefni sveitarfélaganna. Vegna þessa hefði mátt ætla að beðið yrði með ákvarðanatöku þar til nefndin lyki störfum. En það er einkennilegt, þó ekki sé meira sagt, að ráðast í breytingar á þessum tímapunkti.

Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort hægt er að ná fram betri og hagkvæmari rekstri með því að stjórn heilsugæslunnar t.d. á Klaustri, Vík, Hveragerði, Ölfusi, Laugarási, Hvolsvelli og Hellu, verði á Selfossi, en það liggja fyrir formleg mótmæli a.m.k. frá einu þessara sveitarfélaga, Ölfusi. Í bréfi frá þeim segir, með leyfi forseta:

,,Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss þann 29. október sl. var eftirfarandi samþykkt gerð:

Bæjarstjórn Ölfuss ítrekar andmæli sín við fyrirhuguð áform heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um sameiningu heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva á Suðurlandi. Bæjarstjórn Ölfuss óskar eindregið eftir viðræðum við ráðuneytið um mögulega yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri heilsugæslustöðvarinnar í Þorlákshöfn.

Bæjarstjórn Ölfuss átelur ef ráðist yrði í þessar breytingar gegn vilja bæjarstjórnar. Bæjarstjórn mun ekki undir nokkrum kringumstæðum sætta sig við skerta eða breytta þjónustu heilsugæslunnar.``

Bréf þetta sýnir að það átti sér ekki stað eðlilegt samráð við sveitarstjórnirnar. Það átel ég, sérstaklega í ljósi þess að vilji bæjarstjórnar Ölfuss er að taka við rekstri heilsugæslunnar og hún hefur mótmælt þessari ákvörðun harðlega í tvígang.

Ég ber fram spurningar í ljósi þess að verið er að skoða breytt verkaskipti ríkis og sveitarfélaga þar sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur ekki útilokað breytingu á rekstri heilsugæslunnar og síðast en ekki síst í ljósi þess að sveitarstjórnum og stjórnum heilsugæslustöðva á hverjum stað var ekki gefið svigrúm til að ræða aðra möguleika. Svokallaðir samráðsfundir voru í raun aðeins kynningarfundir á tekinni ákvörðun.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig var staðið að undirbúningi þeirrar ákvörðunar að hafa stjórn allra heilsugæslustöðva á Suðurlandi undir einum hatti og hverjir sáu um undirbúninginn?

2. Var haft samráð við núverandi starfsfólk heilsugæslustöðva á Suðurlandi?

3. Var haft samráð við sveitarstjórnir á Suðurlandi?

4. Hver er afstaða ráðherra til þess að flytja umsjón heilsugæslunnar yfir til sveitarfélaga?

Að lokum: Hefur ráðherra tekið ákvörðun varðandi erindi bæjarstjórnar Ölfuss þess efnis að sveitarfélagið taki sjálft við rekstri heilsugæslustöðvarinnar?